21.02.1929
Efri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

26. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er að mestu leyti samið eftir þeim lögum, sem gilda um tilsvarandi efni í Danmörku. Það gengur í þá átt, að veita bæjarfjelögum og ríkissjóði nokkrar tekjur af kvikmyndum, fram yfir þær, sem þau hafa áður haft. Eiga þær að standa í rjettu hlutfalli við arðsemi atvinnunnar. Ennfremur er ætlast til, að framvegis verði haft eftirlit af hálfu hins opinbera með þeim myndum, sem sýndar eru í kvikmyndahúsum. Á það að koma í veg fyrir, að sýndar verði myndir, sem eru ósmekklegar eða að einhverju leyti mega teljast siðspillandi. Þesskonar eftirlit er tekið upp í öðrum löndum, þar sem kvikmyndir hafa tíðkast lengur en hér.

Gjald til hins opinbera fyrir leyfi til kvikmyndasýninga á, eftir frv., að reiknast í hlutfalli við stærð þeirra bæja, sem kvikmyndahúsin eru í, eftir fjölda kvikmyndahúsanna, verði sæta í hverju kvikmyndahúsi og fjölda sýninga. Með því verður gjaldið á hverjum tíma í rjettu hlutfalli við hagnaðinn, án þess að gera þurfi sjerstakar breytingar vegna nýrrar aðstöðu.

Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til þeirrar nefndar, sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að athuga, hvort eigi væri tiltækilegt að ákveða einhverja ívilnun handa kvikmyndahúsum, þar sem myndir eru sýndar með íslenskum texta. Um það er ekkert í frv., en væri sennilega heppilegt að setja sjerstök ákvæði um það efni.

Að svo mæltu legg jeg til, að frv. verði vísað til hv. mentamálanefndar.