04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

52. mál, útsvör

Pjetur Ottesen:

Það er einungis örstutt athugasemd við ræðu hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann kvað það, er jeg sagði um útsvarsálagningar Siglfirðinga, órökstutt. En þar gerist hv. þm. nokkuð gleyminn. Við ræddum nokkuð um málið hjer á þingi 1926. Þær umr. skal jeg ekki taka upp nú, en vil vísa hv. þm. í umræðupart Alþingistíðindanna frá því ári og til nánari leiðbeiningar á bls. 2303. En því skal jeg bæta við, að hv. 2. þm. Skagf. (JS) skaut því að mjer áðan, að hann vissi dæmi til þess, að Skagfirðingar, er atvinnu hafi stundað á Siglufirði, hafi verið þar svo þunglega skattlagðir, að heimasveitin hafi ei sjeð sjer fært að leggja á þá einn einasta eyri, því að gjaldþol þeirra hafði verið gjörsamlega úttæmt og útaugað af Siglfirðingum.