15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3096 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

* Jeg verð að segja örfá orð út af ræðu hv. þm. Snæf. Hann sagði, að brtt. okkar meirihl.manna gerðu þá heimild, sem í 9. gr. felst, að engu. Á hvern hátt? Á þann hátt, sagði hann, að skilyrðin eru þrengd svo, að þau eru algerlega óaðgengileg.

Það er rjett hjá honum, að brtt. okkar fela í sjer þrjú atriði. Í fyrsta lagi það, að í stað þess að 9. gr. segir, að ef minst helmingur þeirra manna, sem láta síld í verksmiðjuna, myndi með sjer fjelag, sem starfi á þar tilskilinn hátt, skuli heimilt að selja þeim verksmiðjuna, þá finst okkur óeðlilegt, að hinn helmingur viðskiftamannanna sje bundinn við að skifta við hana, og viljum hafa þetta hlutfall.

Þetta mun vera nálega eins dæmi, að helmingur geti skuldbundið annan helming. Við álítum varla vera forsvaranlegt að hafa hlutfallið minna en Um þetta atriði má náttúrlega deila. Það getur verið, að nægði minni meiri hl. en þetta. En hitt er áreiðanlegt, að það er ekki venja að setja í nokkrar reglugerðir eða lög, að ekki þurfi meiri hl. til þess að skuldbinda hinn hlutann.

Í n. kom til tals og mundi hafa fengist samkomulag um það, að í stað 2/3 kæmi 3/5. En það náðist ekki samkomulag um brtt. að öðru leyti, og þá sáum við meirihl.menn ekki ástæðu til að fara þarna neitt neðar.

Jeg held, að allir hljóti að viðurkenna, að þetta ákvæði, sem við viljum breyta, sje álveg óviðeigandi í lögum.

Þá er hjer önnur brtt., sem jeg mintist á í fyrri ræðu minni, — að áskilja, að Siglufjarðarkaupstaður samþ. söluna. Jeg hefi áður fært rök fyrir henni, og hv. þm. Snæf. reyndi ekki með einu orði að andmæla þeim, enda hygg jeg torvelt að verja það, að þarna er rjettur Siglufjarðar fyrir borð borinn, sem haft getur þá afleiðingu, sem jeg hefi margtekið fram, að ekkert verði úr byggingu verksmiðjunnar. Jeg fer að líta svo á, að það, sem vakir fyrir þeim, sem leggja kapp á að spyrna á móti því, að þetta ákvæði komist inn í lögin, sje eitthvað annað en að tryggja það, að heimilt sje að selja síldarbræðslustöðina, ef skilyrði eru fyrir hendi.

Hv. þm. Snæf. kvað það ekki venju að setja í lög, að þeim mætti breyta með öðrum I. Hjer er alls ekki um það að ræða, því að l. frá í fyrra segja aðeins það, að ef úr sölunni eigi að verða, þurfi samþykki Alþingis. Og þetta ákvæði er ætlast til að standi óbreytt í l. Því að það er ekki neinstaðar í þessu frv. minst á það, að neitt sje numið úr gildi af l. um síldarbræðsluverksmiðjur frá í fyrra. Þess vegna er það sjálfsagður hlutur að taka þetta upp í lögin nú, nema því aðeins, að þetta sje gert að yfirlögðu ráði og að engin l. upphefji eldri l. Ef þetta er tilfellið, þá er best að koma með það, en vera ekki að fara í neina launkofa. Mjer er ekki alveg grunlaust um, að þetta hafi verið meiningin, — að reyna að koma þessu þegjandi og hljóðalaust fram og nema ákvæðið úr gildi á þann hátt. Viðkunnanlegra væri, ef gengið væri hreinna til verks og málið sett í strand, heldur en þessar krókaleiðir. Því hefir ekki verið mótmælt, að afleiðing breytingarinnar á frv. geti orðið sú, að verksmiðjan kæmist ekki upp, og ef þinginu er sama um það, er betra að ganga hreinna að verki gagnvart þessu frv. En þótt nú frv. dagaði uppi, er jeg í engum efa, að til er næg heimild til að byggja og reka slíka verksmiðju, og þarf ekki annað en reglugerð til. Í þessum l. eru þó tvö mikilsverð atriði, sem ekki verður komið fyrir í reglugerð. Annað er, að verksmiðjan sje undanþegin útsvari, en hitt um skyldu verksmiðjunnar til þess að selja samvinnufjelagi eða öðru fjelagi nokkurn hluta framleiðslunnar. Þetta er alt og sumt.

Annars er ekki vert að deila um þetta. Þegar í l. frá í fyrra er heimild til að selja verksmiðjuna slíku samvinnufyrirtæki, sem nefnt er í l., þá er auðsjeð, að tilgangurinn er einhver annar með því að fá þessa heimild inn í þessi 1. heldur en sá, að tryggja það, að slíkt atvinnufjelag geti fengið fyrirtækið keypt. Jeg hefði ósköp vel skilið þessa baráttu, ef í 1. frá í fyrra hefði ekki verið til nein heimild fyrir sölunni. En munurinn á þessu ákvæði l. í fyrra og í frv. nú er í sjálfu sjer enginn annar en sá, að nú er tekið skýrt fram, að það má selja fyrirtækið án þess að fá samþykki Siglufjarðarkaupstaðar, sem verður meðeigandi fyrirtækisins, — og svo hitt, að skilyrði 9. gr. upphefja fyrirmæli 2. gr. 1. frá 7. maí 1928. Ennfremur þarf ekki að bera þetta undir Alþingi. En það hefir ekki komið fram undir umr., að þetta væri meiningin, en það lítur út fyrir, að það hafi átt með lítilli fyrir höfn að gera ónýta aðalgreinina í 1. frá 1928. En það hefði þá átt að ganga hreint til verks.

Jeg verð að segja, að hingað til hefir í ýmsum tilfellum verið talið mjög sæmilega viðeigandi að leggja slíkt úrskurðarvald í hendur Alþingis sem sölu þessa fyrirtækis. Álít jeg í fyrra mjög sæmilega frá þessu gengið, þar sem Alþingi hefir áskilið sjer rjett til þess að leggja síðustu hönd á afgreiðslu þessa máls, hvort selja skuli fyrirtækið eða ekki. Og jeg sje enga ástæðu til, að það afsali sjer þeim rjetti. En það er tvímælalaust gert, ef það er meiningin, að 9. gr. upphefji 2. gr. 1. frá 1928.

Ræðuhandr. óyfirlesið.