16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Þetta mun vera í 4. skifti, sem till. um þetta efni er hjer til umr. á Alþingi núna á fárra ára fresti. Það hefir nokkrum sinnum áður verið skorað á stj. að freista þess, hvort ekki væri hægt að fá Englendinga til þess að ganga inn á breyt. á landhelginni. Jeg hygg, að það sje óþarfi að fara mörgum orðum um þá nauðsyn, er liggur til grundvallar slíkri till. Hún er svo ljós öllum hjerlendum mönnum, er nokkuð þekkja til sjávarútvegsins, að þarflaust er að fjölyrða um hana. (Samtal og hávaði í deildinni). Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort hjer sje deildarfundur eða ekki. Væri æskilegt, að þeir hv. þm., er ekki geta hlustað á mig, færu á einhvern annan stað, þar sem þeir væru lausir við þann kross.

Það er nú hvorttveggja, að mörg fiskisælustu bátamiðin eru víða algerlega undirorpin botnvörpuveiðunum og að þar eru einmitt helstu uppeldisstöðvar ungfiskjarins. Af botnvörpuveiðunum á þessum svæðum leiðir því bæði eyðileggingu ungviðisins og útrýmingu smábátaveiðanna. Svo er það t. d. hjer við Faxaflóa, og kemur það þó einna greinilegast í ljós í innanverðum flóanum, þar sem fiskimiðin á Sviðinu svokallaða, er haldið hafa lífinu í þeim mönnum, er stundað hafa útróðra á þessum sviðum, eru nú að verða úr sögunni.

Þær tilraunir, er gerðar hafa verið til þess að fá landhelgina rýmkaða, hafa ekki ennþá borið neinn verulegan árangur. Þeim hefir eingöngu verið beitt í þá átt, að komast að samkomulagi við Englendinga um það, að fá breytt þeim samningum, er við erum í við þá viðvíkjandi landhelgislínunni. En svo er háttað um þessi mál hjá okkur, að við erum ekki hvað landhelgislínuna snertir bundnir af öðrum samningi en þeim, er Danir gerðu við Englendinga skömmu eftir aldamótin. Er sá samningur miklu óhagstæðari okkur en þau ákvæði, er áður höfðu gilt.

En þrátt fyrir það, þó ekkert hafi áunnist í þessu, er þó víst, að þessar málaleitanir hjeðan hafa orðið til þess að vekja athygli hjá fiskiþjóðum Evrópu. Þær hafa um langt skeið haft samtök sín á milli um það, að gera út vísindalega leiðangra til þess að rannsaka dýralíf sjávarins. Það var þegar kominn nokkur skriður á þessar rannsóknir, en síðan botnvörpuveiðarnar komust í algleyming, þá hefir verkefni þessara rannsókna beinst mjög að því að rannsaka, hvaða áhrif þær hefðu á fiskiveiðarnar. Hygg jeg, að það, að þessar málaleitanir um rýmkun landhelginnar komu hjeðan, hafi átt nokkurn þátt í því, að vísindafjelögin beindu starfsemi á þessa braut. Annars eru það ekki sjerstaklega við Íslendingar, sem höfum sjeð þörf þess að vernda fiskimiðin fyrir botnvörpunum. Þetta sama er uppi á teningunum alstaðar þar, sem botnvörpuveiðar eru stundaðar. Það er langt síðan þetta varð áhyggju- og íhugunarefni enskra sjómanna. Sjerstaklega var það við Morayflóann á Skotlandi, sem þessar raddir urðu háværar. Fór svo að lokum, að enska stj. gat ekki staðið á móti þessum kröfum, og var þá sú breyt. gerð, að innlendar botnvörpuveiðar voru bannaðar innan vissrar línu. Þetta kom þó ekki að haldi, vegna þess að enskir útgerðarmenn ljetu skip sín þá sigla undir flaggi erl. þjóða, en þær höfðu rjett til þess að veiða innar en Englendingar sjálfir. Þá var tekið upp það ráð að banna þessum skipum að selja afla sinn á Englandi. Þetta gátu þeir gert vegna þeirrar sjerstöðu, er þeir höfðu. Þetta varð þó til þess, að bæði Þjóðverjar, Belgar, Frakkar og aðrar þjóðir, er tekið höfðu upp botnvörpuveiðar, fóru að gefa þessum málum meiri gaum. Enska þingið skipaði svo n. til þess að athuga það, hvaða áhrif botnvörpuveiðar hefðu í þessum flóa, og niðurstaða n. varð sú, að hún lagði til, eftir nákvæma rannsókn, að Morayflóinn yrði friðaður. Þessi niðurstaða var síðan lögð fyrir rannsóknarráð, er stendur fyrir fiskirannsóknum hjer í Norðurálfu og situr í Kaupmannahöfn. Eftir að það hafði svo rannsakað málið frekar, viðurkendi það nauðsyn þess að friða þetta svæði fyrir botnvörpuveiðum. Ekki varð samt neitt úr því, vegna þess að sumar þær þjóðir, er gert höfðu samning við England um landhelgislínuna. — má þar til nefna Holland og Belgíu, — skárust úr leik um að veita leyfi til þess, að landhelgislínan væri færð út, og mótmæltu því, að rjettur þeirra til fiskiveiða væri skertur. Á þessu strandaði það, að nokkrar framkvæmdir væru gerðar til verndar fiskimiðunum.

