24.04.1929
Neðri deild: 53. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í C-deild Alþingistíðinda. (3315)

120. mál, refarækt

Hákon Kristófersson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 378, sem á við brtt. á þskj. 363. Hv. frsm. landbn. hefir nú lítillega minst á hana í sambandi við aðra brtt., á þskj. 377. Tjáði hann að landbn. hefði óbundnar hendur um atkvgr. um þessar brtt. Jeg furða mig nú næstum á því, að svo skuli vera um brtt. á þskj. 377, sem er ákveðin efnisbreyting. Eins og jeg gat um, þá er mín brtt. við 1. brtt. landbn. á þskj. 363. En þar er svo kveðið að orði, að „öll refabú skulu vera háð dýralækniseftirliti, en það skal refabú talið, þar sem refir eru aldir, hvort sem færri eru eða fleiri.“ Mjer virðist því þessi brtt. landbn. gera skyldugt dýralækniseftirlit, hvort sem dýrin eru alin skemur eða lengur. En slíkt þykir mjer óþarft, ef dýrin eru að eins alin stuttan tíma og síðan lógað. Það getur naumast kallast refabú. Og er dýralækniseftirlit varla nauðsynlegt á slíkum stöðum. Virðist mjer því, að þessi brtt. mín eigi fullan rjett á sjer. Kemur mjer því á óvart, ef hv. landbn. er á móti henni, enda er hún það ekki öll samkv. því, er hv. frsm. hennar sagði, að atkv. væru óbundin. Hv. 1. þm. N.-M. mintist á vörslu refanna og þar á meðal eyjavörslu. Hv. frsm. landbn. hefir nú svarað þessu að nokkuru leyti og talið, að það verði eitt af ákvæðum reglugerðarinnar að ákveða, hvaða eyjar skuli teljast örugg varsla. Jeg býst nú varla við því, að með því sje meint það, að nefnd sjeu nöfn einhverra eyja, heldur það, að leyft skuli uppeldi í þeim eyjum einum sem vissa þykir fyrir, að ekki verði samísa við land og refirnir þar með geti sloppið. Samkv. brtt. n. eiga það að vera hreppstjórarnir, sem eftirlit hafa með því, að varslan sje örugg. Verður því þeirra hlutverk að ákveða, hvort varslan telst sæmileg.

Brtt. á þskj. 377 hefir það í för með sjer, að ákvæði 3. gr. frv. komi ekki til framkvæmda á árinu 1929, að öðru en snertir dýralækniseftirlitið og vottorð um heilbrigði dýra sem seld eru lifandi út úr landinu. Ef þessi brtt. verður samþ., þá vil jeg spyrja hv. flm. till. að því, hvort þetta geti ekki orðið til hægðarauka fyrir Norðmenn, ef þeir hugsa til útflutnings, þannig að þeir gætu aflað sjer aðstöðu til útflutnings. Jeg efast mjög um, að það sje hagræði fyrir okkur, að útflutningur á lifandi dýrum eigi sjer stað, og síst af hálfu Norðmanna. Það gæti svo farið, að okkar skinn lækkuðu í verði fyrir þá sök. — Að því ógleymdu, ef Norðmenn hafa það lag, að flokka þau dýr, sem þeir kaupa, og selja betri dýrin undir nafni annara landa en okkar. Það er full ástæða til að koma í veg fyrir slíkt athæfi. Hv. flm. hafa vonandi athugað þetta. En jeg dreg það þó mjög í efa, að þessi brtt. sje til bóta.

Jeg vil vona, að hv. þdm. sjái sjer fært að samþ. mína brtt., nema að svo sje, að það eigi að teljast refabú, hversu stuttan tíma, sem refir eru þar aldir og hversu fáir, sem þeir eru. — Það var nú reyndar helst að heyra á hv. frsm., sem virtist vilja telja samstofna kúabú og refabú. — En jeg hefi nú reyndar aldrei heyrt það kallað kúabú, þótt 4–5 beljur væru hafðar á heimili. Það mun venjulegur skilningur þegar um kúabú er að ræða, að þá sjeu framleiddar þar nautgripaafurðir, sem ætlaðar eru til sölu, en ekki heimilisnotkunar. Það segir sig sjálft, að þetta dýralækniseftirlit kostar eitthvað, en segja má, að ekki sje í það horfandi, ef refabúin eru nokkuð stór, en hann getur orðið tilfinnanlegur, ef aðeins er um að ræða 3–4 yrðlinga, sem lógað er innan árs. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta fyr en jeg hefi fengið nákvæma útlistun á því, sem felst í brtt. á þskj. 377; en jeg sje mjer ekki fært að fylgja henni.