04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

37. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Eggerz:

Jeg vil með fáum orðum gera grein fyrir skoðun minni á þessu stórmáli, sem hjer liggur fyrir, því mjer er það fyllilega ljóst, að hjer er um stórt mál að ræða. Mjer er það jafnljóst eins og kom fram hjá hv. þm. Borgf., að þörfina fyrir bætt húsakynni er ekki síður að finna til sveita en í kaupstöðum og kauptúnum. Húsakostur er ekki góður hjer, en hann er ekki síður ófullkominn í sveitum. Aðalatriðið er því, þar sem um svona stórt mál er að ræða, að það sje athugað vandlega áður en í framkvæmdir er ráðist. Alt, sem fram hefir komið í málinu, bendir líka til þess, að það þurfi að athugast betur, og það frá öllum hliðum, áður en lengra er farið. Jeg mun því best fella mig við það, að því verði nú vísað til stj. Þessa niðurstöðu mína vil jeg svo rökstyðja nokkru nánar.

Jeg skal þá aðallega snúa mjer að brtt. hæstv. atvmrh., sem er svo umfangsmikil, að hún er það eiginlega frv., sem nú liggur fyrir. Jeg get nú að vísu vel skilið það, að hæstv. ráðh. hafi ekki haft mikinn tíma til þess nú í annríki þingsins að undirbúa þessa till. Samkv. þessum till. á að mynda sjóð, sem á að lána út á húseignir. Þessi sjóður verður því nokkurskonar fasteignabanki. Hjer kemur það ljóslega fram, hversu óheppilegt það er, að sameina ekki öll slík lán undir einn hatt. Eftir till. hv. 1. þm. N.-M. á hver kaupstaður og hvert kauptún að geta sett slíkan fasteignabanka á stofn og geta þannig tekið fje að láni á ábyrgð ríkisins. Ríkissjóður verður því hinn stóri byggingarmeistari, sem reisir allar þessar byggingar. En þegar svo allir þessir sjóðir fara að taka fje að láni hver í kapp við annan, þá má nærri geta, hversu lánskjörin verða á móts við það, ef lánsins hefði verið leitað í einu lagi. Ef það á að fara að taka þetta mál fyrir í fullri alvöru, þá þarf að leiða af gaumgæfni að þeim grundvelli, sem líklegastur er til þess að geta orðið að gagni. En hjer eru einmitt svo margar veilur í þeim grundvelli, sem þessar till. eru bygðar á, að meiri undirbúningur er alveg nauðsynlegur. Jeg hefi nú bent á eina slíka veilu í frv., útvegun lánanna, en þær eru miklu fleiri, eins og þær umr., sem fram hafa farið, bera vott um.

Þá er það eitt atriði í þessu máli, sem mjer þykir óviðfeldið. Alþ. getur að vísu tekið ákvarðanir um útgjöld úr ríkissjóði eins og því sýnist. En jeg kann því illa, að Alþingi sje að leggja bæjarsjóðum og sveitarsjóðum skyldur um fjárgreiðslur á herðar, án þess að þeir sjeu að því spurðir. En þetta er gert samkv. brtt. hæstv. forsrh., sbr. brtt. hv. 1. þm. N.-M, Og þetta er gert án þess að þeim sje nokkur stuðningur veittur til þess að þola þessi útgjöld.

