30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Hv. frsm. minni hl. vjek að því, að rjett væri að leggja þyngri byrðar á hina tekjumeiri hafnarsjóði. Jeg vil biðja hv. þdm. að athuga, að það atriði er þegar útrætt í þessari hv. d., við þrjár umr., sem fram fóru um málið. En hitt, sem hv. frsm. sagði um hina stærðfræðilegu hlið þessa máls, var flest þveröfugt við staðreyndirnar. Hv. þm. sagði meðal annars þessa setningu, sem jeg skrifaði hjá mjer og hv. þm. leiðrjettir sjálfsagt, ef jeg fer ekki rjett með: „í öllum tilfellum, þegar kostnaður við brottnám farartálma af siglingaleið nemur sem svarar 1,4 hluta af tekjum hafnarsjóð, og þar yfir, er munurinn lítill eða enginn. — Auðvitað er þetta alrangt, eins og jeg þegar hefi skýrt. Efa ég ekki, að hv. þm. áttar sig á því, þótt síðar verði, og eftirskil jeg þessum mæta manni að gerbreyta þessu öllu, venju samkvæmt, í þingtíðindunum, þegar hann leiðrjettir ræðu sína. En það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. að reyna að láta líta svo út, að báðar till. komi út á eitt. Eftir annari till. skal hafnarsjóður bera allan kostnaðinn, en samkv. hinni skal hann einungis greiða hluta, og fari þó aldrei fram úr hluta árstekna. Hjer er því ekki um að ræða neina „minni háttar breytingu“, eins og minni hl. orðar það, heldur meginbreyt. — Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni.