11.03.1929
Efri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

58. mál, vigt á síld

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Það hefir til skamms tíma gengið svo til, að sú síld, sem síldarbræðsluverksmiðjurnar hafa keypt, hefir verið seld og keypt eftir mælingu. Sú breyting hefir þó orðið á þessari venju síðustu árin, að byrjað er að selja síldina eftir vigt í bræðslu. Er því nú selt bæði eftir vigt og máli. Engin föst regla hefir gilt um þetta, og hafa bræðsluverksmiðjurnar haft þar um geðþótta sinn, því engin lög voru til um þetta efni. En í tilskipun frá 13. mars 1925, um mælitæki og vogaráhöld, er að vísu gengið út frá því, að síldin sje mæld við sölu og kaup í bræðslu, en þó er ekkert fyrirskipað um þetta í þeim 1., sem fyrirskipunin byggist á. — Við athugun hefir það komið í ljós, að fult svo heppilegt mundi vera að vega þá síld, sem seld er í bræðslu. Ástæðan fyrir því er m. a. sú, að nákvæmara er að vega síldina til bræðslu en mæla, vegna þess að síldin er seld í mismunandi ástandi og verður því misjafn þungi í mælikerunum, eftir því, hvort síldin er ný eða slæpt. Nú er það svo, að meira fer í mælikerið af slæptri síld, en til bræðslu er hún jafngild, eða máske betri, því verksmiðjunum þykir betra að eiga við bræðslu hennar, er hún er orðin nokkurra daga gömul.

— Er því betra að ein regla gildi um sölu þessarar vöru, og þá sú aðferðin, sem rjettlátari er.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Vænti þess að hv. deild leyfi frv. að ganga til 2. umr. og þar sem það eftir eðli sínu mun eiga best heima í sjútvn., þá leyfi jeg mjer að óska að því verði vísað til þeirrar

hv. n., að lokinni umr.