23.02.1929
Efri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefði verið ástæða til þess að fylgja frv. þessu úr hlaði með ítarlegri ræðu, því að mál það, er hjer um ræðir, er mjög merkilegt og mikilsvert fyrir atvinnuvegi vora. Þó hefi jeg, sökum anna minna nú í þingbyrjun, eigi sjeð þess kost að búa mig undir slíka ræðu, en verð að láta nægja að skýra stuttlega frá aðaltilefni þess, að þetta frv. er fram borið, en það er ástand það, er ríkir í landbúnaði vorum um sjúkdóma þá í búfje landsmanna, er árlega valda stórtjóni.

Það er enginn vafi á því, að ef það á að takast að grafa fyrir rætur þessara sjúkdóma og koma við umbótum, þá verður að taka til sjerstakra ráða.

Sumir af sjúkdómum þessum eru ekki þektir annarsstaðar en hjer á landi, og verður því varla til þess ætlast, að útlendingum takist að grafa fyrir rætur þeirra. Hefir því verið hnigið að því ráði í þessu frv. að koma á fót vísindalegri stofnun, er unnið gæti að rannsókn á sjúkdómum þessum og hefði auk þess með höndum ýms hliðstæð verkefni, eins og um er getið í frv.

Jeg vil geta þess, að í hópi bænda hefir mál þetta verið rætt áður. Á tveim síðustu búnaðarþingum hafa komið fram óskir um slíka stofnun og á þessu síðasta búnaðarþingi kom fram mjög eindregin áskorun til Alþingis um að samþykkja þetta frv., sem hjer liggur fyrir.

Um fyrirkomulag á svona stofnun er yfirleitt lítið hægt að segja, fyr en sjeð verður, hvaða maður muni fást til þess að veita henni forstöðu. Til þessa starfa hefi jeg meðfram haft augastað á ungum og ötulum manni, er oft hefir verið getið hjer í þinginu, sem er Skúli Guðjónsson læknir. Hefi jeg trú á því, að hann mundi a. m. k. að sumu leyti reynast góður forstöðumaður, og þótt hann hafi ekki alla þá sjerþekkingu, er kynni að vera æskileg, þá er gert ráð fyrir því, að hann hafi aðgang að samverkamönnum, er gætu veitt honum aðstoð í því efni.

Nú er því svo háttað, að hjer eru fyrir tvær stofnanir, efnarannsóknastofan og rannsóknastofa háskólans, er hafa svipuð störf með höndum og stofnun þessari er ætlað að hafa. Gæti jeg hugsað mjer, að sameina mætti þessar stofnanir að einhverju leyti, og að undir öllum kringumstæðum yrði reynt að ná samkomulagi við háskólann um að sameina þessar tvær stofnanir. En á meðan eigi verður um það sagt, hvort maður sá, er jeg nefndi áðan, muni fást til að veita þessu fyrirtæki forstöðu, eða það verður einhver annar, er hvorki hægt að segja neitt ákveðið um verkaskiftingu þessara þriggja stofnana nje það, hvernig fyrirkomulag hinnar nýju stofnunar verður.

Fyrir því sje jeg ekki aðra leið í þessu máli en þá, að hafa heimildina svo rúma, að stjórnin geti hagað sjer eftir því, sem reynslan verður, og eftir þeim upplýsingum, er hæfir menn geta í tje látið.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en jeg vona, að nefnd sú, er fjalla á um málið, leggi í það svo góða vinnu, að því verði hrundið áleiðis á þessu þingi, því að jeg álít, að eigi megi dragast að bæta úr þessum vandræðum ári lengur. Og þar sem mál þetta eins og tilgangur þess er snertir fyrst og fremst landbúnaðinn, legg jeg til, að því verði að umr. lokinni vísað til hv. landbn.