22.02.1929
Neðri deild: 5. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Halldór Stefánsson:

Jeg vil lýsa mikilli ánægju minni yfir því, að frv. þetta er fram komið, og þeirri stefnu, sem í því felst, að aðskilja landbúnaðarlánin frá hinni almennu útlánsstarfsemi. Er það af sömu ástæðum og hæstv. fors.- og atvmrh. hefir nú lýst. Eins og kunnugt er, þá hefir landbúnaðurinn orðið mjög útundan með aðgang að lánsfje, sem hann þó hefir vanhagað um. Fjármagninu hefir að mestu verið beitt til framfara á öðrum sviðum, sem hafa svo dregið til sín vinnukraftinn frá sveitunum og því verið beitt óbeint á móti landbúnaðinum. Ennfremur er jeg ánægður með það, hve frv. þetta er víðsýnt, þar sem það felur í sjer allar þær tegundir lána, sem um getur verið að ræða.

Þrátt fyrir ánægju mína með frv. vildi jeg þó gera við það nokkrar almennar aths. áður en því verður vísað til nefndar. Að vísu hefir komið fram till. um að vísa því til nefndar, sem jeg á sæti í, og hefði jeg þá getað sparað mjer aths. nú, en þar sem óvíst er um það, þykir mjer rjett að fara nokkrum almennum orðum um frv.

Jeg vil þá fyrst minnast á nafn bankans á erlendum tungum. Mjer virðist það nokkuð langt og óþægilegt. Jeg býst nú við, að nafnið sje þannig valið með það fyrir augum að afla bankanum trausts erlendis með því í sambandi við lántöku eða sölu bankavaxtabrjefa. En slíkt ætti að vera óþarfi. Þeir útlendingar, sem hygðust að eiga viðskifti við bankann, myndu vafalaust kynna sjer lög hans, og þá fá þeir í 3. og 4. gr. þeirra fulla vitneskju um það, sem fyrirsögnin á að gefa til kynna.

Bankanum er ætlað að starfa í 5 deildum, og er hin fyrstnefnda sparisjóðs- og rekstrarlánadeild. Eitt af hlutverkum þeirrar deildar er svo það, að lána sparisjóðum og fleiri stofnunum fje, sem þær stofnanir eru svo aftur skyldar að lána rekstrarlánafjelögum eingöngu. Mjer er það ekki ljóst, hvers vegna nauðsynlegt sje að hafa þarna nokkra milliliði. Sparisjóðir og aðrar stofnanir, sem það hefðu með höndum, mundu eflaust þurfa að fá eitthvað fyrir sína milligöngu, svo það mundi vafalaust gera lánin dýrari. Álit mitt er það, að þær umboðsskrifstofur, sem um er getið í 65. gr. frv., mundu duga í þessu efni.

Þá er það að mínu áliti athugunarvert, hvort ekki er fullstutt gengið í því, að áskilja, að aðeins 10% af sparisjóðsfjenu skuli vera í tryggum og auðseldum verðbrjefum. Jeg held, að þá hlutfallstölu mætti að skaðlausu fyrir bankann ákveða hærri, því eflaust mundi jafnan meira en 10% af sparifjenu standa óhreyfanlegt sem fast starfsfje bankans. En tryggingin fyrir sparifjáreigendur þeim mun meiri, sem þessi hlutfallstala væri ákveðin hærri. Þá vil jeg loks minnast á það, að með 11. gr. frv. er stjórninni heimilað að ábyrgjast fyrir ríkisins hönd, ef þörf krefur, 3 milj. kr. lán fyrir bankann, vegna. rekstrarlánanna. Það má nú vera, að þörf geti orðið á þessu, en hitt álít jeg ekki jafnnauðsynlegt, að veita þessa heimild fyrirfram. Jeg hygg, að slík þörf verði aldrei svo aðkallandi, þar sem þing er haldið árlega, áð ekki sje nógur tími til að leita þingsins um ábyrgð þessa, þegar þörfin kallar að. Mjer finst óþarft að veita slíkt umboð fyrirfram.

Þessar aths., sem jeg hefi gert vegna væntanl. nefndar, læt jeg svo nægja.