03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Magnús Torfason:

Jeg hafði skrifað undir nál. með fyrirvara og vildi skýra frá því, að hann þýddi það, að jeg taldi fulllangt gengið í brtt. n., þar sem hún leggur til, að sá hluti kostnaðarins, sem fer yfir 500 kr., greiðist að 2/3 úr ríkissjóði, en aðeins að 1/3 úr hafnarsjóði. Mjer finst nógu langt gengið eins og hv. Ed. gekk frá frv., að ríkissjóður og hafnarsjóður greiði að hálfu leyti hvor kostnað þennan. Lengra finst mjer ekki ástæða til að fara. Sjerstaklega þó, þegar þess er gætt, að seinna í till. n. er þessi upphæð einskorðuð við hluta af árstekjum hafnarsjóðs. Jeg hafði undirbúið brtt., þar sem þessi skoðun mín kemur fram. En því miður verður hún líklega ekki svo snemma tilbúin úr prentsmiðjunni, að hún geti komið til atkv. nú. Geymi jeg mjer því rjett til að koma fram með hana við 3. umr. frv. þessa.