04.03.1929
Efri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Aðaltilgangur þessa frv. virðist vera sá, að gera skýrari ákvæðin um skyldur hins opinbera til þess að nema burt farartálma á siglingaleiðum og höfnum og herða á þeim ákvæðum, sem til eru í lögum um þetta. Ennfremur sá, að færa kostnaðinn, sem leiðir af að nema í burtu slíka farartálma, af ríkissjóði og yfir á hafnarsjóði, þar sem löggiltar hafnir eru.

Áður hefir það verið svo, að hlutaðeigandi hafnarsjóðir hafa átt að greiða þrjú hundruð krónur af þeim kostnaði, sem leiddi af því að nema í burtu farartálma, sem orðið hafa á höfnum inni. En nú er farið fram á, að hlutaðeigandi hafnarsjóðir greiði þetta að öllu leyti. Eða gera má ráð fyrir, að það yrði svo í flestum tilfellum, ef frv. yrði samþ. óbreytt.

Í frv. því, sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir því, að kostnað þann, sem leiðir af því að nema í burtu farartálma inni á höfnum, eigi hafnarsjóður að greiða og verja alt að helmingi peningaeigna sinna, þar með taldar útistandandi skuldir, verðbrjef og aðrar eignir, sem gefa fastan árlegan arð, t. d. leigulóðir og hús. N. þykir of langt farið í þessari 5. málsgr. frvgr., sem hjer liggur fyrir, og flytur því till. um það, að þessi 5. málsgr. frvgr. verði feld niður, en í hennar stað komi aftur grein, sem nefndin flytur á þskj. 56, þar sem ætlast er til, að hlutaðeigandi hafnarsjóðir greiði alt að helmingi, eða leggi fram alt að helmingi eins árs tekna sinna, til þess að nema slíka farartálma í burt.

Til þess að gera þetta nokkuð skiljanlegra þeim, sem ef til vill ekki hafa sett sig nægilega inn í málið, þá tel jeg rjett að vitna bæði til laga um skipströnd og vogrek, sem samþ. voru á þinginu 1926, og einnig til gr. úr hafnarreglugerðum, sem fjalla um líkt efni og þetta. Í 30. gr. laga um skipströnd og vogrek er einmitt talað talsvert ítarlega um það, hvernig fara eigi að, þegar skip sekkur á siglingaleið, eða þegar þarf að nema í burt farartálma, vegna vogreks eða annars. Með leyfi hæstv. forseta tel jeg rjett að lesa upp þessi ákvæði laganna. í 30. gr. nefndra laga stendur skrifað:

„Atvinnumálaráðherra getur látið gera skip eða skipsflak óskaðvænt þegar eftir strand eða skipbrot, ef óhjákvæmileg nauðsyn þykir vegna hættu eða tálma, er af því stafi. Ef skip eða skipsflak verður annars til tálma eða hættu, þá skal vitamálastjórnin auðkenna staðinn, og jafnframt setja þeim, er skip eða skipsflak á, með auglýsingu í Lögbirtingablaði hæfilegan frest til að hirða það. Að þeim fresti liðnum getur atvinnumálaráðherra látið gera skip eða skipsflak óskaðvænt. Ekki á sá, sem rjett á yfir skipi eða skipsflaki, kröfu til bóta, þó að eign hans sje spilt fyrir þær ráðstafanir, sem í þessari grein segir“.

Og ef greininni er haldið áfram, stendur skrifað:

„Til tryggingar kostnaði af ráðstöfunum samkvæmt þessari grein er skip eða skipsflak, svo og farmur, ef hætta stafar af honum eða verulegt óhagræði, og andvirði, ef sala hefir farið fram, að veði framar öllum öðrum höftum, er á þeim kynnu að hvíla. Má selja það, er bjargast kann, á opinberu uppboði til greiðslu kostnaðar, en það, er afgangs kynni að verða, skal greiða rjettum aðiljum samkvæmt 18. gr. 2. málsgr.“.

Jeg vildi taka þetta fram, til þess að gera það skýrt, að það er gert ráð fyrir, að eigandi að farartálma greiði fyrst og fremst kostnað við að koma farartálma í burt, utan hafna og innan, það, sem nær til skipstranda og vogreka. Aftur á móti er tekið fram í hafnarreglugerð fyrir Reykjavík, nr. 100, 12. nóv. 1917, — með leyfi hæstv. forseta:

„Ef skip lendir á grynningum eða sekkur þar, sem það að áliti hafnarstjóra tálmar greiðri notkun hafnarinnar, skal færa það burt svo fljótt sem auðið er. Verði dráttur á því, má hafnarstjóri láta færa skipið burt á kostnað eigandans, og er honum heimilt að láta selja skipið til lúkningar kostnaðinum, ef nauðsyn krefur“.

Hjer er þá gert ráð fyrir, samkv. því, sem jeg hefi lesið upp úr lögum um strand og vogrek, og samkv. hafnarreglugerð fyrir Reykjavík, Akureyri og má vera að það sje tekið fram víðar, þó að jeg hafi eigi kynt mjer það, að á kostnað þess, sem valdur er að farartálma, sje farartálmi numinn í burt. Sá kostnaður, sem því kynni að vera greiddur af hafnarsjóðum samkv. till. sjútvn. á þskj. 56, er þá það, sem ekki er hægt að heimta inn hjá eiganda farartálma, og n. gerir ráð fyrir því, að a. m. k. í flestum tilfellum, ef ekki öllum, mundi hlutaðeigandi hafnarsjóður geta greitt þann kostnað með hálfum árstekjum sínum. Ef sá kostnaður verður meiri en það, þá telur n. ósanngjarnt, að hlutaðeigandi hafnarsjóður greiði meira en þetta.

Þar, sem hafnarsjóðir eru ekki til, gerir frv. ráð fyrir, að ríkissjóður greiði þann kostnað, sem af þessu leiðir.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., sem hjer liggur fyrir, og þá brtt., sem sjútvn. flytur hjer um leið og hún leggur frv. fram til 2. umr. Jeg vil aðeins árjetta þá umsögn n., sem kemur fram í brtt., að það er í raun og veru alllangt gengið frá því, sem nú er skylda til fyrir ríkissjóðinn, að bera allan kostnað af að nema farartálma í burt, að undanteknum þeim þrem hundruð krónum, sem hafnarsjóður átti að greiða. Og það er langt gengið í að ljetta byrðum af ríkissjóði í till. n., þótt ekki sje nálægt því eins langt gengið og gert er í frvgr., eins og það var lagt fyrir þingið frá hæstv. ríkisstj.