16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

1491Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi ekki ástæðu til þess að segja mikið um mál þetta nú, enda tel jeg miklar umr. um það þýðingarlausar. Jeg hafði alls ekki búist við því, að hv. þdm. gengju inn á almennar umr. um fjármál landsins við umr. um þetta mál nú. Jeg hjelt, að það myndi verða látið nægja, sem um það var talað við 1. umr. Í morgun, þegar jeg fjekk fregnir um það, að farið væri að ræða peningamál landsins alment í sambandi við þetta mál, var jeg staddur uppi í stjórnarráði við afgreiðslu áríðandi erinda; heyrði jeg því miður ekki nema síðasta hluta af ræðu hv. 1. þm. Reykv., en það var nægilegt til þess, að jeg fjekk fulla vitneskju um, að hún muni ekkert hafa komið þessu máli við. Með þessu frv. er aðeins verið að sama saman í eina heild þeim lánsheimildum, sem til eru fyrir í ýmsum eldri og yngri lögum. Er þetta því aðeins gert til þæginda, því það er alls ekki útilokað, að hægt verði að taka lán, þó að þetta frv. verði ekki samþ. Þá skildist mjer á hv. þm., að hjer ættu þeir menn að fara með fjármálin, sem ekkert vit hefðu á þeim, og því taldi hann sig ekki geta fylgt frv. Það má vel vera, að hv. þm. finnist þetta, en jeg býst þó við, að hann skilji, að við svo búið verði að sitja. Að öðru leyti skal jeg ekki tefja tíma þingsins með því að ræða þetta mál á þeim grundvelli, sem liggur langt fyrir utan svið frv.