03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

39. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Ísaf. upphóf hjer rödd sína til þess að mótmæla ýmsu, er jeg hafði sagt um rekstur einkasölunnar, en gat þó engu hnekt. Hinsvegar viðurkendi hann tvo stóra ágalla á sölunni, er jeg hafði bent á.

Þá gerði hv. þm. sjer mat úr því, er jeg sagði, að síldarverð færi hœkkandi þegar nokkur veiðibrestur yrði. Jeg þóttist einnig hafa leitt í ljós, að veiðibrestur var síðastl. ár framan af síldveiðitímanum, og það ætla jeg að standa við.

Jeg staðhæfði, að síldarverð hafi farið hækkandi í Svíþjóð, vegna þess að veiði var treg. Framan af sumri og alt fram í miðjan ágúst var veiði mjög treg í snyrpinót, en þá fiskuðu reknetabátarnir vel. Vegna veiðitregðunnar þá hœkkaði verðið ytra. Þeir nutu þó einskis góðs af þessari verðhækkun; það hafði einkasalan trygt þeim. Eftir miðjan ágústmánuð fer veiðin að aukast, og verður heildaraflinn því allgóður. Þetta er rjett, og það getur hv. þm. ekki hrakið, að vegna tregðu á afla hækkaði verðið um tíma, þó það auðvitað lækkaði síðar. En þeir, sem græddu, voru ekki fiskimenn og ekki einkasalan, heldur stórverslunarfyrirtœkin í Svíþjóð. Það kann að vera, að hv. þm. Ísaf. finnist þessi tilhögun hrósverð, en jeg get ekki verið honum sammála.

Hv. þm. Ísaf. taldi, að menn mættu vera fullkomlega ánægðir með það verð, sem síldareinkasalan greiddi síðastl. ár. Jeg hygg það sje mjög hæpin fullyrðing hjá hv. þm., að minsta kosti er það áreiðanlegt, að leggi maður meðalafla reknetabátanna niður og reikni út kostnað við útgerðina, þá kemur fram, að annaðhvort verða þeir, sem fyrir útgerð inni sjá og leggja henni til veiðarfæri og annan rekstrarkostnað, að bera halla, eða sjómenn, sem veiðina stunda, verða að bera skarðan hlut frá borði.

Mjer finst hv. þm. því skjátlast, ef hann heldur, að þeir, sem hafa stundað veiðar á reknetabátum fyrir norðan og fengið meðalafla, hafi hafa sœmilega afkomu síðastl. ár.

Hv. þm. er tamt að nefna nöfn manna í rœðum sínum, og dró nú nafn eins í útflutningsnefnd einkasölunnar inn í ummæli sín, og taldi, að hann fyrir sitt leyti hefði verið ánœgður með verðið, sem einkasalan gaf. Það getur verið, að síldarsaltendur hafi verið ánœgðir á vissan hátt, vegna þess að þeir hafi fengið síldina í sumar við öllu lægra verði hjá veiðimönnum heldur en þeir hafa átt að venjast undanfarið. En það, að síldarsaltendur nutu þessara góðu kjara hjá reknetabátum, var vegna þess, að ekki var í annað hús að venda, vegna einkasölunnar. Svo getur verið, að þessir menn út af fyrir sig hafi ekki ástæðu til að kvarta. Það, sem jeg talaði um málið, var frá sjónarmiði þeirra manna, sem gera út á reknet.

Eftir því, sem hv. 8. þm. Reykv. upplýsti með því að vitna í verð á síld áður og í sumar, skilst mjer, að verðið í sumar hafi slampast í því að vera meðaltal þess söluverðs, sem af öllum hefir verið talið alveg ómögulegt hingað til, til tryggingar sæmilegri aðkomu útvegsins. Það er ekki siglt fyrir hærri byr en þetta hjá einkasölunni.

