10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg vil þakka hv. 1. þm. N.-M. fyrir að hafa beðið með brtt. sínar, svo að hægt væri að athuga þær. Jeg sje ekkert á móti því, að þær sjeu samþ., að undanteknum tveimur; það eru þær, sem fjalla um framlag bæjarsjóða og vextina. Jeg hygg, að hv. þm. hafi ekki athugað þær afleiðingar, sem þetta hefði í för með sjer. Það er enginn hagnaður að geta bygt jafnt og áður, með hækkun vaxta og lækkun hins opinbera framlags til verksins. Það, sem menn verða að keppa að, er að gera íbúðirnar ekki of dýrar fyrir verkamenn, þannig, að þeir geti risið undir þeim. Það er í rauninni ekki gott að segja án undangenginnar rannsóknar, hvað þeir geta staðið straum af miklu, en jeg hygg, að ef renturnar vœru hækkaðar svona, myndi íbúðin kosta um 70–80 kr. á mánuði, en það er ofvaxið fyrir þá, sem hafa ekki nema 200–300 kr. í kaup á mánuði. Það er gengið út frá því í Reykjavík víðast, að húsaleigan megi ekki fara upp úr 20–25% af tekjum manna, en ef hún fer fram úr því, verður það afarþungur baggi. Ef þetta á að koma að gagni, má húsaleigan ekki vera meiri en 50–60 kr. á mánuði, að meðtöldum vöxtum. Um 10 kr. á mánuði hverjum munar verkamenn mikið, og það væri sama og að klippa neðan af alla þá, sem helst þurfa þessa með. Því vil jeg skora á hv. þdm. að greiða atkv. á móti þessari till.

Þá vil jeg snúa máli mínu til hv 3. þm. Reykv. og þakka honum fyrir undirtektirnar, enda er hann í bœjarstj. og hefir kynst mikið högum verkamanna. Jeg get eftir atvikum að mestu leyti fallist á hans brtt., en jeg hygg, að skrifleg brtt. sje á leiðinni þar sem 4.000 kr. eru settar í stað 3.500 kr., og muni hann aftur fallast á hana. Hvað viðvíkur uppdrættinum og eftirlitinu, þá eru þær till. til bóta. Eins er ekki nema sjálfsagt, að hægt sje að leita til einhverrar nefndar, sem gefur upplýsingar um kostnað bæjar- og sveitarsjóða við þetta verk, en jeg hygg, að skrifleg brtt. sje á ferðinni, sem miðar að því, að það sje komið undir dómi atvmrh., vegna þess að ríkissjóður ber ábyrgð á verkinu, og skylt sje að framkvæma verkið eftir fyrirmælum hans.

Þá kem jeg að brtt. hv. 2. þm. Árn., á þskj. 558, við 6. gr. Mjer finst hún í sjálfu sjer smávægileg, og það ætti að leiða af sjálfu sjer, að byggingarsjóður greiði annan kostnað, sem af verkinu leiðir, en þrátt fyrir það hygg jeg, að ekki þurfi neina sjerstaka skrifstofu til þess að annast þessi mál.