07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

51. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það neitar því enginn, að í till. hæstv. fjmrh. felist nokkrar bætur á kjörum yfirsetukvennanna, en þær bætur eru ekki það veigamiklar, að jeg sjái ástæðu fyrir hv. deild að snúa frá því, sem hún hefir áður samþ., þeirra vegna. Það má líka lengi bíða, ef á að bíða eftir endurskoðun launalaganna. 1925 átti að endurskoða þau, en því var frestað. 1926 var því enn frestað, sömuleiðis 1928, og nú 1929 sjer enginn nokkra leið til að endurskoða lögin. Þetta er nú 5. árið, sem dregið er að endurskoða lögin, og því er borið við, að ekki sje búið endanlega að ákveða gengi íslenskrar krónu. Og nú er sagt, að samningar á milli Framsóknarmanna og íhaldsmanna um það hafi strandað í bili. Á næsta þingi verður því ekkert búið að gera út um festingu krónunnar, og þá er ekkert hægt að gera í launamálinu. Þessi skollaleikur getur staðið nokkuð enn, og altaf má finna sjer eitthvað til sem átyllu á móti endurskoðun launakjara starfsmannanna. Eftir þessu þýðir því ekki að bíða, og ef menn sjá, að einhver stjett á rjett á bættum launakjörum, er sjálfsagt að reyna að bæta þau.

Hæstv. ráðh. efaðist um, að það væri eins ilt að fá ljósmæður og af er látið, en hann vildi samt ekki til fulls vefengja það. Enda er skjallega hægt að sanna, að það vantar fjölda yfirsetukvenna úti um landið.

Hæstv. ráðh. sagði, að það mundi verða fylgt fylstu kröfum ljósmæðranna, ef frv. yrði samþ. Jeg skal ekkert segja um, hverjar þær eru. Jeg mundi fallast á þær, ef þær væru rjettmætar. Hinar rjettmætu kröfur eiga að ráða, hvort sem það eru fylstu kröfurnar eða ekki.

Þá bendir hæstv. ráðh. á, að gæta verði samræmis við aðra launaflokka. Það er vitanlega rjett, en hjer er ekki öðrum launaflokkum til að dreifa en hreppstjórum og oddvitum. Hæstv. ráðh. sagði, að þeirra störf væru meiri en störf ljósmæðranna. Jeg skal ekkert um það dæma. Jeg hefi hvorugu starfinu gegnt, en jeg hefði haldið, að það væri ólíkt ónæðissamara að vera yfirsetukona heldur en hreppstjóri.

Og hreppstjórar eiga þó altaf von á því, þegar þeir láta af starfi sínu eftir 25 ár, að geta hengt á sig Fálkaorðuna. Hreppstjórastaðan er mjög eftirsótt, af því að hún gefur pólitísk ráð í sveitinni. En ljósmæðrastaðan er ekki eftirsótt. Vantar kannske í 30–40 hreppstjórastöður á landinu?

Ekki er alveg rjett, það sem hæstv. í ráðh. sagði um fjárhæðina, sem greidd er úr ríkissjóði. Hann segir, að nú sjeu greiddar 45400 kr., en eftir frv. sjeu það 94200 kr. Þetta er dálítið í hæpið hjá hæstv. ráðh. Hann gerir í sem sje ráð fyrir því, að yfirsetukonurnar sjeu allar á hámarkslaunum, en getur hann hugsað sjer að þær verði allar samtímis á hámarkslaunum? Sennilegra væri að reikna, að helmingur ljósmæðra væri á hámarki launa. Þá lækkar upphæðin að miklum mun. Fjárhæðin getur því aldrei orðið 94200 kr. — og ekkert nálægt því —, nema í útreikningum hæstv. í ráðh. Það er aðeins hugsanlegur möguleiki, en kemur aldrei fyrir í praksis. Sama er að segja um, að hjer verði um 100% launahækkun að ræða; það er heldur ekki rjett. Hæstv. ráðh. spurði, hvort jeg vildi hækka laun annara starfsmanna um 100%. Já, ef það væri rjettmætt.

Nú er ríkissjóður fullur af peningum, svo að ráðherrarnir vita ekkert, hvað þeir eiga að gera við þá. Hæstv. stj. neitaði um daginn að taka við 200 þús. kr. tekjuauka. Svo að ekki er hjer getuleysi um að kenna.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta. Ástæður hæstv. ráðh., fjárhagslega ástæðan og samanburður við aðra launaflokka, nægja ekki til þess að rjett sje að fella þetta mál. Það á að samþ. frv. á þskj. 305 með nauðsynlegum formsbreytingum.