09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

95. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 2. þm. Árn. var rjett í þessu að gera grein fyrir fyrirvara sínum, sem jeg ekki vissi hver var. — Mjer þótti vænt um að heyra það, að hv. þm. er það ljóst, að ríkisstj. beri að leggja fram fje til að byggja hafnargarðana í Vestmannaeyjum; vitaskuld hefir hv. þm. sjálfsagt meint, að ríkið leggi fram nokkurn hluta þess fjár, því að vitanlega dettur Vestmannaeyingum aldrei í hug að fara fram á meira. En það er hvorttveggja, að verkið er erfitt og gengur erfiðlega, en eins og hv. þm. mun vera ljóst, þá er því nú samt sem áður svo langt komið, að það er ekki skynsamlegt, hvorki fyrir Vestmannaeyinga nje landsstj. að hætta við það fyr en fullgert er, enda knýjandi nauðsyn á því fyrir Vestmannaeyjar.

Þá fanst mjer hv. 2. þm. Árn. vilja koma að einhverri aths. um það, að ríkissjóði bæri ekki að leggja neinn styrk til mannvirkja innan hafnarinnar. — Hjer er náttúrlega ekki farið fram á svo stórt atriði í þessu máli, að það taki að hefja neinar deilur um það við hv. 2. þm. Árn., því að mannvirki innan hafnarinnar eru nú komin svo stutt á veg, að það er mikið eftir að tala um þau hvað Vestmannaeyinga sjálfa áhrærir. En mjer kemur það kynlega fyrir, ef þessi landssjóðsjörð verður skoðuð svo af Alþingi, að það sje ekki rjettmæt sanngirniskrafa til ríkissjóðsins að leggja nokkuð til þessara mannvirkja, þótt innan hafnarinnar sjeu. Mjer virtist skoðun hv. 2. þm. Árn. brjóta þar í bág bæði við þá reglu, sem gilt hefir um afstöðu ríkissjóðs til sjerstakra ríkiseigna, og ennfremur veit jeg það, að hún brýtur í bág við hugsun þeirra manna, sem sjerstaklega hafa viljað halda í eignarrjett ríkisins á Vestmannaeyjajörðum, og hygg jeg, að hv. 2. þm. Árn. hafi einmitt ljeð því lið á Alþingi, að haldið væri allfast af ríkisins hálfu í þann eignarrjett. Jeg get vel skilið aðstöðu þeirra til málsins, sem segja sem svo: Við viljum ekki að ríkið selji Vestmannaeyjar, vegna þess að það er tryggara að ríkið sje eigandinn, en við viljum styðja að því að gera þessa eign arðberandi fyrir ríkið og hjálpa íbúunum til að bæta lífskjör sín með bættri aðstöðu fyrir atvinnuvegina. Þessa aðstöðu get jeg skilið, en illa þá skoðun, sem virtist koma fram hjá hv. 2. þm. Árn. Hv. þm. hjálpaði með nokkurri harðdrægni á sínum tíma til þess að ríkið kipti algerlega að sjer hendinni með það, að Vestmannaeyjabær fengi að kaupa það land, sem bærinn stendur á, en vekur nú máls á því hjer í deildinni, að sjer virðist ekki landeiganda bera nein skylda til þess að bæta mannvirki innan Vestmannaeyjahafnar. Jeg á, segi jeg, ilt með að skilja þessa aðstöðu, og býst ekki við, að margir hv. þdm. taki hlutdeild í þeim skilningi hv. 2. þm. Árn. í þessu máli. Vitaskuld er það, að hjer er ekki farið fram á nema styrk í þessu efni; meiri hluta kostnaðar leggur að sjálfsögðu Vestmannaeyjabær á sig, og finst mjer ekki þörf fyrir hv. þm. (MT) að hafa mikinn fyrirvara við það, sem hjer er farið fram á. Hitt má öllum vera vitanlegt, að nú er ástand hafnarinnar í Vestmannaeyjum þannig, að í nánustu framtíð verður að gera miklar umbætur innan hennar, ef ekki á að koma mikill afturkippur í alt framkvæmdalíf þar á staðnum.