02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Jón Þorláksson:

Efni þessara brtt. hefir ekki verið rætt sjerstaklega í fjhn. nú, en var gert í fyrra. Jeg vil því færa fram þær aðalástæður, sem þá komu fram gegn þeim og enn eru til staðar. Hinn takmarkaði markaður á saltaðri síld er ekki að öllu leyti óheppilegur, vegna þess hve þessi atvinnuvegur, sem er stundaður yfir hásumarið, dregur freklega til sín fólkið úr sveitunum. Það var því að vissu leyti gleðiefni, þegar hjer kom upp önnur tegund hagnýtingar á síldinni og farið var að bræða hana. Það er rjett, ,að það er nokkuð hátt útflutningsgjald af saltsíld, en til þess eru sjerstakar sögulegar ástæður, sem jeg vil ekki fara langt út í að rekja hjer. Þessi atvinnuvegur dregur vinnukraftinn frá öðrum atvinnugreinum, sjerstaklega landbúnaðinum, á þeim tíma, sem hann má síst við því. Það þótti því rjett að leggja á hann allmikla skatta af þessari ástæðu. Hinsvegar er á það að líta, að þeir fiskimenn, sem nota skipastól sinn til að veiða í bræðslu, fá helmingi minna verð fyrir hrásíldina en með því að selja hana til söltunar. Hv. 2. þm. S.-M., sem er kunnugur þessum málum frá síðasta sumri, sagði, að verðið á hverri hrásíldartunnu til söltunar væri 12–14 kr., en verðið á bræðslusíld var 7,75–8 kr. málið, eftir því sem skilorður útgerðarmaður hefir sagt mjer, og það er sama sem 6,50 hver 100 kg., eða með öðrum orðum hálft verð hrásíldarinnar, þegar hún er seld í söltun. Það er auðsjeð, að því leyti, sem útflutningsgjaldið lendir á sjálfri veiðinni, hrásíldinni, að ekki er rjett, að jafnhár tollur sje lagður á sama þunga af bræðslusíld og söltunarsíld. Þau skip, sem veiða í bræðslu, gera það í þeirri von að geta aflað meiri þunga síldar en ef þau veiddu í salt, þar sem skila verður síldinni nýrri. Og það er ekki einu sinni sanngjarnt, að sú veiðiaðferð, sem skilar hálfu verði fyrir afurðirnar, beri hálft gjald, samanborið við þá veiðiaðferð, sem skilar tvöföldu verði. Þar sem hv. 2. þm. S.-M. gerir ráð fyrir, auk hækkunarinnar samkv. þessu frv., að hækka útflutningsgjald af lýsi sem svarar 30–40 aurum af hverjum 100 kg. hrásíldar, eða 50–60 aurum af hverju máli, vona jeg, að menn skilji, hvaða þýðingu það hefir fyrir þessa atvinnugrein, sem verður að sætta sig við 6,50 kr. fyrir 100 kg. hrásíldar, ef farið verður að auka gjöldin sem svarar 60 til 80 aurum á hver 100 kg.

Eins og stendur er tvísýnt um það, hvort arðvænlegt er að veiða síld til bræðslu í meðalárum. Sú reynsla, sem fengin er, nær aðeins til góðra veiðiára í hagstæðri veðráttu. Ef svo á að fara að lögleiða þá hækkun, sem hjer er farið fram á, er jeg hræddur um, að það verði til að draga síldveiðina úr innlendum höndum og ýta undir útlendinga til veiða hjer við land, en þeir geta útbúið sig svo, að þeir geta veitt eftir sem áður án þess að komast undir íslensk útflutningsgjöld með sínar afurðir. Jeg tel þetta því mjög varhugavert.

Jeg get bætt því við, að enn hefir ekki komið fram ósk frá hæstv. fjmrh. í þá átt að fá slíkan tekjuauka, en jeg tel þá ástæðu eina, að ríkið þurfi á tekjum að halda, geta rjettlætt ný skattaálög á þegnana.