04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg tel mjög vafasamt, hvort það frv., sem hæstv. atvmrh. hefir borið fram, er rjetta leiðin í þessu máli. Jeg teldi rjettara, að haldið væri þeirri leið, að sameiginlegur banki væri fyrir allar fasteignir. En það mátti reyndar búast við því af núverandi hæstv. stjórn, að frv. hennar yrði eitthvað á þessa leið, sem orðið er. Og jeg hugsa að í aðaldráttunum verði ekki hægt að þoka henni í þessu efni. En jeg vil minna á það, sem hv. þm. Ísaf. (HG) drap á við 1. umr., að það er óviðkunnanlegt, hvernig frv. býr til stofnun utan um sveitamenn, en tekur ekkert tillit til þeirra, sem stunda landbúnað næst kaupstöðunum. Eftir 2. gr. frv. ætti þó tilgangur þess að vera sá, að styðja að landbúnaði fyrst og fremst. En síðar í frv. sjer maður, að tilgangur þess er fyrst og fremst að styðja sveitamenn, en ekki landbúnað yfirleitt, hvort heldur sem eru í sveitum eða við sjóinn. Það hafa orðið okkur jafnaðarmönnum mikil vonbrigði, að hv. n. skyldi ekki taka til greina athugasemdir í þessa átt, sem fram komu við 1. umr.

Það hefir komið fram brtt. þess efnis, að gefa bátaútvegsmönnum aðgang að lánum úr bankanum. Eins og frv. er sniðið, er slíkt ekki samkvæmt eðli þess, en þegar alt stefnir að því að láta alla peningana til sveitanna, er ekki nema eðlilegt, að mönnum finnist smábátaútvegurinn vera settur hjá, og vilji styrkja hann á þann hátt sem hægt er. Ef stjórnin hugsar sjer ekki að opna neina aðra leið fyrir bátaútveginn, get jeg vel skilið, að þeim þm., sem eru málsvarar hans, finnist að framið sje ranglæti. En ef á að fara út á þá braut að láta nokkurt fje til bátaútvegarins, sje jeg ekki, að hægt sje að mæla á móti því, að verkamenn og sjómenn fái eitthvert lánsfje til ræktunar í nágrenni við kaupstaði og kauptún landsins, því að nær eðli þessa frumvarps er þó að veita lán til slíkrar ræktunar heldur en til útgerðar.

Eins og aðstaða okkar jafnaðarmanna er hjer í Nd., þar sem við eigum engan mann í landbn., býst jeg ekki við, að við flytjum brtt. hjer, en í Ed. er einn af flokksmönnum okkar í landbn. og mun flytja brtt. í þessa átt.