01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki halda langa ræðu að þessu sinni. Jeg var búinn að lýsa svo ítarlega afstöðu minni til frv. í fyrra og kom þá með mínar almennu aths. um ríkisrekstur, svo að það þýðir ekki að koma með þær að nýju.

Jeg sje ekki betur en að eftir þessu frv. sje um algerðan ríkisrekstur að ræða. Og þessir draumar, sem hafa komið fram hjá einstökum hv. þm. í deildinni, að hjer væri ekki ríkisrekstur á ferð, heldur samvinnufjelagsskapur, held jeg að eigi enga rót í sjálfu frv. Að vísu eru vissar ákvarðanir um, hvernig hráefna skuli aflað í verksmiðjuna, og er gert ráð fyrir að útgerðarmenn leggi fram síldina gegn vissri fyrirframgreiðslu, sem miða á við líkurnar fyrir því, hvað verksmiðjan getur selt afurðir sínar að frádregnum rekstrarkostnaði og 15%, er skiftist í stofnsjóð, rýrnun o. s. frv., en eftirstöðvarnar greiðast er niðurstaðan er komin af rekstri verksmiðjunnar. En eins og hv. 2. þm. G.-K. benti á, er engin vissa fyrir því, að útgerðarmenn fáist með þeim skilyrðum, sem í frv. felast, til þess að leggja næga síld í verksmiðjuna. Það liggur í hlutarins eðli, að útgerðarmenn reyni að fá sem mest upp úr síldinni. En vegna hins mikla frádráttar, er lögin gera ráð fyrir, þá má búast við, að útgerðarmenn snúi sjer fremur til þeirra verksmiðja, sem greiða strax ákveðið fyrir málið, en það gera ýmsar síldarverksmiðjur nú, sem eru í frjálsri samkepni. Jeg sje ekki betur en ríkisverksmiðjan verði þá að fara út í samkepnina og borga eins og aðrar verksmiðjur fyrir síldina.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh., hvort ákvæði þau, sem standa í 8. gr., sjeu í nokkru sambandi við þá samninga, sem sýnilega eru nú á leiðinni í Noregi. í blaðinu Bergens Aftenblad sjer maður, að framkvæmdarstjórar einkasölunnar eru báðir staddir þar og eru að semja við norska fiskveiðamenn um að reka síldveiðar hjer. Og í viðtalinu við Pjetur Ólafsson, sem birt er í blaðinu, stendur, að niðurstaðan af samningaumleituninni væri þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Resultatet av forhandlingene blev, at vi paa betingelse av, at den norske sammenslutning blev gjort obligatorisk, saaledes at alle norske Islandssildefiskere var indbefattet, erklærte os villige til ovenfor sildemonopolets eksportkomite og den islandske regjering, at anbefale et utarbeidet forslag til samarbeide, som i hovedtrækkene gaar ut paa en forholdsvis begrænsning fra begge land av saltsildkvantumet, og i forbindelse hermed at de norske fiskere faar adgang til sildoljefabrikene paa Island for det fra saltningen overskytende kvantum, forsaavidt fabrikene kan motta samme, og tilladelse til indenfor grænsene at stationere en flytende sildoljefabrik, for at motta fabriksild fra norske og islandske fartöier“.

Samkv. blaðinu mæla forstjórar einkasölunnar með undanþágu þeirri frá fiskiveiðalöggjöfinni, er getur um hjer að ofan. Við þessa samninga mætti maður frá norsku stjórninni. Jeg þykist viss um, að hæstv. forsrh. muni ekki hafa dottið í hug að ganga inn á það, sem hjer er á ferð, enda stendur ekkert í blaðinu um það. En um það verður að spyrja hæstv. forsrh„ hvort þessi samningatilraun hafi farið fram með samþykki stj. Þessi samningatilraun grípur inn í utanríkismál þjóðarinnar, og ótrúlegt er, að forstöðumönnum einkasölunnar sje falið að semja um slík mál, enda undanþága sú, er þeir hafa mælt með, óverjandi í alla staði.

Mál eins og þessi heyra sannarlega ekki undir forstöðumenn verslunarfyrirtækis, heldur ber stjórninni eða diplomatiskum starfsmönnum ríkisins að fara með slík mál. Það er hinn mesti háski, ef einstakir menn fara að blanda sjer inn í svo alvarlega hluti. Og hvílík hætta getur ekki stafað af þessu fyrir kjöttollsmálið.

Jeg mun, eins og jeg hefi tekið fram, greiða atkv. á móti þessu frv. Og satt að segja hafði jeg vonað, að hæstv. fors.- og atvmrh. mundi ekki leggja svona mikla áherslu á frv., heldur láta það daga uppi á þessu þingi. Held jeg, að það hefði verið það skynsamlegasta.