05.03.1929
Neðri deild: 14. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg er annar þeirra þm., sem fluttu hjer á þingi frv. um sáttasemjara í vinnudeilum, og jeg er þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið eigi hjer á landi, enn sem komið er, ekki að hafa önnur afskifti af verkföllum og verkbönnum en að ganga á milli og miðla málum. Sáttasemjari hefir þegar unnið mikið gagn og leyst alvarlegar deilur með milligöngu sinni, og er þess að vænta, að svo verði og framvegis. Jeg skal ekki bera á móti því, að gerðardómur geti verið góð úrlausn, en hann verður því aðeins að gagni, að trygt sje, að honum verði hlýtt, en það verður eigi nema að báðir aðiljar skuldbindi sig fyrirfram til að hlíta honum.

Þjóðfjelagið hefir viðurkent samtök atvinnurekenda og verkamanna. Með afskiftum sínum getur þjóðfjelagið að vísu sprengt samtök annarshvors aðiljans, en það hefir hvergi reynst varanleg úrlausn. Slík samtök verða að springa af innri orsökum, þegar boginn er spentur of hátt, en þriðji aðili skapar engan frið með sprengingu. En afskifti þjóðfjelagsins af vinnudeilum, að öðrum eða báðum aðiljum nauðugum, verða aðeins til að auka heift og úlfúð á milli atvinnurekenda og verkamanna, og þá er ver farið en heima setið.

Þetta hjelt jeg að væri alment viðurkent hjer á landi og því undraðist jeg stórum, er jeg sá, að nú var komið fram frv. hjer í deildinni um þvingaðan gerðardóm. Tvisvar áður hefir tillaga um slíkan dóm komið fram, án þess að sjeð verði, að þær tillögur hafi haft teljandi fylgi. Þó var sama hætta framundan þá og nú.

Mjer hefir jafnan heyrst á forráðamönnum báðumegin, að lögskipaður gerðardómur, án tillits til samþykkis aðilja, væri ekki ráðlegur. Nú liggur ekki hjer fyrir neinn boðskapur um, að þetta frv. sje flutt að ósk annarshvors aðilja, en þegar er það komið fram —þó ekki formlega sje — að annar aðilinn, verkamenn, sje frv. mótfallinn og muni ekki una við nauðungardóma.

Það liggur að vísu beint við að hugsa sem svo, að þegar tveir aðiljar deila, þá sje það þjóðfjelagsins að dæma um málið. En um kaupgjald er þjóðfjelaginu ekki auðvelt að dæma. Fyrsti örðugleikinn er sá, að finna þá meginreglu, sem dæma eigi eftir. Um það finst mjer að hefðu þurft að vera ákvæði í frv. Það má vitanlega ekki eiga sjer stað, að dæmt sje annað árið eftir því, sem mönnum telst til að sjómenn þurfi til að lifa á, en hitt árið eftir gjaldþoli útgerðarmanna eða ef til vill hvorri reglunni sitt á hvorum stað í sama mund. Þetta er einn aðalörðugleikinn, og þetta ber vott um, að atvinnuvegur eins og togaraútgerðin er ekki rekinn með því fyrirkomulagi, að lögbundinn gerðardómur geti komið að haldi. Eðlilegur grundvöllur dóms er þar sem hagsmunir eiga meiri samleið en hjer á sjer stað.

Nauðungardómurinn gæti beinlínis orðið til að auka vandræði og vinnudeilur í landinu, eins og reyndin hefir orðið á í Noregi.

Þar hafa verkföll risið beinlínis út af nauðungardómnum og staðið svo mánuðum skifti. Þar hefir þó verið gripið til allra bragða — fimtugasti hver og hundraðasti hver verkfallsmaður sektaður, og þegar sektirnar ekki innheimtust, voru þeir settir í fangelsi hundruðum saman og alt hefir orðið til einskis. Slík eru vandkvæðin, þar sem annarhvor aðilinn er ekki gerðardómnum fylgjandi.