Í þessu liggur þó viðurkenning af hálfu Englendinga á því, að þær raddir, sem heyrst hafa um aukna friðun, eigi tilverurjett. Finst mjer þetta atriði mikilsvert fyrir okkur, þegar við enn á ný förum að leita hófanna hjá Englendingum um rýmkun landhelginnar. Hjer eru sömu skilyrði og sama nauðsyn fyrir hendi eins og í Morayflóa á Skotlandi.

Jeg gat þess áður, að þær málaleitanir, er hjeðan hefðu komið til ensku stj. hefðu vakið athygli helstu fiskiveiðaþjóða Evrópu. Hafa þær stofnað með sjer fjelag til þess að rannsaka áhrif botnvörpuveiðanna og hafa þær haldið úti skipi til þess. Það mun fyrst hafa komið hingað 1921, en svo hefir það verið hjer á hverju sumri hin síðari árin. Einnig hefir og varðskipið Þór verið gert út til slíkra rannsókna. Maður sá, er stendur fyrir þessum rannsóknum, er nafnkunnur danskur vísindamaður, Smith að nafni. Hann var ekki ánægður með það, að þessar rannsóknir væru aðeins gerðar að sumrinu til, heldur vildi hann, að þær færu fram fjórum sinnum á ári: Vor, sumar, haust og vetur. Hefir þeim þannig eftir hans till. verið haldið hjer uppi undir stjórn dr. Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings. Niðurstöður þessara rannsókna eru svo sendar rannsóknarráðinu í Kaupmannahöfn.

Nú er ákveðið, að þetta rannsóknarfjel. Norðurlanda geri út leiðangur hingað 1930, og hefir dr. Bjarni Sæmundsson tjáð mjer, að að honum loknum muni mega líta svo á, sem fengin sje ábyggileg vísindaleg sönnun þess, hvaða áhrif botnvörpuveiðarnar hafa á smá- og ungfiskinn hjer við land. Mun þetta ráð svo byggja till. sínar á þeirri niðurstöðu.

Jeg hefi skýrt frá öllu þessu með það fyrir augum, að jeg býst við, að þessar rannsóknir verði verulegur liður í áframhaldandi tilraunum okkar um það að fá landhelgislínuna færða út. Alt það, er komið hefir í ljós við þessar rannsóknir, bendir til þess, að nauðsynlegt sje að gera eitthvað til þess að vernda ungfiskinn meira en er mögulegt með þeirri landhelgislínu, er við höfum nú.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að eftir að samskonar till. og þessi hafði verið samþ. 1926, sneri íslenska stj. sjer til sendiherrans í Kaupmannahöfn Sveins Björnssonar, með tilmælum um það, að hann flytti þetta mál áleiðis til Englendinga. Hann ráðgaðist um þetta við dr. Smith, en hann taldi rjettara að doka við með þetta þangað til fengin væri sú niðurstaða, er þá var verið að leita að, nefnil. hvaða áhrif botnvörpuveiðarnar hefðu á ungfiskinn. Nú eru líkur fyrir því, að þessi niðurstaða komi 1930, eða a. m. k. um áramótin 1930 og 1931. Finst mjer því, að nú sje kominn sá tími, er nauðsynlegt er, að hafist verði handa af hálfu ísl. stjórnarvalda. Þess vegna hefi jeg flutt þessa till. nú, og vænti jeg, að Alþingi sje það ljúft, að málinu sje haldið vakandi með þeirri einurð og festu, er því hæfir.

Vil jeg svo ljúka máli mínu með því að óska þess, að allir taki höndum saman um að gera alt það, er mætti verða til þess, að okkur yrði nokkuð ágengt í þessu mikilsverða máli. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en óska þess, að áframhaldandi málaumleitanir í þessa átt verði til þess, að skamt verði að bíða þeirrar lausnar á þessu máli, sem Íslendingum er kærust.