08.04.1929
Neðri deild: 39. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í C-deild Alþingistíðinda. (3228)

113. mál, ábúðarlög

Haraldur Guðmundsson:

Í grg. frv. þessa verður ekki sjeð, hve mikið af bændum landsins eru leiguliðar. En jeg hygg, að þeir muni vera að tölunni til nálægt 40%. Jeg segi að tölunni til, því að sje miðað við jarðahundruð, þá mun tæplega svo mikið af jarðahundruðum landsins í leiguábúð, því að það eru venjulega minni jarðirnar, sem eru leigðar. Hve mikið af hinum leigðu jörðum er í eign einstakra manna og hve mikið er eign hins opinbera, veit jeg ekki með vissu; væri þó fróðlegt að hafa um það opinberar skýrslur. Það liggur í augum uppi, að hjer er um afar þýðingarmikið mál að ræða, þar sem hjer eiga hlut að máli um 2/5% hlutar af bændastjett landsins.

Í grg. frv. þessa er þess getið, að mþn. hafi sent út til sveitarstjórna landsins fyrirspurnir um ýmislegt snertandi ábúð jarða, og á svörum sveitarstjórnanna megi sjá:

1) Að ræktun á leigujörðum sje yfirleitt miklu lakari en á jörðum í sjálfsábúð.

2) Að byggingar, bæði íveruhúsa og peningshúsa sjeu miklu lakari á leigujörðum en á jörðum í sjálfsábúð, og að þær sjeu víða svo lítilfjörlegar, að heilbrigði manna sje stórkostleg hætta búin.

3) Að því styttri sem ábúðartími leiguliðans sje, í því verri rækt sje jörðin og því hrörlegri sjeu húsakynnin.

4) Að á þeim sárfáu jörðum víðsvegar um land, þar sem ábúð þeirra að einhverju leyti svipar til góðrar ábúðar á jörðum í sjálfsábúð, er það aðeins á þeim jörðum, sem eru í lífstíðarábúð, og þá frekast á kirkju- og þjóðjörðum.

5) Að á leigujörðum sje undantekningarlítið bygt úr óvaranlegu byggingarefni, sem alls ekki getur orðið til frambúðar.

Jeg dreg alls ekki í efa, að þetta sje rjett. En það sýnir einmitt, hve nauðsynlegt það er að taka mál þetta nú þegar til rækilegrar athugunar, því að þetta verður að teljast með öllu óhæfilegt ástand, að svona mikill hluti bændastjettarinnar búi við slík ófremdarkjör, sem að framan greinir, og hagnýting jarðanna sje svo ábótavant.

