03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3585)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg bjóst við, að hv. flm. brtt. á þskj. 203 mundi hefja hjer máls um hana, og því var jeg að draga það að standa upp.

Jeg get lofað því að vera ekki langorður. Sjútvn. var búin að koma sjer saman um till. þá, er hjer um ræðir, og n. sem heild getur ekki lagt til, að á henni sjeu gerðar víðtækar breyt., eins og hjer er farið fram á. Það er þó rjett að geta þess, að n. vill líta með velvild öll tilmæli um aukna landhelgisgæslu. Hinsvegar er það ljóst, að ekki er hægt í einu að setja sjerstaka gæslubáta alstaðar þar, sem mönnum dettur í hug. Við verðum að fika okkur áfram, taka þá staði fyrst, er mest ríður á. Það hafa verið færð sterk rök fyrir því, að við innanverðan Faxaflóa væri sjerstök þörf á að hafa gæslubát. Hv. deild hefir fallist á það. Till. hv. þm. Barð. gengur út á það að stækka mjög svæði það, er hann á að gæta, leggja sunnanverðan Breiðafjörð undir hann líka. (HK: Nei, nei). Ja, það kemur ekki svo skýrt fram í till., að það skuli falið sjerstökum báti. — í seinni lið brtt. er farið fram á, að sjerstakur bátur verði hafður til landhelgisgæslu á svæðinu frá Hornbjargi að Straumnesi við Patreksfjörð. Eins og vitanlegt er, þá hefir sjerstakur bátur um mörg undanfarin ár verið hafður við gæsluna fyrir Vestfjörðum. Jeg veit ekki til, að það hafi staðið til að leggja þá gæslu niður. Það er viðurkent, að hennar er full þörf. Það sýnist engin þörf á að gera sjerstaka breyt. á till. hennar vegna.

Sjútvn. álítur, að ef farið væri að hnýta aftan í till. slíkum brtt., þá gæti það orðið til þess, að stj. treystist ekki til að leggja út í neinar framkvæmdir í þessu efni. Því er ekki rjett að fara mjög geyst í sakirnar. Þar að auki stendur fyrir dyrum, að gæslan öll verði gerð öflugri en verið hefir, þegar hið nýja, góða strandvarnaskip bætist við. Þykir mjer trúlegt, að Vesturlandi verði þá veitt sjerstök athygli.

Jeg hefi skilið það svo, að þótt n. í heild hafi ekki getað mælt með brtt., þá hafi samt hver nefndarmanna óbundnar hendur við atkvgr., bæði um þessa brtt. og aðrar. — Það er hverju orði sannara, að slíkar kröfur um aukna landhelgisgæslu eru fylstu rjettlætiskröfur. En þær geta komið úr öllum áttum jafnrjettháar, bæði að austan og vestan og jafnvel að norðan. Hefir einn hv. þm. þegar haldið því fram, að aukinnar gæslu væri þörf fyrir Norðurlandi. En það er ekki hægt að sinna öllum slíkum kröfum í einu. Gæslunni verður að beina þangað, sem þörfin er mest.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta atriði. Ef brtt. verður hnýtt aftan við till., þá er hætt við, að hin góða viðleitni þingsins geti orðið að engu, gæslan orðið svo umfangsmikil, að hæstv. ríkisstj. sjái sjer ekki fært að eiga neitt við framkvæmdina.

Það er mín skoðun á landhelgisgæslu með smábátum, að hún sje afaróheppileg, þegar um stór svæði er að ræða og á því ríður að handtaka skip. Hinsvegar geta þeir komið að gagni á vissum svæðum, svo sem í Garðsjó, þar sem nærvera þeirra er nægileg til að fæla skip frá landhelginni. En það sýnist ekki ástæða til að fjölga þeim bátum mjög að svo stöddu, þar sem strandvarnirnar eru að komast í mjög sæmilegt horf.