06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

19. mál, landsreikningar 1927

Hannes Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. fjhn. fyrirvaralaust, en jeg tek þó ekki alveg eins alvarlega hestahald og veislukostnað landhelgissjóðs eins og hv. frsm. og yfirskoðunarmaður landsreikninganna (GunnS). Jeg lít svo á, að kostnaðurinn eigi að skiftast milli þessara tveggja aðila, ríkissjóðs og landhelgissjóðs, eftir nokkurnveginn rjettlátum hlutföllum, en geri hinsvegar ekki að ágreiningsatriði, þó landhelgissjóður eigi hesta.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um landsreikninginn yfirleitt. Jeg hefði óskað, að nál. hefði verið nokkru fyllra, en það er ekki auðvelt að koma öllu að í einu mál., sem æskilegt hefði verið, að kæmi ljóst fram. Hv. frsm. hefir skýrt alveg rjett afstöðu n. til þessa máls að því er mig snertir, nema þetta um hestahaldið, sem jeg held að komið hafi fram í n.

Það er annars dálítið einkennilegt að heyra hv. 2. þm. Rang. tala um það, hvað nauðsynlegt væri að hafa sömu endurskoðendur áfram vegna kunnugleika þeirra og æfingar í starfinu, en svo reynist hann sjálfur ekki kunnugri en það, að hann fer að kvarta um skuld, sem er greidd fyrir löngu síðan. (GunnS: Jeg fór eftir reikningnum eins og hann lá fyrir). Jeg sje ekki, að þetta beri vott um, að ástæða sje til að endurkjósa altaf yfirskoðunarmenn.