04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Það má nú segja, að þetta mál sje að mestu leyti útrætt. Í þessari síðustu ræðu minni vil jeg stuttlega gefa yfirlit yfir rök þessa máls, einkum með tilliti til ræðu hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl.

Jeg skal þá byrja á að slá því föstu, að með brjefi stjórnar yfirsetukvennafjel. er það óhrekjanlega sannað, að yfirsetukonur vantar í 30 umdæmi. Það kemur ekki málinu við, þó að sumar yfirsetukonur gegni meira starfi en til er ætlast, eingöngu af því, að engar fást til þess að sinna fámennustu umdæmunum með núverandi launakjörum. Um leið og jeg yfirgef þetta atriði málsins, vil jeg undirstrika það, að í því liggur einmitt ástæðan til að gera þá undantekningu frá launalögunum, sem hjer er farið fram á.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri ekki nema nokkur hluti útskrifaðra yfirsetukvenna, sem tækju við umdæmi að námi loknu. Jeg þakka honum þessi ummæli, því að þau eru viðurkenning á því, að kjörin sjeu óviðunandi, að yfirsetukonurnar vilji ekki líta við þeim, jafnvel þó að þær sjeu búnar að kosta sig til náms.

Hæstv. fjmrh. og hv. meiri hl. fjhn. hafa haldið því fram, að þeim yfirsetukonum, sem hæst eru launaðar, sje gert hærra undir höfði í frv. en þeim, sem lægst eru launaðar. Þessa staðhæfingu hefi jeg rekið til baka hvað eftir annað og skal gera það enn einu sinni. Besta sönnunin fyrir mínu máli er í áliti meiri hl. sjálfs. Þar stendur svart á hvítu, að laun þeirra hæstlaunuðu hækki um 50%, en þeirra lægst launuðu um 82%. Það, sem sker úr deilunni milli mín og hv. meiri hl., er þá það, hvor talan er hærri, 50 eða 82. Fari svo, að 50 reynist hærri tala, þá skal jeg fúslega beygja mig, en ef 82 kynni að reynast hærri, þá verður hv. meiri hl. að viðurkenna, að hann hafi rangt fyrir sjer.

Þar við bætist, að þær yfirsetukonur, sem nú njóta bestu launakjara, eru einungis þrjár, nefnil. yfirsetukonurnar hjer í Reykjavík. Jeg hefi áður skýrt frá því, hvers vegna laun þeirra þurfa að vera nokkru hærri en hinna. Það er til þess að hægt sje að tryggja ljósmæðraskólanum nægilega kenslukrafta. En allir geta sjeð, að það verður ekki mikið fje, sem kemur í hlut þessara þriggja ljósmæðra.

Hæstv. fjmrh. færði sem aðalástæðu gegn frv., að ekki mætti hækka launin fyr en búið væri að stýfa krónuna. Mjer koma þessi ummæli undarlega fyrir sjónir. Jeg veit ekki betur en íhaldsbróðir og framsóknarbróðir sjeu búnir að rjetta hvor öðrum höndina í gengismálinu og ætli að lýsa blessun sinni yfir stýfingunni. Hæstv. fjmrh. þarf því varla að óttast, að krónan hækki svo mikið, að launahækkun yfirsetukvennanna verði ríkissjóði óbærileg þess vegna.

Hæstv. fjmrh. færði það enn gegn frv., að ekki sæist, hver ætti að greiða dýrtíðaruppbótina. Á því getur naumast leikið vafi, að hún eigi að greiðast af sömu aðiljum og launin sjálf. En óski hæstv. ráðh. ótvíræðra fyrirmæla, er jeg fús til að flytja brtt. um það efni.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ekkert væri tekið fram um það í frv., hvort tekið yrði tillit til þjónustualdurs þeirra yfirsetukvenna, sem nú eru starfandi. Jeg tel sjálfsagt, að svo verði, en get líka borið fram brtt. til að kveða nánara á um það.

Jeg skal nú eigi þreyta hv. deild með langri ræðu um þetta mál. En jeg vil vekja athygli á því, að við verjum nú á ári hverju miljónum króna til lækna og sjúkrahúsa. Móti því þorir nú enginn að rísa, enda vil jeg síst mæla gegn því, að sem mest rækt sje lögð við heilbrigðismálin hjer á landi. En því þá að sýna þennan frámunalega lúsarskap gagnvart hinum trúu þjónum þjóðfjelagsins, yfirsetukonunum? Heilbrigði þjóðarinnar er eigi að litlu leyti komin undir starfsemi þeirra. Það er ekki einungis, að móðir og barn eigi oft og tíðum líf sitt undir því, að náist til yfirsetukonu. Sje meðferð barnsins fyrst eftir fæðinguna ekki sem skyldi, getur það af því hlotið æfilangt heilsutjón. Og það þarf ekki að sparast nema eitt einasta mannslíf til þess að þjóðfjelagið fengi að fullu goldinn þann litla kostnað, sem leiða myndi af hækkun launanna.

Það var einhver að brosa að því áðan, að jeg kallaði þetta mál alvarlegt. En jeg álít, að mál, sem snertir heilbrigði komandi kynslóða, sje jafnan alvarlegt mál. Og jeg veit, að þeir, sem standa gegn þessu frv., gera það ekki af illvilja, heldur einhverju rótgrónu afturhaldi, sem þeir geta ekki losað sig við. Þeir fylgjast ekki með tímanum og kröfum hans. Því eru þeir á móti þessu frv.

Einu sinni fyrir löngu síðan var jeg gestkomandi á litlum bæ uppi í sveit. Á þessum bæ lá kona í barnsnauð, og það var ómögulegt að ná til yfirsetukonu. Jeg gleymi aldrei angistarsvipnum á andlitum heimilisfólksins. Jeg gleymi aldrei vonleysinu, sem lamaði þetta litla heimili, meðan líf móðurinnar hjekk á þræði. Enginn þm. mætti sjá eftir lítilli fjárveitingu, ef hún gæti orðið til þess að vernda líf og heilsu hinna uppvaxandi kynslóða.