Að mínum dómi eru kjör leiguliðanna mjög hliðstæð kjörum verkamannanna. Eigendur framleiðslutækjanna, jarðanna eða skipanna og vjelanna, taka jafnan fyrst sinn hlut. Mig furðar því stórlega á, að þeir hv. þm., sem sjá rjett og nauðsyn leiguliðanna, skuli ekki einnig sjá hliðstæðan rjett annara manna. Leiguliðar taka kaup sitt í afrakstri jarðarinnar, eftir að þeir hafa greitt landsskuld og leigur. Því meira sem landsdrottinn, jarðeigandi, tekur, því minna verður eftir fyrir leiguliðann. Alveg á sama hátt er um kjör verkamanna, sem hagnýta framleiðslutæki önnur, svo sem skip og vjelar; því meira sem eigendur framleiðslutækjanna heimta í sinn hlut, því minna verður eftir sem laun til verkamannanna. Þeir, sem sjá rjett þörf leiguliða, ættu því síst að vera blindir fyrir þörf daglaunamannanna. Vona jeg, að það sýni sig við atkvgr. um frv. hv. 2. þm. Reykv. um styrk til byggingar verkamannabústaða í kaupstöðum landsins. Það, sem í grg. þessa frv. segir um híbýli og húsakynni leiguliða, á engu síður við, líklega fremur, um húsakynni verkamanna í kaupstöðum. Þau eru háskaleg heilbrigði þjóðarinnar, kynslóðarinnar, sem nú er að vaxa upp. Til þessa hefir meiri hl. af fje þjóðarinnar gengið til sjávarútvegsins og atvinnurekstrar í kaupstöðum. En nú er að verða breyt. á þessu. Nú liggur hjer t. d. fyrir þinginu frv. um Landbúnaðarbanka. Verði það að lögum, og ef sala vaxtabrjefa gengur sæmilega, á hann að geta veitt 50–60 milj. króna til landbúnaðarins á nokkrum næstu árum. Auk þessar eru geysiháar upphæðir veittar til landbúnaðarins í beinum styrkjum og óbeinum á ári hverju. Má þar fyrst nefna styrk eftir jarðræktarlögunum, sem veittur skal á hvert dagsverk og fyrir þau var greitt úr ríkissjóði samkv. Jarðræktarlögunum 350 þús. kr. sem beinn styrkur. Stj. hefir ætlað í fjárlagafrv. næsta árs gengið lengra en viðeigandi sje, og að hún hafi gerst djarftækari til eignar- og umráðarjettar en dæmi sjeu til áður í íslenskri löggjöf. (HK: Þetta er víst meint til mín). Þetta á nú raunar við bæði hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Barð. Báðir höfðu svipuð ummæli.

Jeg skal ekki fara út í nákvæman samanburð á ákvæðum íslenskrar ábúðarlöggjafar fyr og nú. En á það vil jeg benda, og biðja að því sje veitt athygli, að byltingahugur okkar í landbúnaðarnefndinni er ekki meiri en svo, að við höfum látið okkur nægja að hverfa aftur til þess skipulags, sem gilti hjer á landi alt frá því, er búnaðarlöggjöf var hjer fyrst sett, eða ef til vill öllu heldur frá því fyrsta að jarðir voru bygðar öðrum, og fram til ársins 1884. Þessi er þá byltingahugur mþn., að hún hverfur aftur til þess fyrirkomulags, er ríkti á þeim tímum, þegar mönnum var hugþekkast, að sem allra minst höft væru á frjálsræði einstaklingsins, og þegar eignarrjettarins var gætt miklu betur en nú á sjer stað.

En á þeim tímum, sem jeg nú hefi nefnt, ljetu menn sjer ant um landbúnaðinn og velferð hans umfram aðrar atvinnugreinir. Jeg býst við, að mjer verði svarað því, að löngu áður en núgildandi ábúðarlöggjöf var sett, árið 1884, hafi verið horfið frá hinum fyrri lagafyrirmælum. Þetta er rjett. En með hvaða hætti gerðist það? Hinn 29. nóv. 1622 gaf konungur út tilskipun um það, að skyldan til að halda við húsakynnum yfir fólk og áhöfn á leigujörðum skyldi eftirleiðis hvíla á ábúendunum. Þá átti konungur sjálfur verulegan hluta jarðeigna hjer á landi. Og með tilsk. færði hann af herðum sjer þá skyldu gagnvart viðhaldi og byggingu húsa á jörðunum, sem eigendur höfðu haft öldum saman. Breyt. hinna fornu laga er eiginhagsmunaviðleitni erlends valds, sem Íslendingar eiga fátt gott upp að unna.

Nú skyldi maður ætla, að úr því að hv. þm. telja óviðfeldið að breyta lögunum frá 1884, þá hefðu þeir rök fram að færa fyrir því, að jarðir, sem nú eru í leiguábúð samkv. þeim lögum, sjeu svo vel setnar, að eigi gefi tilefni til breytinga. En jeg verð að mótmæla því harðlega, að svo sje. Ásigkomulag leigujarða, eins og það er nú í landinu, bendir ótvírætt á það, að leiguskilmálarnir, og þá einkum ákvæðin um að leiguliði sjái um húsakynni og viðhald, sjeu þess valdandi, að húsakynni flestra slíkra jarða eru alveg óviðunandi, bæði fyrir menn og skepnur. Sú aðvörun reynslunnar, sem í þessu ástandi felst, sannar öllu öðru fremur hina ríku þörf til breytinga á áðurnefndum ákvæðum núgildandi ábúðarlöggjafar.

