13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3863)

49. mál, almannatryggingar

Jóhann Jósefsson):

Þessi till., sem hjer hefir komið fram, fjallar um merkilegt mál, sem lýtur að þörfum þjóðarinnar, og jeg vil lýsa yfir því, að mjer þykir vænt um, að við getum tekið sem flest spor, sem miða að því að koma almennum tryggingum, sem við eiga hjer á landi, í sem best horf. Það, sem mjer virðist, að okkur liggi mest á, er elli- og sjúkratrygging. Sjúkrasamlög munu að vísu vera til víða hjer á landi, en eins og segir í grg. fyrir till., gengur þeim seigt að fá fótfestu. Það er fyrst nú á síðari árum, að menn hafa farið að fá skilning á gagnsemi sjúkrasamlaga. Einkanlega mun því svo farið í Rvík, og máske fleiri kaupstöðum, en annarsstaðar munu menn vera daufir fyrir slíkum nýmælum. Jeg hallast að þeirri skoðun, að nauðsynlegt sje að koma á lögskipuðu fyrirkomulagi í þessum efnum, aðallega þó í elli- og sjúkra- tryggingum. Hinsvegar vil jeg taka það fram, að jeg hallast því aðeins að þessu, að það verði gert með lögum, þar eð hin aðferðin er alt of seinvirk og nær ekki fótfestu. Hvað ellitryggingu snertir er jeg alveg sammála flm. í því, að þeir, sem unnið hafa dagsverk sitt og eru komnir að fótum fram, eiga ekki að þurfa að kvíða ömurlegri elli og því að komast á vonarvöl, þar eð ellistyrkurinn ætti að vera nógur. Mjer þætti líklegt, úr því að þetta mál á að athugast í nefnd, að menn ljetu í ljós skoðanir sínar á því, áður en til nefndar kemur. Jeg þóttist verða þess var, að það vakti fyrir flm., að iðgjaldaþunginn ætti að hvíla á atvinnurekendum, og svo ætti að vera með allar tryggingar. Ennfremur þóttist jeg verða þess áskynja, að hv. flm. áleit, að útgerðarmönnum bæri frekari skylda til þess að greiða slysatryggingar en aðrar, en æskilegast virtist mjer, að hver einstaklingur legði sem mest af mörkum sjálfur, því að eins og hv. flm. sagði, er það „móralskur“ styrkleiki fyrir allan almenning að finna til þess og vita af því, að hafa lagt fje til hliðar fyrir sig og sína, og tryggja með því afkomuna. Það er mín skoðun, að löggjafinn eigi að skirrast við að draga úr framtaki og sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins með því að ákveða, hvað ríkið, bæir eða hreppar og atvinnuvegirnir eigi að leggja til. Það kom eitt sinn fram frv., sem hv. þm. Skagf. flutti í deild þessari, en í grg. var þess getið, að Kristján Linnet, fyrv. sýslum. Skagf., væri aðalhvatamaður þess. Jeg hefi orðið var við mjög mikinn áhuga hjá honum um þessi mál, enda hefir hann skrifað um þau ýmsar greinir, og þar á meðal reit hann nú nýlega grein í „Vöku“, er hann nefnir „öryggi afkomunnar“. Bendir hann þar á ýmiskonar ágreiningsatriði, sem eru á milli þeirra manna, sem vilja koma afkomunni í trygt og gott horf, en greinir aðeins lítið eitt á í rauninni.

Jeg ætla ekki að vera orðmargur um það, sem munar, en vildi hinsvegar minnast á það, að auðvitað verður það sjálfsagt rannsóknarefni þeirrar þingnefndar, sem um mál þetta kann að fjalla, hvað ríki og hjeruð eigi að leggja til og hvað einstaklingar. Jeg sagðist vera samþykkur elli- og sjúkrastyrknum í byrjun ræðu minnar, en till. þessi er víðtækari og fer fram á fleiri tryggingar en það. Nú eftir að hæstv. forsrh. hefir komið hjer fram með þær upplýsingar, að Brynjólfur Stefánsson hafi sagt sjer, að rannsókn sú, er honum var falið að gera, væri allmikið verk, — en þó var það nú aðeins ein greinin —, þá efast jeg um, að n. sú, er fengi mál þetta til athugunar, gæti lokið starfi sínu fyrir næsta þing, því að slíkt nál. verður að vera staðgott í öllum greinum, enda yrði slíkt fyrirtæki sem þetta að styðjast við haldgóða löggjöf. Eins og jeg sagði áðan, legg jeg aðaláhersluna á sjúkra- og ellistyrk, enda virðist hv. flm. hafa verið þar á sama máli, er hann telur þá styrki upp fyrst. Jeg hefi ekki athugað frá mínu sjónarmiði þær ástæður, sem hv. flm. flutti fyrir því, að nauðsyn bæri til að koma góðu ástandi á í tryggingum, og hvaða leiðir skyldu farnar í því efni, en jeg vildi leiða athygli að því, einkanlega hvað atvinnuleysistryggingar snertir, að óvíst er, hvort það fyrirkomulag, sem er í Danmörku, getur átt við hjer, þar eð menn verða að taka tillit til allra staðhátta. Hitt virðist mjer liggja nær, að hið opinbera sjái frekar fyrir atvinnu en gert hefir verið til þessa, þar eð nauðsyn ber til, að þeir menn, sem geta sannað, að þeir vilji fegnir vinna, en geti engan starfa fengið, fái styrk frá því opinbera. Jeg hefi heyrt, að þeir, sem notið hafa atvinnuleysistryggingar í Danmörku, hafi ekki viljað taka að sjer aðra vinnu en þá, sem greitt væri fyrir hærra kaup en styrknum nam. Þess vegna er jeg hræddur við, að þessi atvinnuleysistrygging geti orðið hættuleg atvinnuvegunum, en þó sjerstaklega landbúnaðinum, því að eins og allir vita, myndi hann eiga erfitt með að greiða hátt kaupgjald.

Jeg verð nú að segja það fyrir mitt leyti, að þótt ekki verði stigið stærra spor í áttina en það, að komið verði á slysa- og ellitryggingum fyrir árið 1930, þá má kalla, að vel sje af stað farið, og mitt álit er það, að atvinnuleysistryggingar sjeu ekki nauðsynlegar í sambandi við hinar.

Jeg vil nú ekki orðlengja þetta frekar, þar eð till. mun verða send til n., eins og er líka rjett.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.