21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Hákon Kristófersson:

Jeg tók svo eftir áðan, að hv. 4. þm. Reykv. segði, að það myndi hvergi vera reglulegt eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra, nema hjer í Reykjavík. En úr því að þessi skoðun er nú uppi, þá teldi jeg betur í hóf stilt með slík ummæli, að það væri gerð grein fyrir því, á hverjum stöðum slík vanræksla ætti sjer stað, heldur en að segja það um alla landshluta undantekningarlaust. Jeg held, að það sjeu ekki mörg missiri síðan mjög greinagóðir menn hafa mjer svo tjáð, að það ljeki nokkuð á tveim tungum, hve mikið öryggi fælist í skipaskoðun hjer í Reykjavík. Jeg vona, að hv. þm. taki mjer það ekki illa upp, þótt jeg ekki greini sögumann, úr því að hv. þm. hefir ekki gert svo fyrir ummælum sínum.

Hv. þm. tók það fram, að það þyrfti að vera mjög strangt eftirlit með slíku, sem hjer er um að ræða, og jeg er honum mjög svo sammála um það atriði; en það er nú svona, að það er til gamalt orðtæki, sem segir, að strangasti rjettur getur stundum orðið strangasti órjettur, og það þarf enginn að láta sjer detta það í hug, hversu vel sem slíku eftirliti kann að vera fyrir komið, að þá geti ekki komið fyrir slys, sem enginn maður getur gert sjer grein fyrir, af hvaða ástæðum muni stafa.

Þá benti hv. þm. á, að það hefði verið nauðsyn á að finna tekjur í sambandi við þau útgjöld, sem óhjákvæmilega leiðir af þessu. Jeg skal viðurkenna það, að þetta er alveg rjett, að útgjöldin þurfa að greiðast með tekjum, en jeg vil leyfa mjer að spyrja, hvort það sje venja hjer yfirleitt á Alþingi, að þegar um útgjöld er verið að tala, þá þurfi endilega að snúast að einhverjum sjerstökum flokki manna, til að láta þá greiða útgjöldin. En jeg sje ekki betur en að svo sje til ætlast með því stjfrv., sem hjer liggur fyrir, að snúist sje að þeim mönnum, sem smábátaútgerð stunda, þótt hv. n. hafi, eins og hv. þm. Borgf. komst að orði, sjeð sjálfsagða skyldu sína að færa þetta nokkuð til betra vegar, sem láðst hefir að gera í stjfrv. Að gjaldið sje lítið, sem á smábátana kemur, er jeg að vissu leyti sammála um við hv. 4. þm. Reykv., en hitt má þá heldur ekki gleymast, þó að það sje lítið gjald, sem verið er að leggja á nú, að ef allmikil gjöld eru fyrir, þá getur það aukið svo mjög byrði hinnar vanmáttugu smábátaútgerðar, að tæpast er hægt að bera þau.

Það er rjett, sem hv. frsm. n. sagði, að þessi skoðun mun taka mjög stuttan tíma; þar með er auðvitað ekki sagt, að hún sje einskis virði, en hún hefir í mörgum tilfellum alls ekki tekið viðkomandi meira en einn klukkutíma, en það getur stafað af því, að þegar um algerlega ný tæki er að ræða, þá er svo ósköp auðvelt að líta yfir þetta. Að þær kvaðir, sem þyngstar sjeu á smábátaútgerðinni, stafi af tollum til ríkissjóðs, furðar mig að jafngreinagóður og skýr maður og hv. 4. þm. Reykv. skuli telja rjett, því að vitanlega koma þeir tollar ekki til nema eitthvað aflist, og eru venjulegast miðaðir við einhverja skippundatölu.

Það er mesti munur á að greiða, við skulum segja 20 kr., fyrir að skoða smábát, sem ekki útheimtir meiri tíma en þessir heiðursmenn verja til þess, eða að greiða 20 kr. í skatt til ríkissjóðs, sem miðaður er við vist gjald af hverju veiddu skippundi. Hv. n. hefir nú fært þetta skattgjald allmikið niður, en jeg hefði talið vera sanngjarnast að fella það alveg í burt og að það fælist í því gjaldi, sem greitt er fyrir skoðun skipanna. Það þarf ekki að fara í neinar felur með það, að nú, þegar svo mikil gjöld eru á útgerðinni, bæði hinni smærri og stærri, þá verða jafnvel hinir reyndustu menn þessarar stjettar að hugsa sig mjög vel um, áður en þeir stíga spor í þá átt, hvort sem stórt er eða lítið, að auka við sín útgjöld.

Enda þótt jeg líti nú þannig á þetta, þá býst jeg þó ekki við að greiða atkv. á móti till. hv. n., því að þær fara miklu meira í sanngirnisáttina heldur en þær till., sem miðuðu að því sama og lágu fyrir í frv. hæstv. stj.

Það, sem hefir orðið ágreiningsatriði milli hv. þm. Borgf. og hv. n., finn jeg enga ástæðu til að minnast á, því að jeg tel sjálfsagt, að mönnum, sem eru bundnir við þetta sem fasta stöðu, þurfi að launa sanngjarnlega; jeg hefi aldrei litið öðruvísi á en svo, að menn verði að hafa sæmileg laun af hálfu ríkisins, til þess að þeir geti unnið að þeim störfum, sem þeim er trúað fyrir, og þurfi ekki að vera alstaðar annarsstaðar til þess að fá sjer aukatekjur.

Jeg vona, að hv. 4. þm. Reykv. taki mjer það ekki illa upp — (SÁÓ: Jeg er dauður.) — jeg vona, að það sje ekki nema tímanlegur dauði —, að jeg get ekki fallist á, að bað muni vera neitt verulega betri skoðun um að ræða í Reykjavík heldur en annarsstaðar á landinu; það er kannske nokkuð meira um sjermentaða menn þar í þeirri grein, en öðruvísi get jeg ekki hugsað mjer betur í hóf stilt. (SÁÓ: Það mætti færa dæmi). Já, en ætli menn reyni þá ekki að færa dæmi á hinn veginn líka.