03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

39. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Þegar síðasta þing var í þann veginn að afgreiða lögin um einkasölu á síld, hjeldum við því fram, sem vorum í minni hl. sjútvn., að óvarlegt vœri að láta einkasölulögin koma til framkvæmda fyr en landið rjeði yfir nýrri síldarverksmiðju. Og þessu hjeldum við sjerstaklega fram með tilliti til bátaútvegsins, af því að vitanlegt er, að fjöldi landsmanna á afkomu sína undir bátaútvegi síldveiðanna. Jeg held nærri, að óhætt sje að segja, að sá ótti, sem fram kom hjá okkur fyrir afleiðingum síldareinkasölunnar fyrir reknetabáta, hafi ekki reynst ástæðulaus. Að vísu eru ekki fyrir hendi öll þau gögn, sem þurfa til þess að fá ljósa mynd af því, hvernig þetta fyrirkomulag hefir reynst. T. d. hefi jeg heyrt, að einn forstjóri síldareinkasölunnar hafi gefið út einskonar starfsskýrslu fyrir árið, en sjútvn. hefir ekki verið sýnd sú kurteisi að senda henni skýrsluna. Var þó ekki nema eðlilegt, að sjútvn. Alþingis vœri send skýrsla um jafnstórfelda starfsemi og síldareinkasalan er. Um reikninga hennar verður ekkert sagt, því að enn hafa þeir ekki verið birtir opinberlega.

Jeg vjek að því áðan, að fyrirkomulag þetta hefði ekki reynst vel, en sjerstaklega hafa þó reknetabátarnir borið þar skarðan hlut frá borði. Því hefir verið haldið fram með tilliti til markaðsverðsins í Svíþjóð, að á tímabili mundu öll líkindi hafa verið til, að hægt hefði verið að fá tuttugu krónur fyrir tunnuna af nýsíld, ef menn hefðu verið frjálsir um síldarverslun sína. Þessu hefir verið haldið fram a. m. k. í einu blaði, og ekki verið mótmælt, og sjálfur hefi jeg talað við útgerðarmenn, sem hafa staðfest þetta, og sumir segja jafnvel nú, að hœgt hefði verið að fá 22 kr. fyrir tunnuna af nýsíld. Annars veit jeg ekki, hvort hœgt sje enn sem komið er að tala um fullnaðarverð á síldinni, en eftir því, sem næst verður komist og kunnugir segja, þá mun það vera um 25 kr. á hverri tunnu saltsíldar. Liggur því í augum uppi, að eftir markaðsverðinu ytra hefir smábátaútvegurinn ekki haft annað en stóran óhag af þessu fyrirkomulagi enn sem komið er.

Það hefir verið talað um og spilað á þá strengi af þeim, sem fastast hafa haldið fram einkasölunni, að ólag hafi verið á þessum atvinnurekstri undanfarið og hann illa rekinn. Jeg neita því ekki, að þetta sje rjett að einhverju leyti, en þess verður þó að gæta, þegar sá dómur er upp kveðinn, að ekki tjái annað en hafa opinber afskifti af þessum atvinnuvegi, að hann er hvorttveggja í senn: ungur í framkvæmdalífi þjóðarinnar og mjög stórfeldur, en landsmenn lítt reyndir í verslun.

En það er eitt um síldveiðarnar, sem allir vita, að það geta verið viss ár, kannske 2–3, sem lítið eða ekkert er upp úr þeim að hafa, en svo geta komið inn á milli tímabil, sem vinna upp tapið, þegar markaðurinn er góður, sem oftast nær er fyrir veiðibrest að einhverju leyti. Og það eru einmitt þessi ár, sem útgerðarmenn setja vonir sínar á, því að þau endurgreiða, ef vel er á haldið, tapið, sem orðið hefir á rekstrinum undanfarið. Og eitt slíkt ár kom í fyrra og hefði getað orðið útvegsmönnum til mikils hagnaðar, hefði einkasalan ekki verið þá tekin upp og menn verið frjálsir um að selja afla sinn. Þess vegna mun óhætt að fullyrða, að ef menn hefðu verið frjálsir um að selja afla sinn, þá hefði meira verið greitt út á síldina, þegar verðið stóð sem hæst, en lækkað kannske eðlilega á haustsíldinni, en þó aldrei dregið verðið eins langt niður eins og einkasalan gerði, enda mun hún hafa staðið í vegi fyrir því, að bátarnir fengju sæmilega borgun fyrir síld sína.