Það fór ekki að koma greinilega í ljós fyr en eftir síðustu aldamót, hver munur var á ræktun leigujarða og hinna, sem eru í sjálfsábúð. En það var af því, að alt fram að þeim tíma var skilningur á nauðsyn ræktunarinnar fremur lítill. En síðan menn komu auga á þessa nauðsyn, síðan mönnum varð ljós arðsvonin af aukningu jarðargróðans, síðan menn lærðu að nota vjelar og önnur hraðvirk tæki til búnaðarframkvæmda, hefir það komið í ljós, einnig á þessu sviði, hve leiguskilmálarnir eru óhagkvæmir og hvernig þeir drepa úr ábúendum alla viðleitni til að bæta jarðirnar.

Þetta ástand er mþn. í landbúnaðarmálum fullkomlega ljóst. Byggist þekking hennar eigi síst á þeim skýrslum, sem hún hefir látið safna hvarvetna af landinu. Nákvæm rannsókn og ítarleg íhugun hafa leitt af sjer þær till., sem við hv. 2. þm. Eyf. leyfum okkur nú að bera fram.

Jeg get verið hv. þm. Ísaf. sammála um það, að það sje til lítils að leggja fram frá hinu opinbera of fjár til ræktunar og annara umbóta í sveitunum, ef ekki er um leið sjeð svo um með nýrri löggjöf, að umbæturnar komi að fullum notum. Og það er ekki nóg, að umbæturnar verði að notum. Afrakstur þeirra á að renna til þeirra manna, sem eiga hann best skilið. En það eru tvímælalaust ábúendurnir, sem sjálfir vinna að ræktuninni. Með því að tryggja ábúendunum rjettlátan ávöxt vinnu sinnar er best sjeð fyrir afkomu sveitanna. Með því einu er það trygt, að dugandi menn fáist til að taka sjer þar bólfestu og festa trygð við býli sín.

Jeg kemst ekki hjá því að rekja nokkuð ítarlega andmæli hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Barð. gegn frv.

Um hv. þm. Barð. get jeg sagt það, að hann rakti í ræðu sinni flestar gr. frv., eins og við 2. umr. væri. Mjer þótti vænt um, að hann gerði þetta og skal síður en svo setja út á það. Það er ekki nema gott, að sem flestar aths. komi fram við frv., áður en það fer til n. Að vísu gera þingsköpin ekki ráð fyrir, að einstakar gr. sjeu teknar til meðferðar fyr en við 2. umr. En hæstv. forseti er jafnan frjálslyndur í þessu efni, og tel jeg það vel farið, þegar um svo mikilsvert mál er að ræða sem þetta frv.

Jeg skal þá fyrst víkja að aths. hv. 1. þm. S.-M. Hann sagði, að stefna n. væri bersýnilega sú, að tryggja og auka sjálfsábúð í landinu. Hv. þm. hefir rjett fyrir sjer. Þetta er stefna n.

Jeg var á sínum tíma andvígur sölu þjóðjarða. Allir vita, hvað gerðist, þegar þær jarðir voru seldar. Jarðirnar voru yfirleitt seldar mjög vægu verði og með ágætum borgunarskilmálum, þar á meðal ýmsar ágætustu jarðir á landinu. En löggjöfin lagði engar hömlur á meðferð þeirra, þrátt fyrir hin góðu kjör, er kaupendunum voru veitt. Sú hefir orðið raunin, að þessar jarðir hafa hvergi nærri komið sveitunum að þeim notum sem þær myndu hafa gert, ef hömlur um meðferð jarðanna í framtíðinni hefðu verið settar. En þegar nú svo er komið, að búið er að selja meginhluta þjóð- og kirkjujarðanna, þ. á. m. flestar þær bestu, sje jeg ekki ástæðu til að halda í þá skækla, sem eftir eru. Tel jeg rjett, að ábúendur fái þá til eignar, ef þeir óska eftir og hafa mátt til. Á þann hátt mun best sjeð fyrir ræktun þessara jarða og afkomu mannanna, sem á þeim búa.

