11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

59. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Flm. (Magnús Torfason):

Þetta frv. er sama efnis og það, sem flutt var á síðasta þingi í þessari háttv. deild. Þá komst það til nefndar og var samþykt út úr deildinni. En því miður komst inn í það, samkvæmt brtt. þingmanna, ákvæði um það, að draga mjög verulega úr því, sem ríkið samkvæmt frv. átti að leggja til ófriðunar selsins. Nú hefir þetta mál verið rætt í vetur heima í hjeraði, og mjer er óhætt að segja, að það sje einróma álit þeirra, sem þar eiga hlut að máli, að eins og lögin komu frá þinginu, sje ekki við þeim lítandi. Eftir lögunum verður það aðeins ein jörð, Hraun í Ölfusi, sem fær bætur svo um munar, og þó svo litlar, að ekki er hægt að hugsa sjer, að þær fari fram úr 300 kr. á ári, nú sem stendur, en mundu fara þverrandi; því að í landi þessarar jarðar er í ráði að setja niður laxveiðivjelar. Eigendur Hrauns hafa í sumar samið við menn um stundarsakir, að leigja þeim veiðirjett með slíkum vjelum.

Jeg býst nú við, eftir því sem fram kom í fyrra, að menn hafi svo glöggan skilning á því, hverja þýðingu það hefir að bæta og auka laxveiðina í landinu, að þeir láti eigi smámuni standa fyrir framkvæmdum í þá átt. Og því fremur vona jeg, að þingmenn bregðist vel við þessu frv., sem með því er verið að afmá blett af íslenskri löggjöf. Það er óneitanlega blettur á löggjöfinni, að í einni af stórám landsins, sem er full af laxi, skuli selur vera friðhelgur, þessi ránsskepna; og það jafnvel í þarfir heilagrar kirkju, eins og var í fyrri daga.

Síðan landið eignaðist jörðina hefir selveiðin verið metin, segi og skrifa 50 kr. á ári upp í heimatekjur prestsins. Núverandi prestur, sá góði maður, er nú kominn á sjötugs aldur. Og með því að brauðið er sjerlega erfitt, þar sem hann gegnir líka Selvogsprestakalli — en þangað er sex tíma ferð — þá er varla hægt að búast við, að hann gegni embættinu nema örfá ár eftir þetta. Það getur því ekki kostað landið mikið, að bæta honum upp þennan litla tekjumissi. En jeg veit, að ríkið muni beint og óbeint skera upp arð af þessum ráðstöfunum. Og þar sem virðing löggjafarinnar liggur við, býst jeg við að háttv. deild sjái sóma sinn í því að afmá þennan blett fyrir 1930. Að endingu vil jeg óska þess, þar sem selurinn er lagardýr, og sjór gengur alla leið upp að Arnarbæli, að frv. þessu verði, að lokinni umræðu, vísað til háttv. sjútvn. (PO: Þetta mál var í landbn. í fyrra, og sting jeg upp á, að því sje einnig nú vísað til þeirrar nefndar.)