Eins og jeg sagði áðan, hefir engin starfsskýrsla einkasölunnar komið mjer fyrir sjónir nje sjútvn., svo að jeg veit ekki, hvaða afsökun forstjórarnir kunna að hafa sjer til afsökunar fyrir mistök á framkvæmd einkasölunnar og slæmt fyrirkomulag, sem bent hefir verið opinberlega á, bæði í blöðum og fyrirlestrum. Það er ekki nóg, að þetta fyrirkomulag, sem upp var tekið, stóð í vegi fyrir því, að framleiðendur nytu þess verðs, sem í boði var, heldur má og þar við bæta, að bent hefir verið á greinileg mistök hjá framkvæmdarstjórninni, og á jeg þar við þá fyrirframsamninga, sem gerðir voru um sölu síldarinnar og að allra dómi þótti hið mesta glapræði. Það er nú á allra vitorði, að það var síldareklan ein, sem bjargaði viðskiftamönnum einkasölunnar frá enn meira tjóni, sem hlautst af þessum fyrirfram gerðu samningum.

Hefðu Svíarnir getað fengið nóga síld keypta annarsstaðar, þá hefðu þeir haldið fast við, að þeim samningum væri fylgt, sem gerðir voru um sölu á stórsíld. En þeir gengu inn á að breyta stærðinni frá því, sem fram var tekið í samningunum, af þeim ástæðum, að ekki var annarsvegar kostur á að fá jafnmikla síld og þeir þurftu. Auk þess hefir verið bent á, að í þessum frægu samningum hafi kaupandinn átt að „godkende“ vöruna, m. ö. o. það var lagt á vald kaupandans að meta, hvort varan væri markaðshæf eða ekki, en þar ofan á bættist svo, að kaupandanum var trygt það með „Prisfaldsgaranti“, að ef verðið alment lækkaði, þá átti hann að njóta lækkunarinnar. Þó að verðinu væri í samningunum slegið föstu, þá var þó hægt að slaka til, því verðið getur lækkað alment, ef markaður fellur, og auk þess undir kaupandanum sjálfum komið, hvort hann álítur vöruna hæfa eða telji sig þurfa að standa við samninginn eða ekki. Jeg ætla ekki að orðlengja frekar um slíka frammistöðu sem þessa, enda hefir mikið verið um hana rætt í blöðum og hún vítt að maklegleikum.

Jeg hefi ekki selt síld til útlanda sjálfur að undanförnu, en sje þó, eftir öðrum afurðum, sem jeg hefi selt, að við værum algerlega á flæðiskeri staddir með alla afurðasölu með því að viðhafa þessa sömu reglu, er stj. síldareinkasölunnar viðhafði sumarið 1928.

Nú er svo að sjá, sem stj. síldareinkasölunnar telji þörf á að herða meira á því valdi, er hún hefir yfir framleiðendunum, með nýjum lögum, svo að hún geti verið sem mest einráð. Afleiðingin verður þá sú, að einstaklingarnir missa yfirráðin yfir framleiðslunni í hendur fárra manna, sem þá fá einræðisvald yfir meðferð allri á þessari vöru.

Í lögunum í fyrra var gert ráð fyrir, að einkasalan gæti verið hjálpleg um að útvega viðskiftamönnum sínum tunnur. Þetta mun hafa verið gert í stærri stíl í fyrra en ætlast var til í öndverðu, enda hefir hv. þm. Ak. kannast við, að einkasalan hafi farið út fyrir þau vjebönd, sem lögin heimila henni í þessu efni. Hann tók fram, að einkasalan mundi hafa útvegað um helming þess tunnuforða, er síldarsöltunin útheimtir.

Þessi tunnupöntun var einkennileg. Hún var nær eingöngu gerð fyrir stórútgerðarmenn á Norðurlandi án þess að láta Sunnlendinga vita nokkum hlut um það, eða gefa þeim kost á að vera með. Um miðjan júní var einn af forstjórum síldareinkasölunnar hjer á ferð, og þá gat hann þess, að pantaðar yrðu tunnur fyrir norðlenska framleiðendur og aðra, sem gæfu sig fram við hana. Þeir, sem þá gáfu sig fram af því að þeir höfðu frjett um þetta á skotspónum, og aðrir, sem af einhverjum ástæðum voru hátt settir hjá stj. einkasölunnar, gátu notað sjer þetta að einhverju leyti. Allir aðrir sunnlenskir framleiðendur urðu að vera án þess að njóta aðdrátta stj. einkasölunnar um kaup á tunnum, og fengu aldrei neinn ádrátt um það. Þegar forstjórinn var hjer á ferð, snemma sumars, skýrði hann frá því, að einkasalan gæti útvegað tunnur fyrir lægra verð en nokkur annar, og ef hún hefði virkilega getað það eða verið fær til þess að lána með góðum kjörum, þá hefðu flestir reynt að draga sig eftir því. Forstjórinn gaf í skyn, að von væri á annari pöntun seinna, en þá mundu tunnurnar verða dýrari. Forstjórinn sagði, að allir gætu haft aðgang að þessari seinni pöntun, sem mundi koma um mánaðamótin júní og júlí, en þá mundi hver tunna verða 1 kr. dýrari heldur en í fyrri pöntuninni. Var þá ekki nema eðlilegt, að útgerðarmenn færu að skoða sig um hönd, því að menn vissu, að í júlí mátti fá tómar tunnur frá Noregi fyrir 6 kr., en einkasalan hafði með þessu gefið í skyn, að þær mundu kosta 7 kr. hjá sjer. Svo þegar þessi seinni tunnupöntun kom, þá varð það svo í reyndinni, að hver tóm tunna kostaði kr. 6,80 og saltfylt tunna kr. 11,60, sem var 80 au. og kr. 1,10 hærra verð heldur en hjá einstökum mönnum, sem sendu sínar pantanir sjálfir.

