09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg flyt hjer á þskj. 261 tvær brtt. Er hin fyrri einungis leiðrjetting á villu, er verið hefir í frv. undir öllum umr. Er vitnað í skakka gr. í 7. gr.

Hin brtt. er flutt að tilmælum hæstv. atvmrh. Hann hafði veitt því eftirtekt við 2. umr., að plagg nokkurt frá Búnaðarþingi þessu máli viðvíkjandi hafði ekki komist til n. Var það þess efnis, að Búnaðarþingi þótti nokkuð lágt það hámark, er frv. gerði ráð fyrir, að bændur, búnaðarfjelög og samvinnufjelög gætu fengið af framleiðslu verksmiðjunnar. Það má vel vera, að svo sje. En hitt er víst, að það verða að vera föst ákvæði í frv. um það, hvenær ákvörðun um þá sölu verður tekin. Er hjer lagt til, að ákvæði frv. verði rýmkað svo, að bændur geti fengið svo mikið af framleiðslunni sem þeir hafa óskað eftir fyrir 15. ágúst. Þá er í engu fyrir borð borinn rjettur bænda til að tryggja sjer fóðurbæti frá verksmiðjunni. En það er nauðsynlegt, að verksmiðjan viti, hvað hún þarf að ætla bændum. Fyr en hún veit það getur hún ekki ráðstafað því, sem eftir verður af framleiðslunni. Jafnframt þarf að tryggja það, að við pantanir verði staðið. Því er það gert að skyldu, að pantanirnar skuli útleystar í síðasta lagi í okt. Þetta er alveg nauðsynlegt ákvæði, því síðar má það alls ekki vera, að bræðslan fái fulla vitneskju um, hvað tekið verður. Er þá orðið svo áliðið tíma, að verksmiðjan bíður vafalaust tjón af því, að pantanir verði ekki leystar út. — Við, sem að frv. stöndum, teljum rjett, að Íslendingar sjálfir njóti þeirra hagsmuna af verksmiðjunni, er þeir geta, en þó þannig, að fyrirtækið bíði ekki óþarfa tjón af.

Um brtt. þær, er fram eru komnar, hefi jeg ekki margt að segja. Jeg hefi áður lýst afstöðu minni til brtt. hv. þm. Snæf. Jeg tel ekki rjett að útiloka einkasöluna frá áhrifum á stj. verksmiðjunnar. Það er ekki rjett, að þau fyrirtæki sjeu algerlega aðskildar stofnanir, er hafi engra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það vita allir, áð ætlast er til náinnar samvinnu milli beggja. Alstaðar í umr. í fyrra telja andstæðingar einkasölunnar það höfuðgalla, að síldarbræðsla sje ekki í sambandi við hana. Þetta er alveg rjett og sannar það, að þessar stofnanir hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. (HSteins: Hverra?). Þegar mikið berst að af síld, þá þarf að ráðstafa því, sem ekki verður saltað, og er þá betra að nota til þess hina ísl. verksmiðju heldur en fara að láta það í erl. bræðslur, er grípa þá tækifærið og gjalda kannske ekki meira en hálfvirði fyrir síldina. En fari hún í þá ísl., þá fæst þó altaf fyrir hana sannvirði. Enda mun öllum útvegsmönnum koma saman um, að þessar stofnanir eigi að vinna saman.

Um brtt. hv. 4. landsk. skal jeg taka það fram, að jeg álít hana ekki verða til mikilla skemda á frv. En það er hreinn óþarfi að hafa 5 manna stjórn. En það skal jeg játa, að ef það er nauðsynlegt, að útgerðarmenn fái mann í stj. verksmiðjunnar, þá er ekki nema sanngjarnt, að verkamenn fái það einnig. Til samkomulags get jeg því vel fallist á till. Alt, sem leiðir til samkomulags um málið, en er ekki til stórra baga, tel jeg rjettmætt að samþ. Og ef jeg greiði atkv. með þeirri till., þá geng jeg og nokkuð til móts við hv. þm. Snæf. — En þó jeg teldi það galla, ef brtt. hv. þm. Snæf. næði samþykki, þá tel jeg samt ekki ástæðu til að snúast á móti frv.