12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í C-deild Alþingistíðinda. (3403)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jón Baldvinsson:

Jeg sje ástæðu til að taka til máls út af þeim orðum, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) ljet falla í ræðu sinni áðan. Eins og nál. ber með sjer, ætlar þessi hv. þm. sjer að greiða atkv. með frv. En hann gerir það áreiðanlega ekki með glöðu geði, og er nú að reyna að svala sjer á greinargerðinni fyrir frv.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að halda ræðu í þessu máli. En orð hv. þm. (HSteins) gáfu mjer tilefni til þess. Það, sem jeg ætla að gera nú, er að láta hv. þm. og nokkra nánustu fylgismenn hans flytja þann vitnisburð, sem þeir hafa borið fram viðvíkjandi þessu máli á undanförnum þingum. Vil jeg ráða hv. þm. (HSteins) til að taka vel eftir, meðan hann heyrir sjálfan sig og samherja sína tala.

Árið 1924 var nýtt um það á Alþingi, að herða á sektarákvæðum fyrir landhelgisbrot. Frv. var eigi samþykt, en umræðurnar um það eru ákaflega lærdómsríkar. Jeg skal nefna dæmi. Ágúst Flygenring er að afsaka brot íslensku togaranna. Hann segir:

„Og við skulum nú taka dæmi, til skýringar þessu máli: 10–50 erlendir togarar eru að veiðum í landhelgi austur við Landeyjasand. íslenskur togari kemur þar að, er að veiðum fyrir utan línuna og fær ekki fisk úr sjó. Hvað á þá skipstjórinn að gera? Hvað myndum við gera í hans sporum? Auðvitað fara inn fyrir línuna. Svo ber varðskipið að. Einmitt þessi togari er ef til vill tekinn, — og kannske eingöngu vegna þess, að hann vantar t. d. loftskeytatæki, sem hinir hafa.“

En hv. þm. Borgf., Pjetur Ottesen, er ekki alveg á sama máli. Hann segir:

„Þá vildi hv. þm. (ÁF) færa skipstjóranum það til vorkunnar, að þeim væri það of mikil freisting að sjá útlendingana altaf maka krókinn í landhelginni. Jeg hygg nú, að það sje Íslendingarnir, sem oftast ganga þar á undan hinum með þetta fagra fordæmi, og það á þeim stöðvum, sem skaðlegast er, að veitt sje á með botnvörpu, einmitt á bátamiðunum, og þá einkum þar, sem þarf kunnugleika til botnvörpuveiða, sökum þess, hvernig botnlagi er háttað. Útlendingarnir koma svo á eftir. Lögbrot þeirra eru að nokkru leyti því að kenna, að innlendu skipstjórarnir ganga á undan með þessu ófagra eftirdæmi.“

Um loftskeytanotkun togaranna kemst Ágúst Flygenring svo að orði:

„Og auðvitað er það, að landhelgisbrot skipstjóra eru ekki ókunnug útgerðarmönnum. Það er opinber leyndardómur, að loftskeytatæki og annað slíkt er fyrst og fremst haft á skipunum vegna landhelgiveiðanna.“

Þetta sagði þá sá hv. íhaldsmaður, Ágúst Flygenring, um loftskeytatæki togaranna. Nákvæmlega samskonar ummæli eru það, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) vitir nú í greinargerð frv. þess, sem hjer er til umræðu. En Ágúst Flygenring segir meira. Jeg vil biðja hv. þm. Snæf. að taka vel eftir:

„Að því munu vera mörg dæmi,“ segir Ágúst Flygenring, „að skipstjórar hafi óbeinlínis verið sviftir skipstjórn fyrir að stunda ekki veiðar í landhelgi — eða með öðrum orðum: fyrir að fiska ekki nógu vel, af því að þeir hafa hlífst við að fremja lögbrot. Og það vita allir, sem eitthvað þekkja til, að sumir þeirra, sem brotlegastir eru, hafa aldrei verið teknir.“