Þetta er lítilsháttar sýnishorn af innkauparáðsmensku einkasölunnar, og er þar sjerstaklega tvent ámælisvert. Hún lætur gera innkaup fyrir einstaka menn, sem hún hefir einhverja sjerstaka velþóknun á, en gefur almenningi ekki kost á að vera með, og í öðru lagi hefir það sýnt sig í sumar, að hún er alls ekki fær um að gera innkaup á tunnum svo frambærileg, að þau sjeu nokkuð í líkingu við þau innkaup, sem einstaklingar geta gert, eða þá að hún hefir notað einhvern millilið, sem hefir skattlagt kaupendurna, og að hið háa verð stafi af því. Nú fer einkasalan fram á það með þessu frv. að fá yfirráðin yfir tunnukaupum og söltun, og vill þannig taka alt frelsi af viðskiftamönnunum, svo að þeir geti alls ekki komist að góðum kaupum á tunnunum sjálfir. Þar að auki á einkasalan að fá einræði um alla söltun og flokkun síldarinnar. Því var haldið fram sem ástæðu fyrir þessu af flm. málsins í hv. Ed., að þetta væri gert til þess að fá meira samræmi í innkaupin og til þess að gera einkasölunni hægra fyrir með að hafa eftirlit með söltuninni. Hvað er þá orðið úr síldarmati, ef einkasalan sjer ekki önnur ráð til þess að hafa vöruna í lagi en að einoka söltunina? Það er einkennilegt, ef ekki er hægt að tryggja sæmilega meðferð vörunnar með því eftirliti, sem nú er.

Á Norðurlandi eru menn, sem eiga stórar síldarstöðvar og reka þar atvinnu sína sjálfir, og mjer finst það hart, ef einkasalan á nú að fá yfirráð þessara stöðva í sínar hendur og taka þau af mönnunum, sem hafa rekið þar atvinnu sína í mörg ár.

Hvað tunnukaupunum viðvíkur, þá verð jeg að segja það, að ef einkasalan reynist þar ekki betur en síðasta ár, þá virðist það vera lítill hagur fyrir viðskiftamennina að láta hana hafa þau með höndum. Flm. málsins í hv. Ed. hjelt því fram, að þetta væri nauðsynlegt til þess að samræma stærðina tunnunum. Jeg held nú, að það sje einfalt atriði að ákveða, hvað tunnurnar skuli vera stórar, og þurfi ekki neina einokun til þess.

Það, sem stefnt er að með þessu frv., er einræði, óskorað einræði í viðskiftum útgerðarmanna og sjómanna við einkasöluna. Þeir mega veiða síldina, koma svo með hana og fleygja henni í einkasöluna án nokkurs íhlutunarrjettar. Það getur vel verið, að utanaðkomandi áhrif hjálpi einkasölunni á næstu árum, svo að stýrt verði hjá stórtjóni, og jeg vil vona það, en að því hlýtur að koma fyr eða síðar, að menn reka sig á það, að einkasalan er ekki til bóta, — því miður. Jeg segi því miður, því að þó að jeg sje á móti einkasölunni, þá tel jeg það illa farið, úr því að lagt var út á þessa braut, að hún skuli gera þeim erfiðara fyrir, sem helst þarf að hjálpa. Jeg á hjer við hinn mikla fjölda, sem stundar reknetaveiðar.

Jeg geri ráð fyrir, að frv. fari í nefnd, og ef alt fer með feldu hjá stjórnarflokknum, þá verður það samþ. óbreytt eftir öllum sólarmerkjum að dæma. Jeg er mjög óánægður með það fyrirkomulag, sem er á því nú, og ætla mjer að koma síðar fram með brtt., sem stefna meira í lýðrœðisáttina og minna í einræðisáttina. Það er fullkomin sanngirniskrafa, að sá mikli fjöldi manna, sem þarna á hlut að máli, fái einhvern íhlutunarrjett, því að hinir mörgu viðskiftamenn verða að fá tækifæri til þess að hafa áhrif á stj. einkasölunnar. Stj., sem nú er, er pólitísk yfirstj., og undirmennirnir eru auðvitað ráðnir af þessari pólitísku yfirstj. Það er ekki holt fyrir atvinnufyrirtæki, að svo sje ástatt. Það er ekki gott fyrir aðra en þá, sem fá þar einhver snöp, og það er alveg áreiðanlegt og víst, að þjóðin sættir sig ekki við þetta til lengdar.