25.03.1929
Neðri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

11. mál, skráning skipa

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Sú breyt. á lögunum um skráning skipa, sem hjer er farið fram á í þessu frv., er ekki mjög stórvægileg, en hún er í því fólgin, að viðskiftafulltrúar landsins erlendis hafi rjett til þess að neita um útgáfu þjóðernisskírteinis, ef grunur leikur á, að ekki sje fullnægt þeim skilyrðum, sem uppfylla ber, eða með öðrum orðum, að viðskiftafulltrúar landsins hafi sama rjett og lögreglustjórar hafa nú samkv. gildandi lögum. En í þessu felst það öryggi, að ekki á að vera hægt að „leppa“ skip undir íslenskan fána erlendis. Ákvæði um þetta var ekki til áður í lögunum, en hjer er ráðin bót á þessu, enda hefir hv. Ed. litið sömu augum á þetta mál. Getur sjútvn. fallist á frv. og leggur til, að hv. d. samþ. það með lítilfjörlegri breyt. á einum stað, og er það eiginlega aðeins málfræðileg breyt.