04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

8. mál, lendingar- og leiðarmerki

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Jeg get ekki fallist á að fella niður orðin „sem neyðarlending“. Þetta nafn er notað jöfnum höndum og líflending. Með þessu er ekkert annað meint en það, sem gr. sjálf segir, að þegar útræði legst niður í einhverri verstöð, þá sje skylt að halda leiðarmerkjunum og lendingunum við, svo að menn eigi þess kost að flýja þangað, þegar aðrar lendingar bregðast.

Við þekkjum í nágrenni margra verstöðva lendingar, sem kallaðar eru neyðarlendingar og ekki notaðar nema þegar aðallendingarnar eru ófærar eða ekki er hægt að ná til þeirra, sem oft vill verða.

Og það eru einmitt slíkar lendingar, sem gert er ráð fyrir, að falli undir þessi lög, og að vitamálastjóri í samráði við kunnuga menn og aðra hlutaðeigendur ákveði frekar þar um.