02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

10. mál, útfutningsgjald af síld o.fl.

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mjer skildist á ræðu hv. 3. landsk. eins og hann væri að fiska eftir því, hvort stj. mundi hlynt brtt. þeim, sem hv. 2. þm. S.-M. ber fram á þskj. 223.

Út frá þessu vil jeg þá benda á það, að á síðasta þingi lá samskonar mál og þetta fyrir fjhn., sem við áttum báðir sæti í, hv. 3. landsk. og jeg. Þegar málið var rætt í n., urðu um það skiftar skoðanir. Hjelt hann fram sinni skoðun, sem var hin sama og hann hefir enn, en jeg var þá með því, að samskonar till. og nú liggja fyrir yrðu samþ.

Til viðbótar þessu vildi jeg þá segja það, að jeg hefi ekki skift um skoðun frá því í fyrra, og tel því hækkun þá, sem hjer er um að ræða á útflutningsgjaldinu, alls ekki ósanngjarna.

Hv. 3. landsk. taldi þessa breyt. ósanngjarna í garð þeirra manna, sem veiða síld í bræðslu, og vildi sanna það með verðsamanburði síldaraflans síðastl. sumar, Nú er við þennan samanburð það að athuga, að síðastl. sumar var verð saltsíldar óvenjulega hátt, en verðið á bræðslusíld hlutfallslega lágt. Hefði hann tekið samanburðinn á síldaraflanum sumarið 1927, þá hefði annað orðið uppi á teningnum. Annars er erfitt að segja, hvort þetta geti verið ósanngjarnt eitt ár eða ekki, enda ómögulegt að segja, á hvora hliðina ósanngirnin kemur fram.

Fleira þarf jeg ekki að segja. Jeg felst á þessa brtt. og mun fylgja henni eins og jeg gerði í fyrra.