Annað, sem jeg kann illa við, er það, hve ríkissjóður er hóflaust hlaðinn ábyrgðum. Jeg veit að vísu ekki fyrir víst, hvað búið er að velta miklum ábyrgðum á ríkissjóðinn á þessu þingi, en jeg hygg þó, að fyrir utan búnaðarbankann, þá muni það vera minst 2 milj. kr. Þó gott geti verið, að ríkissjóður ábyrgist lán, þá má þó ekki gera of mikið að því. Sje það gert, þá fer gagnið af því minkandi. Það getur farið fyrir honum eins og sumum góðum og velviljuðum mönnum, sem eru óbágir á að skrifa nafn sitt upp á víxla fyrir einn og annan. Þótt nafn þeirra hafi verið gott í byrjun, þá kemur að því, að það verður lítils virði, og seinast verður hætt að kaupa víxla með þeirra nafni. Nafn þeirra dugir þá ekki lengur. Líkt þessu gæti farið fyrir ríkissjóðnum. Hann er nú í ábyrgð fyrir bankana, að öllu leyti fyrir annan og að nokkru leyti fyrir hinn. Auk þess er altaf verið að leggja ýmsar nýjar ábyrgðir á herðar hans. Jeg þykist vita, að mjer verði svarað því, að ábyrgðin samkv. þessu frv. sje takmörkuð. Það er að vísu rjett, að takmörk felast í framlögum bæjarsjóða og sveitarsjóða, en í 3. lið 2. gr. stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ennfremur getur sjóðurinn tekið lán til útlánastarfsemi sinnar. Lánin ábyrgist ríkissjóður og bæjarsjóður í jöfnum hlutföllum“.

Ef margir sjóðir verða stofnaðir samkv. þessu frv. og það verður látið ná til margra kauptúna, er undir hælinn lagt, að í þessar mörgu bankastjórastöður fáist góðir menn, auk heldur ef þeir eiga nú að hafa mjög lág laun, þá er óvíst, að þeir bestu menn fáist í stöðurnar.

Jeg þykist nú reyndar sjá, að áhættan eigi að vera takmörkuð með þeim 15%, sem menn eiga að leggja fram sjálfir. En jeg vil skjóta því til hæstv. atvmrh., að ef gengismálið verður ekki afgreitt nú og ef svo fer, að krónan verður hækkuð, þá fer nú að minka sú trygging, sem þessi 15% eiga að veita fyrir því, að ríkissjóður tapi ekki á ábyrgðum sínum.

Þá er hjer eitt atriði enn, sem taka þarf til athugunar. Í 8. gr. er svo sagt, að lánin skuli veitt til þess að koma upp íbúðum fyrir verkamenn, og að veðskuldabrjef sje gefið fyrir hverja íbúð. Eftir núgildandi lögum er ekki hægt að gefa út veðskuldabrjef fyrir sjerstakar íbúðir. Hjer er aftur á móti gert ráð fyrir þessu. En það er algerlega á móti þeim grundvallarreglum, sem um þetta gilda hjer og annarsstaðar á Norðurlöndum. Þetta þarf því ásamt hinu öðru vel að athugast. Jeg var að hugsa um í vetur að koma með frv. í þessa átt. Jeg hafði heyrt, að í Osló væri til slíkur fjelagsskapur, er hefði sjerstök lög, sem heimiluðu þetta. En við nánari rannsókn á þessum fjelagsskap, svonefndum „Aktiebolig”, komst jeg að raun um, að þetta er einskonar hlutafjelag, sem veðsetur húseignirnar í heilu lagi. Eftir þeim reglum, sem gilda, þarf húsið ekki aðeins að eiga lóð undir sjer, heldur þarf sú lóð að vera helmingi stærri, og 1/3 þegar um hornlóðir er að ræða. sbr. gildandi bæjarsamþykt. Hús með lóð þarf því að vera sjerstæð eign, og annað þekkist ekki hjá nágrannaþjóðunum. Þetta alt þarf því að athugast rækilega áður en lög verða sett.

Þetta er þá í stuttu máli grg. fyrir afstöðu minni til þessa máls. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem eru þessu máli velviljaðir og vilja eitthvað gera fyrir þá, sem fátæktin þrýstir harðast að, eða eins og hæstv. atvmrh. orðaði það, að það væri sárgrætilegt að sjá æskuna tekna frá þeim börnum, sem verða að lifa í kjallaraholunum hjer í bæ — það var naumast annað hægt en að komast við af orðum hæstv. ráðh. — En frá sjónarmiði þessara manna ætti einmitt að íhuga þetta mál vandlega, svo það geti komið þeim að verulegu gagni, sem við mesta erfiðleikana búa. En þeir, sem við mestu erfiðleikana eiga að búa, hafa ekki gagn af þessu frv., því hvaðan fá þeir 15% ? Jeg hefi þá gert grein fyrir því, hvernig jeg muni greiða atkv. í þessu máli, og get látið staðar numið.