04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2757 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jónas Kristjánsson:

Það er rjett hjá hv. 4. landsk., að þessar brtt. á þskj. 518 innifela í sjer að mestu leyti það, sem hann sjálfur hefir flutt sem brtt. á sjerstöku þskj.

Það vakti fyrir flm., að hjer væri um mikið nauðsynjamál að ræða, þar sem á að útrýma íbúðum í kjöllurum, því að margar af þeim, þó kannske ekki allar, eru óheilnæmar og geta verið heilsuspillandi. En við flm. hefðum helst kosið, að breyt. hefðu orðið sem minstar á frv., enda verður heldur ekki annað sagt um þessar breyt. en að þær sjeu meira að formi til en efni, nema að því er snertir 6. lið á þskj. 518, en þær tel jeg gera frv. fullkomnara.

Það, sem jeg kann ekki við í brtt., er þetta, að þó að bannað sje að hafast við í þeim húsakynnum, sem ekki fullnægja skilyrðum þeim, sem tekin eru fram í okkar frv., þá er þó gerð undantekning frá þessu í 3. lið, eða um stundarsakir. í samræmi við þessar breyt. er og hitt, að færa tímann til að útrýma kjallaraíbúðum niður í 20 ár.

Okkur flm. þessa frv. er það áhugamál, að það nái fram að ganga breytingalaust, en takist það ekki, þá með sem allra minstum breyt.

Jeg skal taka það aftur fram, að mjer finst það lakara, að fyrirsögn frv. verði breytt og útlent orð tekið í stað íslensks, og það því fremur, sem fyrir þinginu liggur frv., sem menn telja að eigi að bæta málið og færa nöfn til íslenskara máls.

Annars skal jeg ekki teygja tímann um þetta frv.; get bætt því við, að jeg tel viðbótina, sem verður við 5. gr., heldur til bóta. En ýmsar aðrar breyt., sem miða aðallega að því að sundurliða frv. og skipa niður á annan hátt en upphaflega var, eru síst til bóta.