22.02.1929
Efri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. er bundinn við önnur frv., og vil jeg því í hans stað fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Það var öllum ljóst í fyrra, þá er samþ. var breyt. á l. um einkasölu á síld, að bæta þurfti við nokkrum úrræðum í sambandi við síldarbræðsluna. Rannsóknum á því, hvernig síldarbræðsluverksmiðju yrði best fyrir komið, hefir svo verið haldið áfram og samkomulag náðst við Siglufjarðarkaupstað, þannig að hann leggi fram verulegan hluta af kostnaðinum. — Reynsla einkasölunnar bendir til þess, að dómi þeirra manna, sem besta þekking hafa í þessum efnum, að nauðsynlegt sje að stofna verksmiðju til bræðslu síldarinnar. Í frv. því, sem. nú liggur fyrir hv. Ed., er lagt til um það, hversu þessu skuli hagað, en frv. er svo ljóst og skilmerkilegt, að jeg sje ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðin.

Jeg legg til, að frv. verði vísað til sjútvn., að lokinni þessari umr.