Hv. þm. Ísaf. taldi, að mjer hefði verið nær að kynna mjer skýrslu forstjóra einkasölunnar. Jeg get sagt honum, að jeg hefi ekki átt kost á að sja hana. Ekki hefir henni verið útbýtt í þinginu, og jeg spurði forstjóra einkasölunnar, þann sem hjer situr á þingi, hvar jeg gœti fengið skýrsluna, og hann gat ekki vísað mjer á hana. Eðlilegast væri nú, að sjútvn. þingsins væri sent þetta plagg. Má vera, að talið sje sjálfsagðara að senda það ritstjóra Alþýðublaðsins. En hvað sem skýrslan annars segir, þá komumst við ekki framhjá þeirri staðreynd, að verðið var kringum 25 kr. á saltsíldartunnu, og frá á að draga allan kostnað við tunnuna, svo að eigandi síldarinnar ber ekki meira úr býtum en ca. 13 kr. fyrir nýsíldartunnuna.

Hv. þm., sem viðurkendi í raun og veru öll helstu ádeiluatriðin í ræðu minni, var að tala um, að þetta vœru ekki nema smáaðfinningar, sem jeg væri með; það gengi ekkert út á þessar stóru stefnur og „plön“, sem hann hefði í huga. Það er nú svo, að við reknetaútgerðarmenn reiknum ekki með svona háum tölum eins og hv. þm. Ísaf. En við verðum þess varir, hvort við verðum fyrir tapi eða ekki. Og hafi stjórn einkasölunnar ætlað að hlífa hinum smærri framleiðendum og þeim hópi sjómanna, sem starfa á reknetabátum, þá hefir þetta árið orðið úr því högg, en ekki hlífð.

Það mætti sjálfsagt tala talsvert um fleira, sem fyrir kom hjá framkvæmdarstjórninni, af kunnugri mönnum en jeg er. En jeg hygg þó, að hægt verði að gera það hv. þm. Ísaf. til ánægju að bæta dálitlu við, ef tími yrði til við 2. umr., um ýmislegt kringum framkvæmdarstjórn einkasölunnar, sem bendir í þá átt, að meira hafi verið farið eftir ýmsu öðru en beint eftir lögum og ýmsu öðru en vanalegum verslunarreglum, og að öðrum meira hlynt en hinum smærri útvegsmönnum. T. d. þegar maður nákominn stj. einkasölunnar fær 4 þús. tómar tunnur handa sjer, en gerir þó ekki út skip, en annar, sem gerir út, fær 1000 eða 500 aðeins. Og manni á Akureyri, sem sjálfur gerir út á síld, er neitað um tunnur, en öðrum, sem alls ekki á síld sjálfur, voru látnar í tje nógar tunnur, til þess að geta grætt á hinum, sem neitað var, sem leita verður til hans um söltun. Munurinn er sá, að sá, sem tunnurnar fjekk, er flokksbróðir eins af stjórnendum einkasölunnar. Svona mætti benda á ýmislegt af þessu „smádútli“, sem hv. þm. Ísaf. talaði um, að jeg hefði verið með. Hjer er líka sá eini vettvangur, þar sem hægt er að koma fram með aðfinningar við hina óhönduglegu stj. síldareinkasölunnar, ef ekki er farið í blöðin. Og jeg hygg, að þótt hv. þm. Ísaf. þyki þetta „smádútl“, þá muni framleiðendum og sjómönnum, sem bjuggu undir síldareinkasölunni á síðasta ári, ekki þykja þessi atriði neitt smávægileg.

Það hafa aðrir hv. þm. bent á, inn á hvaða braut stefnt er með frv. Jeg er og búinn að lýsa því áður og þarf ekki að eyða lengri tíma í að ræða það, enda tækifæri síðar. Það er greinilegt, að þær einokunarviðjar, sem áður hvíldu á mönnum í þessu efni, eru nú hertar svo um munar og varla hægt að gera það betur. Jeg er hissa, þegar jafnaðarmenn þykjast vera að tala á móti þessu, vegna þess að viðjarnar sjeu ekki nóg reyrðar, eins og þeir gera bæði á þingi og utan þings. Þeir segja, að þetta sje ekki það fyrirkomulag, sem þeir vildu hafa, heldur eigi að vera miklu meiri höft. En mjer sýnist, að ef þetta verður samþ., sem hjer liggur fyrir, þá hljóti hinir hörðustu einokunarmenn að geta verið sæmilega ánægðir með fyrirkomulag einkasölunnar. En hvort þjóðin verður ánægð, þegar til lengdar lætur, leyfi jeg mjer að draga mjög í efa.