N. er það ljóst, að ákvæði frv. um, að jarðeigendum beri að leggja til hús muni baka þeim allmikinn kostnað fyrst í stað. Þó sýnist henni með sanngirni mega ætlast til þess af jarðeigendum, að þeir sætti sig við þessa breyt. Hví skyldu þeir eigi geta látið sjer lynda að inna af höndum þær skyldur, sem landeigendur urðu að inna af hendi um aldaraðir? Það skal að vísu viðurkent, að húsakostnaður er meiri nú en hann var í fyrri daga. En jeg álít samt, að mönnum, sem á annað borð eru þess megnugir að eiga jörð, sje það enganveginn ókleift að sjá svo um, að búskapur á henni geti verið í lagi. Sje ástæða hv. 1. þm. S.-M. sú, að hann vilji hlífa eigendum við að húsa jarðirnar, þó að þeir geti, þá get jeg ekki fallist á hana með neinu móti. Og jeg skal lýsa yfir því hispurslaust, að jeg tel þjóðfjelaginu engan skaða í því, að jarðir hverfi úr eigu slíkra manna til annara, sem meiri hug hafa á því að uppfylla skyldur sínar í þessum efnum. Hvaða ástæða er eiginlega til þess að láta allar skyldur gagnvart jörðinni sjálfri hvíla á ábúanda, en ekki á eiganda? Hvers vegna á að hlífa eiganda við þessum skyldum? Mjer virðist það bæði óhyggilegt og órjettlátt. Jeg skil heldur ekki í öðru en að mönnum, sem eiga jarðir og ætla annaðhvort að taka þær sjálfir til ábúðar síðar meir eða geyma þær börnum sínum, muni vera ljúft að verða við þeim skyldum, sem n. vill leggja þeim á herðar. Jeg hygg, að þeir muni ekki láta sjer kostnaðinn í augum vaxa.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að ríkinu væri fullkomin nauðsyn á að losna við jarðir sínar, ef það ætti að byggja upp á þeim. Jeg býst við, að þetta sje ekki að öllu mælt að ástæðulausu. Endurbygging á opinberum jörðum myndi auðvitað verða ríkinu eigi lítill útgjaldaauki. En eigi að síður er þessi ráðstöfun alveg nauðsynleg. Hv. þm. sagði líka, að húsakynni á jörðum væru víða svo ill, að lítt væri búandi á þeim. En er það ekki einmitt núgildandi ábúðarlöggjöf, sem hefir skapað þetta ástand? Á leigujörðunum er ásigkomulagið langverst. Og því ásigkomulagi lýsti hv. þm. svo hörmulega sem hann gerði. (SvÓ: Jeg hefi enga lýsingu gefið). Jú, það gerði hv. þm. Frá því getur hann eigi flúið, þó að það kynni að vera æskilegt fyrir málstað hans. Lýsinguna gaf hann, svo að öll hv. d. heyrði. Og sú lýsing var sönn.

Þessu verður eigi kipt í lag, fyr en jarðeigendum er gert að skyldu að byggja upp jarðirnar, og einnig að annast viðhald húsanna, þó jeg hinsvegar viðurkenni, að ef til vill sje ekki jafnbrýn nauðsyn á þessu hvorutveggja. En undanfarin reynsla skýrir oss þó frá því, að jafnskjótt sem viðhaldsskyldan var flutt yfir á leiguliðana, tóku byggingarnar að hrörna.

