10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í C-deild Alþingistíðinda. (2941)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. Árn. (JörB) hefir komið með ávítur í garð okkar jafnaðarmanna fyrir að hafa ekki komið fram með till., er leyst gætu þetta vandræðamál á einhvern veg. Þessum ávítum hv. þm. vil jeg svara með því að geta þess, að þegar meiri hl. allshn. ljet bóka það, að hann væri á móti málinu eins og það lægi fyrir, vissi jeg ekki betur, en að það yrði síðan rætt innan meiri hl., á hvern hátt ætti að afgreiða málið.

Ennfremur vissi jeg, að hv. frsm. ætlaði að koma fram með breytingar á sáttasemjaralögunum, og bjóst jeg við, að jeg myndi fá að eiga einhvern þátt í þeim breytingum. Svo varð þó ekki.

Alt í einu kom nál. og frv. fram, án þess að að jeg vissi og átti jeg því engan hlut þar að máli og svo áliðið þings, að erfitt var fyrir mig að fara að undirbúa nýjar tillögur, þótt jeg hefði viljað það.

Hv. þm. Borgf. (PO) hjelt langa raunarollu yfir þessu máli og meðferð þess. Jeg álít, að þetta mál hefði átt að fella strax við 1. umr., og það hefði helst aldrei átt inn í þingið að koma.

Skil jeg ekki, hversvegna því er haldið fram, að verið sje að tefja málið, þegar allir sjá, að það nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Þetta mál verður væntanlega á sínum tíma kosningamál og væri rjett að leyfa íhaldsflokknum að finna vinsældir þess hjá verkalýð landsins á kjördegi. Á þingmálafundunum er hægt að ræða þetta mál, og við jafnaðarmenn munum ganga ótrauðir til þeirra funda. — Menn af báðum flokkum hafa talað um það, að með þessu væri verið að leysa andstæðurnar milli verkamanna annarsvegar og vinnuveitenda hinsvegar. — Jeg held, að þetta stafi af því, að þessir hv. þm. skilji ekki hvernig þessar andstæður eru. Það er ekki eðlilegt, að verkamenn vilji viðurkenna, að þeir eigi altaf að vera þjónar atvinnurekenda. Þeir vilja verða frjálsir menn í sínu atvinnulífi. (LH: Hver bannar þeim það?) — Það veit hv. þm. vel, að þegar afl þeirra hluta, er gera skal, framleiðslutækin, eru í höndum hins aðiljans, er það ekki hægt. Og því verður þessi deila ekki leyst nema með breyttu skipulagi. En frekari kúgun með löggjöf, svo sem vinnudómi þessum, bætir ekki þar um.

Jeg veit, að ef frv. þetta yrði samþ., yrði það til þess að vekja verkalýðinn á Íslandi til að hefjast handa, og það stríð gæti orðið til mikils góðs. Þrátt fyrir það óska jeg ekki eftir, að það verði samþ., því að friðsamleg endurbót kjara verkalýðsins er æskilegri, ef hún fæst á annað borð.

Fyrir því get jeg vel fallist á þá till., að vísa málinu til stjórnarinnar, — því að jeg álít að „öxin og jörðin geymi það best“.