10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Frsm. 3. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg þarf varla að lýsa því, að jeg er á móti frv. þessu, og get jeg sagt það sama fyrir hönd Alþýðuflokksins og verkalýðssamtakanna yfirleitt. Meðal verkalýðsins er það skoðað sem hin grimmilegasta og fjandsamlegasta árás á hann, sem gerð hefir verið síðan ríkislögregluna leið. Það er skoðun verkalýðsins, að meðan hann þarf að selja vinnu sína á markaði hinnar frjálsu samkepni, þá hafi hann rjett til að setja verð á vinnu sina og neyta samtaka til að stöðva vinnu, neita að leggja fram vinnuafl sitt, ef hann álítur, að hann fái ekki rjett verð fyrir hana. Með frv. er þessi rjettur tekinn af verkalýðnum og hann fenginn öðrum í hendur.

Hv. frsm. (MG) sagði, að það væri ekki óeðlilegt að fá dómstólum rjett til að setja niður vinnudeilur eins og aðrar deilur manna milli og þjóða. En þar við er þess að gæta, að þótt slíkur dómur væri skipaður mönnum, sem hefðu fullan hug á að sýna alla sanngirni og rjettlæti, þá hlýtur verkalýðurinn að skoða meiri hluta dómsins, eins og honum er fyrir komið, skipaðan af annari stjett og því óhjákvæmilega sjer mótsnúinn. Í öðru lagi hljóta verkamenn að sjá muninn á þessum dómstól og öðrum, hvort heldur sem þeir eiga að dæma milli einstakra manna eða þjóða. Venjulegir dómstólar hafa eftir settum lögum að fara, en þessi á sjálfur að setja sjer lögin um leið og hann dæmir. Honum er bókstaflega fengið í hendur ekki einungis dómsvald, heldur einnig löggjafarvald. Það er eðlilegt, að verkamenn vilji ekki fela þessum mönnum að lögákveða, hvaða kjör þeir eigi við að búa, sjerstaklega þegar tillit er tekið til þess, að verkalýðurinn er sú stjett, er verst stendur á fyrir, sú stjett, er ríður á að fá sem mest af rjettmætum kröfum sínum framgengt.

Nú er svo komið, að útlitið fyrir að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, er ekki mikið í bili, enda hygg jeg að stuðningsmenn þess hafi ekki mikla trú á því. Það er og skiljanlegt, að það er erfitt fyrir andstæðinga einnar stjettar að skapa löggjöf fyrir hana gegn vilja hennar, en á því tel jeg ekki vafa, að verkalýðurinn er andvígur frv. þessu, hvar á landinu sem er.

Jeg vil ekki að sinni fara nánar út í einstök atriði. Jeg skal játa, að æskilegt væri, að löggjöfin hefði afskifti af þessum málum á ýmsan hátt, frekar en nú er. En jeg verð að leggja áherslu á, að slík löggjöf verður að vera sprottin af samkomulagi aðilja, en ekki þvingunarráðstöfun af hálfu annars aðiljans á hendur hinum. En þetta frv. er beinlínis flutt af hálfu stórútgerðarinnar hjer í bæ, eftir sjómannaverkfallið síðasta, til þess að binda hendur og fætur verkalýðsins á sjó og landi, svo að stórútgerðarmenn geti einir ráðið verði vinnunnar.

Legg jeg til að það verði felt.