17.04.1929
Efri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Hv. frsm. meiri hl. talaði stundum svo, sem hjer væri um að ræða hækkun á launum, og hv. frsm. minni hl. gerði það líka. En sú till., sem hjer liggur fyrir, fer ekki fram á slíkt. — Dýrtíðaruppbótin var upphaflega hugsuð sem uppbót fyrir aukinn framfærslukostnað og misræmi á verðlagi. Þegar uppbótin var ákveðin 1919, var fundin aðferð til þess að reikna hana út, þannig að valdar voru örfáar algengustu vörutegundir til þess að miða uppbótina við. Því færri vörutegundir, sem dregnar eru inn í útreikninginn af þeim, sem hreyfanlegar eru í verði, því óábyggilegri verður verðvísitalan. Og þess vegna gat farið svo, að slík vísitala sveiflaðist nokkuð til til beggja hliða frá hinni rjettu. Þannig hefir nú farið um dýrtíðaruppbót embættismanna. Hún hefir sveiflast frá fullkominni verðvísitölu, sem er framfærsluvísitala hagstofunnar. Sveiflurnar voru ekki eins stórar og tilfinnanlegar meðan uppbótin var há; en nú er svo komið, þegar dýrtíðaruppbótin er fallin niður í 40%, að þá fer að verða tilfinnanlegt, þegar veilan kemur fram í stórum sveiflum frá hinni fullkomnu vísitölu.

Vegna þessa ófullkomna grundvallar lækkar vísitala embættismanna á þessu ári um 6 stig, úr 40 niður í 34, þótt engar breyt. hafi orðið á hinni fullkomnu vísitölu. Það, sem þessi þáltill. fer fram á, er ekki annað en að gera í ár þá sjálfsögðu rjettarbót, að nema burtu þetta ósamræmi og bæta úr óeðlilegri lækkun dýrtíðaruppbótarinnar, sem stafar af því, að vísitalan er óábyggileg og grundvöllur uppbótarinnar ófullkominn.

Það er óþarfi að ræða um endurskoðun launalaganna út af þessari till., eða um hækkun launa. Það er ekkert farið inn á það spursmál hjer; till. felur ekki í sjer hækkun á launum, heldur lagfæringu í þá átt, að launin haldist óbreytt, þar sem rjett reiknuð vísitala ekki gefur tilefni til lækkunar.

Að því er snertir það atriði, sem hv. frsm. minni hl. drap á, að þessi uppbótarhækkun væri svo lítil, að varla tæki því að samþ. hana, þá er það annað mál. En þegar launauppbótin er komin á þetta lága stig, niður úr 40%, og á að lækka meira, þá er það tilfinnanlegt, þegar þannig er klipið af lágum launum, þó að ekki sje um mjög háa upphæð að ræða.

Það má gera ráð fyrir, að embættismenn hafi flestir komist nokkurnveginn af síðastliðið ár, en þegar launauppbótin lækkar nú enn, án þess að dýrtíðin minki nokkuð, þá þýðir það, að þeir geta alls ekki komist af nema annaðhvort með því að spara lífsviðurværi eða útvega sjer aukaatvinnu.

Jeg vil rjett láta þess getið, að í fjárl. fyrir 1929 er ekki gert ráð fyrir breyt. í þessu efni. Það minsta, sem hægt er að gera, er að viðurkenna, að engin sú breyt. hefir orðið, sem rjettlætir, að haldið sje eftir af fjárveitingunni. Þessi till. felur ekki annað í sjer en að fyrirbyggja óeðlilega launalækkun.

Það gæti verið freistandi að minnast á sumt í ræðu hv. frsm. minni hl., t. d. um samfærslu embætta, en jeg ætla að stilla mig um það við þessa umr., af því að það er fyrir utan efni þessarar till.