Því hefir verið haldið fram um þetta frv., að gera megi verkföll og verkbönn eftir sem áður, þó það verði að lögum. En samkvæmt 8. gr. skulu dómsúrslit vera bindandi fyrir aðilja. Það er því víst, að eftir frv. eru verkföll og verkbönn bönnuð. Að vísu er það rjett, að hver einstaklingur er frjáls að því eftir sem áður, hvort hann vinnur eða rekur atvinnu. En að svifta einstaklingana samtakarjettinum er sama sem að svifta þá öllum öðrum rjetti en rjettinum til að svelta hver út af fyrir sig.

Ef dómur er genginn og togurunum er lagt upp samt sem áður — þá er mjer sem jeg sjái skrif „Alþýðublaðsins“! Eða ef verkamenn halda máli sínu til streitu þrátt fyrir dómsúrskurðinn — hvað ætli „Morgunblaðið“ segði þá? Ætli að þá yrði ekki spurt úr báðum áttum, hvar ríkisvaldið væri, sem framfylgja á úrskurði gerðardómsins.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) mundi segja, að í rjettarþjóðfjelagi sje nauðsynleg það öflug lögregla eða her, að unt sje að framfylgja slíkum dómum. Þetta er öldungis rjett. Ef ríkisvaldið á að taka að sjer að útkljá mál manna með dómi, þá verður ríkisvaldið að sjá um fullnæging dómanna. En þetta ríkisvald er oft ekkert annað en aðiljar þeir, er eigast við. Jeg vil segja það, að jeg trúi ekki á valdið, líkamlegt ofurefli, til að jafna deilurnar um kaup og kjör manna hjer frekar en í öðrum þjóðfjelögum. Viljinn til að vinna verður að vera frjáls einstaklingum, og viljinn til samtaka um að vinna ekki eða um að gera ekki út skip sín, verður einnig að vera frjáls á núverandi þroskastigi þjóðfjelagsins. Valdið getur að vísu stundum fært fróun í svip, en þegar sú leið er valin, er jafnframt spillir hugarfarinu, þá er áhætta framtíðarinnar aukin stórlega. Það eru hvorki nauðungarlög nje mannmörg lögregla, er bjargar í þessu efni. Okkar þjóð er nú að komast inn á það svið, er aðrar vestrænar þjóðir hafa lifað á í alt að öld, svið stórrekstrarins, þar sem öldur vinnudeilanna rísa hátt og ógna þjóðfjelögunum. Það er ekki við því að búast, að við hjer á landi finnum hreinni sjó, losnum þegar í byrjun við þau vandræði, er aðrar þjóðir hafa ekki enn fengið leyst, eftir aldalanga þróun. Þess er varla að vænta að við, án alls undirbúnings og þroska, getum fundið eitthvert allsherjarráð við vinnudeilum, er öðrum þjóðum hefir skotist yfir í aldarlangri leit. Með Englendingum eru þvingaðir vinnudómar varla nefndir á nafn. Þar telja báðir aðiljar alt undir því komið, að friðsamleg sátt náist. Aðiljar halda þar fullum sjálfsákvörðunarrjetti. Málin eru lögð í gerð, ef aðiljar koma sjer saman um það. Líkt er það í Þýskalandi, og hlýtur fregn sú, er hingað barst nýlega, um úrskurð þýsku stjórnarinnar um gildi vinnudóms að eiga við það, að aðiljar hafi áður gert þá samninga með sjer, er skuldbundu þá til að hlýða. Í sumar átti jeg tal við marga þingmenn í Danmörku og Svíþjóð, bæði hægrimenn og jafnaðarmenn, um vinnudóma. Þeir voru innilega sammála um, að engrar hjálpar væri að vænta af lögþvinguðum gerðardómum. Töldu þeir fordæmi Noregs til viðvörunar í því efni, en ekki eftirbreytni. Þegar lögin um vinnudóm voru sett þar síðast, voru báðir aðiljar andstæðir þeim. Þrátt fyrir langa baráttu þar í landi virðist engin ró hafa færst yfir vinnudeilur, og framtíð nauðungardómsins er þar mjög tvísýn.

