20.04.1929
Efri deild: 50. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Þorláksson:

Jeg talaði ekkert um það, að slík hátíðahöld væru hversdagslegir atburðir, heldur hitt, að enda þótt Alþingi hjeldi þúsund ára afmæli sitt hátíðlegt, væri engin ástæða til að líta svo á, sem útlendur her hefði ráðist inn í landið. En þetta frv. virðist bygt á því, að við ættum í vændum að berjast við óvinaher á þúsund ára afmæli Alþingis. Það er að vísu rjett, að mikil umferð verður um veginn til Þingvalla meðan á hátíðahöldunum stendur, en þá og því aðeins ganga flutningarnir vel og greiðlega, að minni hyggiu, ef þeir, sem vanir eru að fást við slíkt og hafa atvinnu af, fá óhindraðir að ráða framkvæmdum sínum. Jeg tel öll afskifti hátíðarnefndarinnar af þessum málum til ills eins. Hitt þarf ekki að óttast, að bifreiðastöðvarnar leigi bifreiðar út með þeim hætti, sem hv. þm. Seyðf. drap á, því að þær gera að sjálfsögðu alt til þess að fullnægja þörfum sem flestra eða allra viðskiftavina þeirra, svo að enginn þurfi að verða útundan. Það er lögmál hinnar frjálsu samkepni, sem þvingar þá til þess.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að slíkar ráðstafanir myndu engri röskun valda, því slíkt kæmi einungis fyrir á þúsund ára fresti. En jeg tel það í mesta máta óviðeigandi, að Alþingi minnist þúsund ára afmælis síns á þennan hátt.