06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Ólafur Thors:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, vegna þess að jeg er ekki ánægður með þá afgreiðslu málsins, sem hjer er um að ræða. Jeg hefði heldur kosið, að afgreiðsla málsins hefði orðið í einhverju formi svipuðu frv. hv. 1. þm. Reykv., en um það náðist ekki samkomulag í fjhn., og sneri jeg þá að því ráði að fylgja þessari till., sem hjer liggur fyrir.

Mjer er það að vísu ljóst, að þær bætur, sem till. flytur embættismönnum hins íslenska ríkis, voru ákaflega lítilfjörlegar, en jeg vænti þess, eins og hv. frsm. meiri hl. (HV), að ríkisstj. undirbúi málið undir næsta þing.

Það er óhætt að fullyrða það, að dýrtíðin í landinu er þegar komin í það samræmi við gildi peninganna, sem hægt er að vænta, að hún komist, og þess vegna er alveg tímabært að endurskoða þessa löggjöf, og það verður heldur ekki komist hjá að játa, að þau kjör, sem embættismenn yfirleitt búa við, eru svo gersamlega óviðunandi, að það er ekki sæmilegt að hafa óþarfan drátt á endurskoðun launalaganna. Jeg veit það vel, að íslenska ríkið verður að stilla vel í hóf um útgjöld sín, en það verður þá að gera það nokkuð á þann hátt að ætla ýmsum embættismönnum sínum nokkru meiri störf, en launa þá aftur betur, því að það getur ekki farið saman að krefjast bæði mikillar mentunar og hæfileika, en borga um leið illa fyrir störfin.

Jeg álít það gersamlega þýðingarlaust að fara að ræða launamálið á breiðum grundvelli, og fer því alls ekki inn á það að svo komnu, en taldi rjett að gera grein fyrir mínu atkv. og fyrirvara.