22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3579)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg vil aðeins benda hv. þm. V.-Húnv. á það, að með till. þeirri, sem hjer liggur fyrir, er ekki verið að gera tilraun að festa þau strandvarnaskip, sem nú eru til, við landhelgisgæslu á Faxaflóa og draga þannig úr hinni almennu landhelgisgæslu, heldur er farið fram á að auka hana á þessum slóðum, sem till. ræðir um, frá því, sem hún er nú, því að þess er síst vanþörf. En það á stj. að verða innan handar, þegar nýtt og hraðskreitt skip bætist við strandvarnarskipaflotann. Á það skip alls ekki að vera bundið við gæslu fiskimiða á innanverðum Faxaflóa; má því Húnavatnssýsla og aðrir landshlutar eiga von á betri gæslu í framtíðinni en verið hefir. Jeg get mjög vel skilið, að hv. þm. V.-Húnv. beri kjördæmi sitt fyrir brjósti í þessum efnum, en jeg vænti, að hann sjái, að bæði kjördæmi hans og önnur kjördæmi, sem þarfnast aukinnar landhelgisgæslu, fái hana þegar flotinn verður aukinn, sem verður á komandi sumri.