23.04.1929
Neðri deild: 52. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

42. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Pjetur Ottesen:

Það hefir verið skýrt tekið fram af meiri hl. sjútvn., að hann liti á það sem höfuðatriði þessa máls, að með þeirri breytingu, sem hjer er lagt til að gerð verði á Fiskiveiðasjóðnum, sje lagður grundvöllur að frekari eflingu sjóðsins. Hjer sje aðeins um byrjun að ræða. Það er því ástæðulaus fyrirsláttur hjá sósíalistum þessarar deildar, að á þetta frv. beri að líta sem nokkra frambúðarskipun þessa máls. Þessu hefir hv. 4. þm. Reykv. og fjelagar hans dróttað að frsm meiri hl. Þeir hafa gert það þrátt fyrir það, þó að hv. frsm. hafi skýrt og skorinort lýst yfir því, að hann áliti þetta aðeins sem byrjunarstig. Það kalla þeir einungis fals og blekkingu. Jeg tel það frámunalegt, að menn með slíkum hugsunarhætti skuli hafa flotið inn á Alþingi.

Hv. þm. Ísaf. hefir slegið því föstu, að hjer sje ekki um neina úrlausn að ræða fyrir bátaútveginn. Þetta gerir hann, þó að það standi skýrum stöfum, að auka eigi sjóðinn að verulegum mun, og hann freistar að rökstyðja þessi ummæli sín með því, að það muni ekki koma að liði, því að bankarnir muni þá fremur vísa útgerðarmönnum á bug og benda á þessa stofnun. Þessi tilgáta hv. þm. er fjarstæða einber, og er aðeins getgáta út í loftið og gerð í blekkingarskyni.

Hv. þm. sagði, að nú væri verið að setja á stofn lánsstofnun með 50 milj. kr. fyrir landbúnaðinn. En hvernig var þar af stað farið? Fyrsti grundvöllur þeirrar stofnunar má telja að hafi verið lagður 1924, ef frá er talinn ræktunarsjóðurinn gamli. Það fjármagn, sem gert var ráð fyrir að sú stofnun hefði til umráða, var allmiklu minna en það fje, sem Fiskiveiðasjóðnum samkv. þeim tillögum, sem fyrir liggja, er ætlað að vinna með. Á þessum grundvelli er nú verið að byggja 50 milj. kr. lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, og sú þróun hefir orðið á 5 árum. Má þá ekki einnig gera ráð fyrir, að veruleg þróun eigi sjer stað í þeirri stofnun, sem nú er verið að ræða um að leggja grundvöll að? Jeg fyrir mitt leyti geri fullkomlega ráð fyrir því.

Jeg verð að segja það, að mjer virðist fulltrúar sósíalistanna hjer í deildinni hafa dálítið einkennilegar aðferðir til að sýna áhuga sinn á að bæta úr lánsþörf bátaútvegsmanna. Þeir leggjast á móti öllum tillögum, er fram hafa komið í þá átt. Þar speglast best áhugi þeirra. Og þetta gera þeir undir yfirskyni stórhuga og brennandi áhuga!

Hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv. hafa margoft haft þau orð um grundvöll þann, er hjer er verið að leggja, að hann væri hlægilegur. En hvað er það nú, sem er eiginlega hlægilegt í þessu máli? Að mínu viti er það eitt hlægilegt, af því, sem fram hefir komið, að þeir menn, er berjast með hnúum og hnefum gegn öllum þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið hjer í deildinni til að bæta úr lánsþörf smábátaútvegsins, að þeir menn skuli tala um brennandi áhuga á að bæta úr þeirri þörf!