10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í C-deild Alþingistíðinda. (2933)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Haraldur Guðmundsson:

Því verður ekki neitað, að formælendur þessa máls fara öllu hóflegar í sakirnar nú en þeir gerðu við 1. umr. Er það vel, því að batnandi manni er best að lifa.

Hv. 1. flm. (JÓl) hóf mál sitt á því að viðurkenna, að ekki væri víst, að farið væri inn á alveg örugga leið með frv. Þetta er meiri hófsemi en gætti í ræðum hans við 1. umr. Bæði hann og aðrir gortuðu af því, að hjer hefðu þeir fundið örugga leið, til þess að tryggja vinnufriðinn í landinu og fyrirbyggja verkföll og verkbönn. Við jafnaðarmenn höfum áður sýnt fram á, að frv. mundi gera hið gagnstæða og verða orsök þess, að vinnudeilur yrðu enn harðari og óvægilegri en nú.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) er ekki búinn að fá sjónina til hlítar enn þá, og heldur því enn fram, að frv. sje örugt til þess að fyrirbyggja verkbönn og verkföll. Hann segist að minsta kosti trúa þessu enn þá, hvort sem hann gerir það eða ekki. Þó heldur hann því fram, að tilgangur frv. sje alls ekki að banna verkföll eða ganga hið minsta á rjett verkamanna til að neyta samtaka sinna. Jeg vil nú fyrst athuga, hvort þessi staðhæfing hv. þm. er rjett. Nú er alment viðurkendur sá rjettur manna að verðleggja vinnu sína og reyna að fá sem mest fyrir hana. En frv. sviftir verkamenn þessum rjetti. Það hefir og hingað til verið skýlaus rjettur verkamanna, að mega bindast fjelagsböndum og neita að vinna, ef þeim ekki líkar kaup eða kjör. Með frv. er þessi rjettur af þeim tekinn. Flm. segja að vísu, að hver einstakur maður megi neita að vinna eftir sem áður. En fjelagsheildin má ekki gera neinar ráðstafanir um það, svo sem verkfall. Þess vegna er þessi rjettur verkamanna að engu gerður, ef frv. verður að lögum. (LH: Rjettur forkólfanna til að kúga verkamenn. — ÓTh: Og halda uppi æsingum). Jæja, er það þá komið þarna alt saman: Frv. skerðir rjett forkólfanna til að kúga verkamennina og halda uppi æsingum. Jeg efast um að hv. þm. V.-Sk. (LH) viti hvað hann segir, en hv. 2. þm. G.-K. veit það, að engin verkföll eru ákveðin nema meiri hluti verkamanna greiði atkvæði með því á almennum fundi. Og hvernig ættum t. d. við hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) að kúga mörg hundruð sjómanna til að gera það, sem þeir ekki vilja?

Þá er að athuga, hvernig lánast muni að tryggja vinnufriðinn eftir skilgreiningu þessara manna á frv. Þeir segja, að dómur eigi að ganga, en enginn sje skyldugur að fara eftir honum, hvorki verkamenn nje atvinnurekendur. Hvernig er þá vinnufriðurinn trygður? Ef útgerðarmenn vilja ekki gera út og verkamenn ekki vinna. — Hvað þá? Hvað er þá unnið? Vinnustöðvunin helst, deilurnar halda áfram. Hvar er þá „vinnufriðurinn“ ? Ef aðeins það er tilgangurinn, að fá óvilhalla menn til að láta uppi álit um kaupgjaldið, þá duga sáttasemjaralögin eins og þau eru nú. (ÓTh: Þetta er óvenjulega grautarleg hugsun hjá hv. þm.). Ef svo er, þá er það frv. að kenna og skýringum hv. þm. á því, en ekki mjer.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að frv. yrði til að kveða niður tálvonir manna um gróða af verkföllum eða verkbönnum. Hann sagði sem svo: Lítið á úrslitin í vetur, þegar hæstv. forsrh. (TrÞ) sló í borðið og sagðist nú koma fram með sína síðustu sáttatilraun. Þá hækkuðu útgerðarmenn strax tilboð sitt um 17% og verkamenn lækkuðu sig úr 50% niður í 17% hækkun. En hv. þm. gleymdist að geta, hvað fylgdi með í þessum kaupum: að útgerðarmönnum var gefinn eftir skattaukinn, sem alls mun nema á landinu upp undir 400 þús. kr., til þess að fá þá til að leysa skipin og vera svo væna að ljetta verkbanninu af. Hitt er vitanlegt, að sjómenn voru fyrir löngu síðan fúsir til að semja um sömu kjör og samið var um á línuskipunum, 17% hækkun, og að því hefðu þeir gengið strax, ef útgerðarmenn hefðu boðið það. Þá hefði engin vinnustöðvun orðið. Það var því alls ekki vegna þess, að hæstv. forsrh. kvaðst segja sitt síðasta orð, að sættin tókst, heldur af því, að ný atriði voru komin inn í málið, loforð um fjegjafir til útgerðarmanna.

Jeg vil að lokum víkja lítið eitt að ræðu hv. 1. þm. Árn. (JörB), af því að hann hefir ekki talað fyr í málinu, þó að hann sje flm. frv. Hann sagði eitthvað á þá leið, að ef hann hefði vitað fyrirfram, að verkamenn litu með svo miklum ugg og andúð á frv. sem raun er nú á orðin, þá hefði hann ekki flutt það. Mjer þykir vænt um að hv. þm. skuli hafa sjeð það, sem samherjar hans í málinu hafa ekki sjeð, að lög sem þessi eru með öllu óframkvæmanleg og til ills eins ef annar aðili telur þau ranglát í sinn garð. Þetta hefði hv. 1. þm. Árn. raunar átt að vita fyrirfram. Hann hafði sjerstaka aðstöðu til þess vegna fortíðar sinnar.

Hinsvegar sagði hv. þm., að gott hefði verið að hreyfa málinu til þess að kynnast hugum manna til þess. Mjer skildist niðurstaða ræð — hans vera sú, að gott hefði verið að hreyfa málinu — en að ilt og óviturlegt hefði verið að samþ. frumvarpið.

Það er gott að hv. 1. þm. Árn. hefir öðlast þessa þekkingu við þær undirtektir sem málið hefir fengið hjer. Öllum þm. ætti að vera það ljóst, að slík mál sem þessi verða aldrei til lykta leidd með valdboði. Það er ekki nema ein leið út úr ógöngunum og hún er sú, að þeir menn, sem vinna að framleiðslunni, sem nota framleiðslutækin og eiga afkomu sína undir rekstri atvinnufyrirtækjanna, sjeu jafnframt umráðamenn og stjórnendur fyrirtækjanna ásamt með mönnum, sem þar eiga að gæta hagsmuna alþjóðar. (LH: Vilja ekki jafnaðarmenn þetta?) Hv. þm. V.-Sk. ætti að læra betur, úr því að hann veit ekki að þetta er stefna jafnaðarmanna. (LH: Þið ættuð að reyna að leggja í einn togara). Vill þm. útvega fjeð t. d. 30 sjómönnum ca. 300 þús. kr.? Og loks þetta: Einn af stuðningsmönnum frv. hefir lýst yfir, að ekki ynnist tími til að koma málinu fram og virtist ekkert óánægður með það — og einn flm. frv. hefir óskað eftir að það yrði felt. Með þau úrslit get jeg verið ánægður.