27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í C-deild Alþingistíðinda. (3510)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Baldvinsson:

Fyrri brtt. á þskj. 427 gerir þær breytingar á þessu frv., að bærinn hefir svo að segja engin not af þessum kaupum. Hinsvegar þykir mjer vænt um, að síðari brtt. kom fram, því að hún er í samræmi við það, sem jeg hjelt fram í sambandi við söluna á Nesi í Norðfirði. Mun jeg því greiða þessari síðari brtt. atkvæði mitt, en treysti mjer ekki til að fylgja hinni fyrri, af því að mjer finst, að frv. verði hvorki fugl nje fiskur, ef hún nær fram að ganga. Með því móti er bænum sýnd veiðin en ekki gefin, með því að hann getur þá ekki ráðstafað þessu landi á sama hátt og ef hann hefði fullkomin eignarumráð yfir því. Þó að jeg játi, að ríkissjóður getur leigt kaupstaðnum landið með svo góðum kjörum, að bæjarfjelaginu væri enginn akkur í að kaupa það, og það væri ef til vill rjettast að gera, finst mjer ekki rjett að spyrna á móti þessu máli, úr því að sú leiðin hefir nú einu sinni orðið ofan á hjá þinginu, að selja kaupstöðunum það land, sem þeir standa á, ef ríkið hefir átt það.