Hv. þm. Borgf., Pjetur Ottesen, álítur sýnilega, að Ágúst Flygenring hafi kveðið ennþá sterkara að orði en stendur í Alþt. Pjetur Ottesen tekur svo til orða:

„Hann (þ. e. Á. F.) sagði, að útgerðarmenn blátt áfram skipuðu skipstjórunum að veiða í landhelgi, og ef þeir gerðu það ekki, þá ættu þeir á hættu að vera reknir af skipunum.“

Þetta skilst mjer einmitt, að liggi til grundvallar því frv., sem hjer er til umræðu.

En þegar hv. þm. Barð. (HK) heyrði slíka lýsingu, var honum nóg boðið. Hann stendur upp og heimtar harða refsingu yfir þá menn, sem þvílíkt athæfi fremji. Að lokum kemur hann fram með svofelda áskorun:

„Jeg vil óska þess, að fram fari nafnakall um þetta mál, svo það sjáist, hverjir helst halda hlífiskildi yfir lögbrotaseggjunum, sem fyr og síðar hafa leikið sjer að því, að eyðileggja framtíð fátækra manna við strendur þessa lands.“

Þessar umræður fóru fram á þinginu 1924. En á þinginu 1927 var líka rætt um þetta mál. Jeg ætla að leiða hjer eitt vitni úr þeim umræðum. Þetta vitni er sjálfur hv. þm. Snæf. (HSteins). Hann er að deila á stjórnina fyrir ljelega landhelgigæslu við Snæfellsnes:

„Sem dæmi þess má geta,“ segir hv. þm. Snæf., „að frá því um nýjár hefir altaf verið heill floti togara — 20–30 skip — óáreittur á norðanverðum Faxaflóa og sunnarlega á Breiðafirði. — En síðan hafa bæði skipin, Fylla og Óðinn, skroppið þarna vestur, til þess að líta eftir, en enginn sýnilegur árangur hefir orðið af þeirri gæslu, því að ekkert skip hefir verið kært, en það er margsannanlegt, að fjöldi þessara togara hefir verið fyrir innan landhelgilínu á þessum tíma.“

Daginn eftir sagði þessi hv. þm. (HSteins) ennfremur:

„Eins og jeg gat um í gær, hefir verið heill floti af íslenskum togurum á þessum slóðum. Og þar sem hvergi mun vera önnur eins aðsókn af togurum í landhelgi, nema ef til vill við Vestmannaeyjar, þá gegnir furðu, að ekki skuli vera haft varðskip að staðaldri á þessum slóðum, þegar ágangurinn er sem mestur.“

Í þessum ummælum er greinilega fullyrt, að 20–30 íslenskir togarar hafi verið að ólöglegum veiðum við Snæfellsnes nærri samstundis, og enginn þeirra sætt hegningu. Jeg finn ekki í svip fleira, sem hv. þm. (HSteins) hefir sagt um þetta. En grunur minn er sá, að hann hafi oftar látið þung orð falla um landhelgibrot en í þetta sinn. Og jeg held, að þau ummæli, sem jeg hefi nú þegar lesið upp, megi teljast eigi ómerkur vitnisburður í þessu máli. Hv. þm. getur vitanlega hengt hatt sinn á það, að brot íslensku togaranna sjeu ekki sönnuð. Ef til vill má segja að ekkert sje fullsannað, fyr en um það hefir verið dæmt í hæstarjetti. En hv. þm. Snæf. verður að viðurkenna, að ummæli hans sjálfs og annara þingmanna rjettlæta fyllilega það, sem stendur í greinargerðinni um framferði íslenskra togara.

Jeg skal nú láta staðar numið. Mjer þótti rjett að láta ofangreinda vitnisburði koma fram í þessum umræðum, svo að hv. þm. Snæf. viti, að hann má fyrst og fremst deila við sjálfan sig um þetta mál.