Jeg hygg, að skipulag hins stærri rekstrar sje ekki lengra komið hjer á landi en svo, að ekki sje fært fyrir þjóðfjelagið að svo stöddu að fara lengra en taka að sjer millgöngu um sáttaumleitanir. Jeg geri ráð fyrir, að lögunum um sáttasemjara megi breyta á ýmsan þann hátt, að meiri trygging væri fyrir, að þau næðu tilgangi sínum. Vil jeg benda þeirri nefnd, sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, á að heppilegt gæti verið að gefa sáttasemjara rjett til nauðsynlegra rannsókna um hag aðilja. Ennfremur gæti verið rjett að taka það í lög, að verkföll og verkbönn skulu boðuð með nokkrum fyrirvara, svo hægt væri að koma við sáttaumleitunum áður en þau skyllu yfir. En slík ákvæði þurfa alls ekki að vera bundin við neinn nauðungardóm. Þá gæti og verið heppilegt að hafa lög um gerðardóm, er starfaði, er aðiljar vildu vísa málum sínum til hans. En sá dómur getur ekki verið eins bygður og hjer er gert ráð fyrir. Eðlilegra væri að aðiljar nefndu 5–6 menn í dóminn hvor, er svo kæmu sjer saman um oddamann; tækist þeim það ekki, þá skuli oddamaður útnefndur af ráðherra eða hæstarjetti. Væri æskilegt að láta aðilja tilnefna nokkuð marga menn og leyfa gagnaðiljum að ryðja dóminn. Það er æskilegt að hinum vanstiltustu mönnum af liði beggja sje bægt frá dómstörfum, en því verður best náð, sje mörgum rutt.

Jeg hygg, að þetta verði næsta skrefið, sem við Íslendingar getum tekið, að bæta sáttasemjaralögin og koma upp gerðardómi, sem þó er ekki látinn starfa nema samþykki aðilja komi til. Jeg býst við, að margir telji þetta litla björg í þeim vanda, sem þjóðin er nú stödd í. Margur krefst skjótra og endanlegra úrslita. En það verður nokkur bið á úrslitum lífsbaráttunnar í þessu efni svo sem öðrum. Það verður bið á því, að verkbanns og verkfallsbölinu verði af ljett til fullnustu. Við verðum að sætta okkur við þá tilhugsun, þótt hún sje ef til vill ekki eins ánægjanleg og trúin á dómsdag og nálægt þúsundáraríki. Engin löggjöf getur þar valdið úrslitum, heldur þróun skipulagsins ein. Þótt talað sje um breytingu á skipulagi atvinnuhátta, þá geta menn verið jafn rjetttrúaðir fylgjendur núverandi þjóðfjelagsskipulags fyrir það. Hvorki nauðungardómar nje her valda úrslitum launabaráttunnar hjer fremur en í öðrum löndum. Við Íslendingar getum ekki búist við að vera þau óskabörn forsjónarinnar, að fá fullan frið og velþóknun þegar í upphafi þeirrar baráttu, sem enn á langt í land í þeim löndum, sem í 50–100 ár hafa háð þá baráttu, sem nú er hjer í byrjun.

Við verðum að sætta okkur við þau sannindi, að verkföll og verkbönn eru samgróin skipulagi stórrekstrarins. Slík meðul eru notuð og hljóta að verða notuð í hverjum þeim atvinnurekstri, þar sem fjármagnið hefir einkarjett á arðsvoninni og einveldi — misjafnlega vel upplýst — um yfirstjórn fyrirtækjanna. Hvarvetna þar, sem einveldi hefir átt sjer stað, hefir gengið á uppreisnum, byltingum og borgarastyrjöldum. Hjer hefir mjög verið rætt um böl það, er leiddi af verkföllum. En órói verkalýðsins er þó ekki einungis af hinu illa. Samtök verkamanna hafa ekki eingöngu boðað þjóðfjelögmn hættu, tjón og tap. Með samtökum og kaupkröfum hafa verkamenn hækkað sinn „standard of life“, bætt lífskjörin og aukið menningu sína. Það eru samtökin og þar af leiðandi bætt lífskjör, sem hafa gert „hinn heilaga“ Marx að falsspámanni um þá höfuðkenning sína, að gjáin milli verkamanna og atvinnurekenda yrði stöðugt breiðari og breiðari, verkamenn sykkju dýpra og dýpra í örbirgð, en auðurinn hlæðist upp hinum megin, uns öllu lenti saman í blóðugri byltingu, Ragnarökum hins núverandi skipulags og forboða hins komandi ríkis. Þeir, er barist hafa fyrir bættum kjörum verkalýðsins hafa gert mest til að koma í veg fyrir, að þessi spádómur Marx rætist. Með baráttu sinni hafa þeir hafið nokkurn hluta verkalýðsins upp í millistjettina og ýta þangað stöðugt fleirum og fleirum. Með bættum lífsskilyrðum dregur úr byltingahug. Þó verkföllin hafi sína svörtu hlið, þó tapið, sem af þeim leiðir, verði talið í miljónum kr., þá er ekki rjettmætt að geta að engu þeirra gæða, sem barist er fyrir. Þau eru barátta verkalýðsins til betri lífsskilyrða.

