21.02.1929
Efri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

22. mál, nöfn bæja og kaupstaða

Jón Þorláksson:

Jeg kann illa við þennan eftirhermuhátt eftir Norðmönnum, sem hafa lifað slíkt niðurlægingartímabil, að nú vilja þeir þurka burt 2–300 ár úr sögu þjóðar sinnar, ef þeir gætu. En engu slíku er til að dreifa hjer á landi. Við getum borið höfuðið hátt, því að okkar þjóðlega menning hefir verið óslitin frá landnámstíð fram á þennan dag. Það væri okkur til minkunar að fara að dæmi Norðmanna í þessu efni, því að með því værum við að gefa í skyn, að okkar saga á þessum öldum væri sú sama og þeirra.

Í 1. gr. frv. er sagt að ráði málvenja, og í 2. gr. að ekki megi skifta um nafn á bæ eða kaupstað, nema heimild sje veitt til í sjerstökum lögum. Jeg hygg, að það sje ekki svo um alla kaupstaði, að þeir hafi lögheiti, sem fellur saman við málvenjuna, samanber nöfnin Blönduós og Sauðárkrókur, sem í daglegu tali er kallað Ósinn og Krókurinn. Jeg vil því skjóta því til hv. allshn., að fara ekki að fitja upp á neinu í löggjöfinni, sem skoða mætti sem viðurkenningu um, að við hefðum ekki haldið okkar tungu óskemdri.