08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg get að ýmsu leyti lýst ánægju minni yfir till. hæstv. atvmrh., en verð þó að segja, að mjer virðast þær ganga of skamt.

1. brtt. hæstv. ráðh. er á þá leið, að verksmiðjan megi því aðeins kaupa síld af framleiðendum, að til þess fáist sjerstök heimild atvmrh. Þessa till. verð jeg að skilja svo, að með reglugerðarákvæði verði sú heimild takmörkuð við það, að verksmiðjan kaupi yfirleitt ekki síld af framleiðendum nema fyrir lágt verð.

Tilgangurinn með þessum lögum er sá, að rekstur verksmiðjunnar verði hallalaus, og á það að nást þannig, að framleiðendum eru greidd 70% af áætlunarverði síldarafurða við afhendingu síldar til vinslu, en það, sem meira kann að fást, í lok starfsárs eftir að reikningsskil hafa verið gerð.

Til þess að þessi kaupheimild raski ekki rekstrargrundvellinum, finst mjer eðlilegt, að sett væru þau ákvæði, að verksmiðjan keypti ekki síld hærra verði en framleiðendum er greitt við afhendingu síldar til vinslu. (Forsrh.: Vitanlega). — Vitanlega, segir hæstv. ráðh. Jeg geri mig fyllilega ánægðan með það svar hans og læt útrætt um það atriði.

Um fyrsta staflið 2. brtt. hæstv. ráðh. er það að segja, að mjer finst það ekki smábreyt., eins og hæstv. ráðh. áleit, heldur mjög mikilvæg efnisbreyt. Hún er nauðsynleg til þess að skapa þann eðlilega grundvöll undir rekstur verksmiðjunnar. Það kom fram við 2. umr. þessa máls, að einstaka menn höfðu hugsað sje verksmiðjuna sem einhverja safnþró fyrir viðskiftamenn síldareinkasölunnar, en með þessari breyt. er það trygt, að viðskiftamenn verksmiðjunnar geta óhultir samið um viðskifti við stöðina. Og það er ekki lítið atriði fyrir viðskiftamenn verksmiðjunnar, að eiga ekki yfir höfði sjer þá miklu hættu á því að ná ekki afgreiðslu sökum þess að verksmiðjan sæti kaupum þegar mest veiðist hjá þeim viðskiftamönnum einkasölunnar, sem ekki eru samningsbundnir.

Um aðrar brtt. hæstv. ráðh. þarf jeg lítið að tala, því að þar nægja skýringar hans sjálfs.

Hv. þm. Vestm. og jeg flytjum 2 brtt. við þetta frv., sem von er á úr prentsmiðjunni á hverri stundu, en hv. 1. þm. Reykv. flytur í samráði við okkur þá tillöguna, sem tvímælalaust leysir málið best.

1. brtt. er við 4. gr., að 3. tölul. þeirrar gr. falli niður, en hann er um það, að auk afborgana og tillags í varasjóð greiði framleiðendur 5% í fyrningargjald.

