27.03.1929
Neðri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í C-deild Alþingistíðinda. (3069)

65. mál, myntlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er óþarfi fyrir mig að segja margt. Hv. þm. eru hættir að hlusta á þessar umr. Jeg get því eins vísað þeim, sem lesa um mál þetta í Alþt. á sínum tíma, til þess, er jeg hefi áður sagt. Jeg vil þó minna hv. þm. Ísaf. á það, vegna ummæla hans um að kaupgjald færist seinna niður en vöruverð, að það fer þó eftir því, hvort geta er til að kaupa vinnuna. — Þetta, um verðmæti vinnu, sem enginn kaupandi er að, minti mig á málverkasafn, sem var virt á 60 þús. kr. En málarinn varð þó að „slá“ mann, er skoðaði safnið, um „5-kall“. Það er ekki nóg, að kaupgjaldið sje hátt, ef enginn kaupandi fæst að vinnu verkamanna, eins og að jafnaði hendir á hækkunartímum. Og mig skyldi ekki undra, ef hækkað verður gengið, þótt hv. þm. Ísaf. ætti eftir að koma hjer fram fyrir Alþingi og biðja um sinn „5-kall“, sínar 100 eða 500 þús. kr., til að ráða bót á hörmung atvinnuleysisins.

Hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Skagf. komu með fyrirspurnir um það, hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar um erlendar lánsheimildir, sem þeir töldu nauðsynlegar, ef gengið verður fest. — Mín skoðun er sú, að til þess að festa gengið þurfi ekki að gera fyllri ráðstafanir um inneignir erlendis en þjóðbankanum er skylt að gera á hverjum tíma án afskifta þingsins. Og mjer er kunnugt um það, að Landsbankinn telur lánstraust sitt svo traust, að hann geti gripið til þess á hverjum tíma, ef á liggur. — En ef hv. þm. teldu samt þörf á því, að þingið veitti Landsbankanum nýja heimild til þessa, þá er altaf hægt að koma henni inn í sambandi við fjárlögin. Það skaðar þá ekkert, þótt það verði ónotað. En jeg held að þess þurfi ekki.

— Aðalatriðið er það, að nú er gott árferði, innieignir og lánstraust erlendis. Þegar fest er, verður það höfuðatriðið að halda verðlaginu hjer í jafnvægi við verðlag í öðrum löndum. Og undir því, hvernig það tekst, fer um öryggi gengisins. Það er útlánspólitík bankanna og verðlagsjafnvægið, sem varðveitir hið raunverulega gengi.

Hv. þm. Ísaf. talaði með tæpitungu um kaupmáttarjafngengið, eins og einhvern dularfullan hlut, enda mun honum það lögmál jafnskiljanlegt og sjálft gengismálið. Þá vildi hv. þm. Ísaf. rota mig með því að minnast á Rúmeníu. Jeg þarf varla að svara því. Rúmenía hefir verið alt öðruvísi stödd en Ísland. Greiðslujöfnuður hefir verið mjög óhagstæður þar, mismunur um 2 milj. £ á ári og farið versnandi. Og hvar sem þeir hafa leitað eftir lánum, þá hefir þeim verið hent á, að þeir yrðu fyrst að verðfesta þjóðarbúskapinn. Og eftir því, hvernig þeim tækist það, mundu lánskjörin fara. Þeirra ástæður hafa verið aðrar og erfiðari en annara þjóða og því ekki sambærilegt. Gamanmyndablöð álfunnar hafa líka verið full af myndum af sendimönnum Rúmena, sem hafa verið að leita eftir lánum við hin ólíklegustu tækifæri. Þetta kemur ekki öðrum við en þeim, sem halda, að hjer þurfi alt að gera, sem þarf að gera einhversstaðar annarsstaðar, eða að hjer eigi alt hið sama við og annarsstaðar. Það klingir altaf við, að einhver hafi gert þetta, eða að einhver hafi haldið þetta o. s. frv., þótt það komi okkur ekki hið minsta við vegna breyttra ástæðna. Jeg hefi sannarlega ekki gert of mikið úr örðugleikum þeim, sem fylgja hækkuninni. Jeg þarf ekki annað en benda hv. þm. Ísaf. á eitt fyrirtæki, sem sett var af stað með hjálp þingsins í fyrra, Samvinnufjelag Ísfirðinga. Ef hækkað væri gengið, eins og hv. þm. Ísaf. vill, þá hækkuðu lán þess fjelags um 1/5, og það ætti einnig á hættu að fá 1/5, minni arð en sem svarar framleiðslukostnaði. Það fjelag yrði áreiðanlega hart úti. Jeg hefi sannarlega ekki gert of mikið úr erfiðleikunum. Jeg vil sjerstaklega benda á bændastjettina. Meðal búskaparaldur bænda mun vera undir 30 ár. Síðan ástand þetta hófst, eru nú liðin 15 ár. Hefir því helmingur bænda hafið búskap á þeim tíma. Eiga þeir siðferðilega kröfu á því, að verðfest sje.

Hjer er ekki um neitt stefnumál að ræða, að vilja altaf vera að lækka og verðfesta lægra og lægra, eins og hv. 1. þm. Reykv. virtist gefa í skyn. Hann hjelt því fram, að hjer væri ný stefna að gægjast fram, og ef hún sigraði, þá mætti búast við því, að stýft yrði 5.–10. hvert ár úr því. En þetta er vitanlega fjarstæða og ekki frekar hægt að segja það en t. d. að hægt væri að segja um þingmann, að ef hann opnaði munninn til að tala, þá gæti hann ekki lokað honum aftur. Hefði sú fullyrðing þó meira til síns máls miðað við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál.

Jeg vil enda þessi orð mín — og væntanlega þessa umr. — með þakklæti til hv. 1. þm. Skagf. fyrir framkomu hans í þessu máli. Jeg hefi skilið hann svo, að hann væri ekki mótfallinn því, að verðfesta núverandi gjaldeyri og verðlag, og það er aðalatriðið. Jeg er ekki svo fælinn, að jeg firtist við það, sem kalla má hjegóma í þessu máli. Það er máske vorkunnarmál, þótt sumir óski eftir að fá þá gömlu krónu aftur, þó verðfest yrði. Það er líkt og þegar Njáll breiddi slæðurnar yfir gullið á Alþingi.

Nú hefst nýr þáttur í þessu máli, þar sem farið verður að yfirvega það í n. og koma þá til álita þær leiðir, sem sigurvænlegastar teljast. Skal málið ekki af mínum völdum stranda á aukaatriðum.