06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í C-deild Alþingistíðinda. (3256)

117. mál, skipun barnakennara og laun

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Það er leiðinlegt að eltast við þessa embættismannaherflokka, sem berjast hjer fram í hv. d. undir forustu hv. þm. Dala (SE) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Báðir hafa talað fyrir þessum vesalingum(!) eins og þeir væru sannnefndir píslarvottar vegna viðskifta sinna við ríkið.

En jeg verð að segja, að í þessu efni sem öðru eru takmörk fyrir því, hvað þungan bagga þjóðin getur bundið sjer. Og þó að því sje haldið fram af formælendum þessa máls, að hjer sje ekki farið fram á mikið, þá hljóta þó allir að sjá, að það getur dregið dilk á eftir sjer og önnur sambærileg störf hækka í sama hlutfalli að því er laununum viðkemur. Mjer fanst hv. frsm. meiri hl. (ÁÁ) loka augunum um of fyrir ákvæðum gildandi laga um laun barnakennara. Hann gerir ekki ráð fyrir aldursuppbót, þar sem þó er vitanlegt, að hún getur orðið jafnhá laununum. En með því hefir hann ekki reiknað í flutningi þessa máls.

Það er rjett, sem hv. frsm. meiri hl. hjelt fram, að sveitirnar hafa verið beittar nokkrum misrjetti um styrk til fræðslumála á móts við kauptún og þau hjeruð, sem fasta kennara hafa. En það misrjetti mátti leiðrjetta á þann hátt, að láta ríkissjóðstillagið hækka en draga úr tillagi sveitanna.

Annars dettur mjer í hug, að ástæðan fyrir því, að hv. frsm. meiri hl. telur ekki aldursuppbótina sje sú, að enn eru svo fáir kennarar skipaðir. En hvers vegna eru kennararnir ekki skipaðir? Jeg hefi heyrt, að ástæðan væri sú, að ef þeir yrðu skipaðir, kæmu þeir brátt á þau laun, er samsvaraði ekki getu almennings að gjalda. Í þessu liggur þá sú viðurkenning, að launin hafi upphaflega verið of hátt ákveðin í lögunum, enda virðist það t. d. óeðlilegt, að aldursuppbótin sje gerð jafnhá byrjunarlaunum. Þessu mætti vitanlega breyta, því ekki er ástæða til að halda, að kennararnir verði hæfari til að gegna starfi sínu fyrir það.

Jeg verð að álíta, að sá kennari, sem hefir, auk allra þeirra hlunninda, sem lögin áskilja honum, 840 kr. fyrir þá 6 mánuði, sem skólinn stendur, sje mjög sæmilega haldinn af hálfu hins opinbera. Minsta kosti hefir hann ekki meiri ástæðu til að kvarta heldur en margir aðrir flokkar starfsmanna ríkisins. Annars býst jeg við, að um þetta mál sje sama að segja og yfirsetukvennalögin. Menn vilja óðir og uppvægir hækka launin, og stoðar því sennilega lítt á móti að mæla. En það verð jeg að segja, að einkennileg er afstaða þeirra hv. þdm., sem leggja sig fram til þess að fá þessi laun hækkuð, en leggjast hinsvegar af alefli á móti hækkun launa verkamanna, hvenær sem þeir koma því við. Það skal vera óátalið af mjer, enda býst jeg við, að atvinnuvegirnir sjálfir sjeu best færir að dæma um, hve há laun þeir þola að greiða. En hitt getur engum dulist, að nokkurs ósamræmis kennir hjá mörgum hv. þdm. í þessum efnum. Það er að vísu æskilegt, að barnafræðslan sje í sem allra bestu lagi, en á það ber að líta, að geta ríkissjóðs er ekki ótakmörkuð í þessum efnum frekar en öðrum. Og á það ber og að líta, að mjög orkar tvímælis um gagnsemi barnafræðslunnar í þeirri mynd, sem hún er rekin hjer á landi, og margir munu vera þeirrar skoðunar, að hún svari ef til vill ekki kostnaði.