Menn þrá vinnufrið, sumir svo mjög, að þeir kalla alt frið, ef ekki eru verkföll, hvað sem býr í djúpunum undir hinu sljetta yfirborði. Þeir mundu sætta sig við slíkan frið, sem nú ríkir á Rússlandi og Ítalíu. Þeir eru ekki svo fáir, sem þrá frið Stalíns eða Mussolínis. En slíkan frið er úti um þá og þegar. Þar þarf ekki nema kúlu gegnum höfuðið á einum einasta manni, til þess að alt fari í uppnám. Nei, slíkt er ekki varanlegur friður. Vilji menn frið, þá dugir ekki að biðja um hann með hvaða mót sem er. Það er ekki hægt að skapa hann með dómstólum og lögregluvaldi. Það verður að grafast fyrir rætur óánægjunnar, ef friður á að koma í hennar stað og velþóknun. Ef deilurnar eiga rót sína í skipulagi stórrekstrarins, þá fæst ekki varanlegur friður nema með breyttu skipulagi. En slíkri breytingu verður ekki komið á með einni þingsamþykt, frekar en vinnufriður er trygður með því að samþykkja lög um nauðungardóm. Slík breyting hlýtur að taka langan tíma. Sú breyting, sem kemur, er það, að fjármagnið verður ekki eins einvalt yfir arði eða stjórn fyrirtækjanna og verið hefir. Það er áreiðanlegt, að þessi breyting verður. Það er áreiðanlegt, að hið lifandi starf, vinnan, fær sinn arðsrjett og yfirráða fyr eða síðar við hlið hins dauða starfs, fjármagnsins. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þá þróun. En hún færi í sömu átt og sú þróun, er þjóðskipulagið hefir þegar tekið. Þar hefir verið horfið frá einveldi og að lýðræði. Eins fer það með stórreksturinn. Einveldi fjárins hverfur fyrir lýðræðinu á hvern veg sem því verður svo fyrir komið. Arðinum verður meir skift milli allra þeirra, er að framleiðslunni vinna, en áður. Þar er framtíðin, og verða þá úrskurðir í kaupdeilum auðveldir samanborið við það, sem nú er.

Jeg skal nú ekki fara lengra út í þetta að sinni, því menn kunna að segja, að jeg fari langt frá aðalefninu, og geti enda ekki á þennan hátt leyst þann vanda, er hjer liggur fyrir. Jeg hefi heldur ekki ætlað mjer þá dul, að jeg gæti með almennum hugleiðingum valdið neinni varanlegri breytingu, er dregið gæti úr verkfalli og verkbönnum á næstu árum. Hitt var tilgangur minn, að benda á, að það er að svo stöddu vonlaust um aðra úrlausn á deilunum milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda en þá, sem hingað til hefir tíðkast: frjálst samkomulag, meðan hagsmunir eiga ekki meiri samleið en raun er á, með okkar skipulagi. Það er alkunn regla, að ekki er hægt að hjálpa mönnum umfram það, er þeir sjálfir vilja, og er þess því eigi að vænta, að fullkominn friður fáist nema með betra skipulagi, hvernig svo sem það verður.

Jeg veit, að hv. þm. Borgf. (PO) mælti af heilum hug, er hann óskaði eftir bróðurlegri úrlausn deilumálanna, en bróðurlegrar lausnar er þá fyrst að vænta, þegar sjálft skipulagið er orðið bróðurlegt.