Mjer mun verða svarað því, að húsakynni á sveitabæjum hafi batnað á síðustu árum. Það má vera, en þó eru þau víðast óviðunandi á leigujörðum. Og talsvert álitamál er, hvort allar nýbyggingar eru betri en þær gömlu. Húsin eru ef til vill eitthvað rúmbetri og loftskárri en áður, en þau eru líka víða kaldari. Það er því vafamál, að hjer sje um verulega framför að ræða.

Köldu og óvistlegu sveitabæirnir hafa ef til vill skapað þjóðfjelaginu meira tjón og meiri erfiðleika en nokkurn grunar. Það er enginn vafi á því, að þeir hafa átt sinn þátt í að spilla heilsufari þjóðarinnar. Hvers vegna eru hin stóru, dýru berklahæli ríkisins yfirfull af sjúklingum? Jeg svara óhikað: Berklaveikin í landinu á að verulegu leyti rót sína að rekja til illra húsakynna. Og húsakynnin í sveitunum eru verri en í kaupstöðunum. Jeg segi það ekki vegna þess, að jeg telji vanþörf á alvarlegum tilraunum til að ráða bót á byggingamálum kaupstaðanna, en jeg get um það aðeins sem staðreynd, að svo vond sem húsakynni kunna að vera í kaupstöðunum, þá eru þau þó miklu verri í sveitunum, og þá einkum á þeim jörðum, sem ekki eru í sjálfsábúð.

En sje nú svo, að Alþ. láti sig litlu varða um aðbúnað þeirra manna, sem enn eru heilir heilsu, þá skil jeg tæplega, hvað vakir fyrir þeim mönnum, sem greiða atkv. með byggingu nýrra sjúkrahúsa. Það er gott að sjá svo um, að fólki, sem þjáist af sjúkdómum, líði þolanlega, en um hitt er þó meira vert, að koma í veg fyrir, að það missi heilsuna. „Á skal að ósi stemma“. Það sýnist nokkuð öfugt að farið, að hirða lítið um húsakynnin, sem þjóðin elst upp í og dvelur í mestan sinn aldur, en byggja síðan sjúkrahús fyrir of fjár yfir þá, sem mist hafa heilsuna vegna ófullkominna húsakynna heima fyrir. Sú úrkynjun, það menningarleysi og þroskaleysi, sem leiðir af slíku fyrirhyggjuleysi, veldur meira þjóðartjóni en tölum verði talið.

Af því að hv. 1. þm. S.-M. tók stórt til orða, vil jeg minna hann á ummæli, sem Jón Hjaltalín ljet falla á Alþ. 1865, þegar landbúnaðarmálið var til umr. Hann sagði, að húsakynnin hjer á landi væru svo aumleg, að fólk hefði ekki meira en þriðja hluta þess húsrúms, sem minst mætti vera fyrir óbótamenn í öðrum löndum. Og hann bætti því við, að margur maður hjer á landi mundi hrósa happi yfir því að hafa til umráða svo sem svaraði helmingi þess húsrúms, sem föngum væri minst ætlað erlendis.

Jeg get búist við, að mjer verði svarað því, að þessi orð eigi nú ekki lengur við. Og jeg get viðurkent það, að húsakynnin hafi tekið framförum að sumu leyti. Þau eru loftbetri og rýmri en áður. En þau eru líka kaldari og rakasamari en þá. Að öllu samanlögðu er jeg ekki viss um, að sveitabæirnir íslensku hafi breytst neitt til batnaðar, þegar á alt er litið, síðan árið 1865, þegar Jón Hjaltalín, sá merki maður, setti þau skör lægra en vistarverur óbótamanna í öðrum löndum.

Fundartíminn er nú liðinn. Jeg hefi aðeins lokið nokkrum hluta þess, sem jeg vildi sagt hafa í þessari ræðu. Verð jeg þó að láta hjer staðar numið að þessu sinni.