Við 2. umr. þessa máls færði jeg að því sterk rök, hve það væri sanngjarnt, að þessi liður fjelli niður. Benti jeg á það við 2. umr., að yfir ríkissjóði ætti engin venjuleg verslunaráhætta að vofa í sambandi við rekstur verksmiðjunnar, ef sá hluti andvirðisins, sem lögskipað er að greiða þegar í stað, er ekki of stór, en þá mætti minka hann, ef svo þætti. Hinsvegar gat jeg um tvær aðrar áhættur fyrir verksmiðjuna, og er hin fyrri sú, að verksmiðjan yrði ekki rekin, en hin síðari, að fundist hefðu ódýrari og betri vjelar til vinslunnar, og gæti það leitt af sjer verðfall. Þessar áhættur verða ekki metnar, en af þeim tveimur er önnur áhættan meiri, sú, að verksmiðjan verði ekki rekin. Því vil jeg benda á það, að með því að reyna að tryggja hag ríkissjóðs um of, eins og gert er með þessu ákvæði, er um leið verið að skapa þá áhættu, að verksmiðjan verði ekki rekin, því þegar kjör viðskiftamanna hennar eru gerð mjög óaðgengileg, vilja þeir heldur skifta við aðrar stöðvar. Jeg álít, af þeirri reynslu, er jeg hefi á þessum málum, að af rekstri verksmiðjunnar stafi ekki sjerstök áhætta, þar sem jeg hefi skilið 4. lið þannig, að 5% af stofnkostnaði og árlegum rekstrarkostnaði renni í varasjóð. Jeg hefi talsvert sjerstæða aðstöðu í þessu máli, þar sem jeg hefi kynst þessum atvinnuvegi betur en aðrir hv. þm., og ætti það að gefa orðum mínum nokkurn þunga. Nú kynni að vera, að jeg yrði grunaður um að setja sjerhagsmuni mína ofar hag verksmiðjunnar, en ef svo væri, ætti mjer að vera áhugamál, að skilmálar viðskiftamanna hennar væru sem þrengstir, því að þá myndu færri skifta við verksmiðjuna og framboð til annara stöðva verða meira. Það, sem jeg legg til í þessu máli, geri jeg í fyrsta lagi sem kunnugur maður, í öðru lagi sem umboðsmaður ríkissjóðs og í þriðja lagi sem fulltrúi sjávarútvegsins. Ættu orð mín því að verða talsvert þung á metunum, auk þess sem jeg hefi í ræðum mínum nefnt það vitni, sem mest tillit ætti að taka til í þessu máli, en það eru ummæli og óskir frumkvöðuls þess, Magnúsar heitins Kristjánssonar.

Jeg get lokið máli mínu um þessa till. með því að brýna það fyrir hv. þm. enn á ný, að það má ekki ganga svo langt í að tryggja ríkissjóð gegn áhættum, að það verði til þess að skapa fyrirtækinu áhættu. Meðan fyrirtækið er í æsku mun það þykja óaðgengilegt að greiða 15% af öllum kostnaði og fá ekki nema 70% af andvirði vörunnar útborgað við afhendingu síldarinnar. Það er nauðsynlegt að fá rammann það rúman, að menn ætlist ekki frá því að skifta við verksmiðjuna.

Þá flytjum við breytingartill. við 7. gr. hnígur að því, að stj. verksmiðjunnar verði skipuð með öðrum hætti en segir í 7. gr. frv. Í frv. er gert ráð fyrir því, að stj. verksmiðjunnar sje skipuð þrem mönnum. Skal einn skipaður af atvmrh., annar af Siglufjarðarkaupstað og sá þriðji af stj. síldareinkasölunnar. Nú flytjum við þá brtt., að í stað þriðja manns, sem síldareinkasalan skipar, tilnefni útgerðarmenn þeir, sem við verksmiðjuna skifta, einn meðlim stj. Það mun rjett, sem hæstv. atvmrh. sagði, að sennilega fengist samkomulag um að hafa fimm manna stj. Mjer finst í raun og veru óþarft, að stj. þessa fyrirtækis sje skipuð fimm mönnum, og liggur þá fyrir að athuga, hvort eigi meiri kröfurjett, síldareinkasalan eða atvinnurekendur þeir, sem skifta við verksmiðjuna.

Jeg hefi við fyrri umr. þessa máls bent á það, að hæstv. atvmrh. er það í lófa lagið að skipa einn stjórnanda með það fyrir augum að tryggja eðlilegt samband við einkasöluna, og annan eða meiri rjett á einkasalan ekki. Um rjett ríkissjóðs og Siglufjarðarkaupstaðar hefir ekki verið deilt. Og um rjett viðskiftamanna verksmiðjunnar verður heldur ekki deilt, ef menn vilja líta á málið með nokkurri sanngirni. Þeir menn eiga alt sitt undir því, hvernig starfshögun verksmiðjunnar er, og er því rjettmætt, að þeir skipi einnig einn mann í stj. hennar.

Jeg veit, að ef hv. þdm. líta á þetta með sanngirni, þarf jeg ekki að eyða fleiri orðum til þess að færa frekari rök að máli mínu. Ef sanngirnin er hinsvegar útilokuð, þýða engin rök, og læt jeg því nægja það, sem jeg nú hefi sagt. Vænti jeg þess, að hinn augljósi rjettur framleiðendanna verði ekki fyrir borð borinn og að hv. þdm. geti fallist á till. okkar.