14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

68. mál, háskólakennarar

Flm. (Magnús Jónsson):

Mál þetta er svo einfalt, að allir hljóta að sjá við hvað er átt, er því ekki þörf á að hafa langa framsögu fyrir því. Dócentsembættin öll við háskólann hjer eru þannig, að þeir sem í þeim eru, verða að hafa eins mikla kenslu á hendi og sumir alveg samskonar kenslu og prófessorarnir. Starfið er því hið sama, en laun dócentanna eru minni. Nú er ekki farið fram á að breyta dócentsembættunum í prófessorsembætti, heldur er hjer farið fram á að dócentar fái sömu rjettindi og prófessorar, þegar þeir hafa náð lágmarkslaunum þeirra, eða eftir 6 ára starf. Er þetta mjög svipað fyrirkomulag eins og við mentaskólann, þar sem adjunktar verða yfirkennarar á ákveðnum árafresti. Jeg býst nú við, að allir hv. þm. sjeu mjer samdóma um það, að hjer sje um rjettlætiskröfu að ræða. En það, sem þá er um að gera, er það, hvort hv. þingmenn láta sjer vaxa í augum þann litla kostnað, sem breyting þessi kann að hafa í för með sjer fyrir ríkissjóð. Því að þess ber líka að gæta, að venjulega komast menn ekki að háskólakennaraembættum fyr en þeir eru orðnir nokkuð fullorðnir. Getur því tæplega orðið um langan tíma að ræða, sem dócentarnir væru í hærra embætti sökum þessarar breytingar. Til þess að vinna nokkuð upp af þeim kostnaðarauka, sem af þessu kynni að leiða, vil jeg benda á, án þess þó að jeg vilji nokkuð til þess hvetja, að breyta mætti til í lagadeildinni, taka þar upp eitt dócentsembætti í stað eins prófessorsembættisins, sem nú er. Umsókn þessi kom frá dócentunum í fyrra, en var þá ekki borin upp í þinginu sökum þess, að þá var í einu þessu embætti maður, sem ekki var í náðinni hjá núverandi stjórn, en nú er honum vikið burtu um stundarsakir að minsta kosti, og þessvegna er málinu nú hleypt inn í þingið.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar, en óska að málinu verði vísað til fjhn.umr. lokinni.